Sjá, ég boða yður mikinn ófögnuð

Benedikt Jóhannesson

Það er aðdáunarvert þegar menn leggja í stórvirki, ekki síst verkefni sem engir aðrir gætu unnið. Bók Kjartans Ólafssonar, fyrrverandi ritstjóra og alþingismanns, Draumar og veruleiki, segir sögu Kommúnista- og síðar Sósíalistaflokksins á Íslandi. Bókin er afrek, nær 600 blaðsíður í stóru broti. Frásögn Kjartans er einstök, því að sagan er sögð innan frá séð. Hann talar um sína barnatrú „á öruggan sigur hugsjóna sósíalismans í veröldinni“. Hugmyndirnar biðu hvert skipbrotið á fætur öðru. Útlendu átrúnaðargoðin reyndust samviskulaus illmenni og fjöldamorðingjar, þau íslensku auðtrúa meðreiðarsveinar.

Bókin kennir okkur að sitt er hvað greind og dómgreind. Flokkurinn varð fjöldahreyfing sem bar öll einkenni sértrúarsafnaðar. Foringjar kommúnista voru margir vel gefnir, en trúðu í blindni á skipulag sem myndi „gera mennina góða“ eins og Einar Olgeirsson, helsti foringi þeirra, orðaði það árið 1921. Á sama tíma gekk leiðtogi lífs hans, Lenín, milli bols og höfuðs á hundruðum þúsunda.

Heilagur andi sveif yfir vötnum. Brynjólfur Bjarnason, formaður Kommúnistaflokksins á fjórða áratugnum, vitnaði: „Mikilleiki byltingarinnar er mikilleiki sögulegs sköpunarverks.“

Stalín drap á milli 10 og 20 milljónir manna. Slík afrek vinna menn ekki í kyrrþey, en sanntrúaðir Marxistar töldu réttarhöldin 1936-38, þegar Stalín lét taka af lífi flesta af sínum gömlu félögum, mikið afrek. Séra Gunnar Benediktsson gladdist: „Allir andstæðingar nasismans fagna nú af öllu hjarta málaferlunum, sem fram fóru í Moskvu fyrir nokkrum árum og mest veður var þá gert út af. Nú er lýðum orðið það ljóst að það var fimmta herdeildin í Sovétríkjunum, bandamenn nasismans þar, sem þá var upprætt.“ Hér vantar bara: „Guði sé þakkargjörð.“

Einar Olgeirsson syrgði Stalín sem var „góði félaginn, sem mat manngildið ofar öllu öðru“. Þegar hann var afhjúpaður á flokksþingi kommúnista árið 1956 af eftirmanni sínum, völdu sanntrúaðir sér Maó formann til að dýrka og dá. Hann setti árið 1958 í gang „Stökkið mikla“, efnahagsáætlun sem tók „nákvæmlega ekkert mark á efnahagslögmálum“. Afleiðingin var hungursneyð sem leiddi 20 til 40 milljónir manna til dauða. Brynjólfur Bjarnason fór til Kína ári síðar og hlaut vitrun: „Það leynir sér ekki að hér er þjóð sem mikil hamingja hefur fallið í skaut … Þessu fólki hefur verið fluttur mikill fögnuður“.

Foringjar íslenskra kommúnista voru ekki slæmir menn, en þeir trúðu  í einlægni á slæman málstað. Sérhver kynslóð virðist þurfa að reka sig á. Enn er til fólk sem vill vinna bug á auðvaldsskipulaginu á Íslandi, að alþýðan rísi upp, taki völdin og vinni lokasigur.

Í bókarlok segir Einar Olgeirsson við samflokksmann sinn eftir fall Sovétríkjanna: „Og á þessi ósköp trúði maður.“

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30.september. 2020