Bréf þingflokks til forseta Alþingis

Forseti Alþingis
Skrifstofu Alþingis

Reykjavík, 29. október 2020

Virðulegi forseti,

Í ljósi þeirra fordæmalausu áskorana sem íslenskt samfélag glímir við vegna Covid-19 heimsfaraldurs hefur hæstvirtur heilbrigðisráðherra staðfest fyrirmæli landlæknis og tillögur sóttvarnalæknis og gefið út tíðar reglugerðir sem ýmist samræmast eða ganga gegn ráðgjöf landlæknisembættisins. Reglunum er ætlað að vernda líf og heilsu fólks en fyrirkomulagið við setningu þeirra vekur þó áleitnar spurningar um forsendur að baki þeim. Álitamálin snúa meðal annars að því hvort of skammt eða langt sé gengið varðandi einstakar ráðstafanir, hvort þær byggi á heildstæðu mati á áhrifum á lífsviðurværi og andlega heilsu fólks og hvort jafnræðis sé gætt við ákvörðun og beitingu þeirra.

Til að varpa ljósi á forsendur sóttvarnaráðstafana, og til að auka fyrirsjáanleika þeirra, er þörf á opinni og gagnsærri umræðu um þær. Framangreind álitamál eru til staðar vegna þess að ákvarðanir um ráðstafanirnar hafa verið teknar í skjóli ráðherravalds án aðkomu og umræðu kjörinna fulltrúa á Alþingi. Umræða á Alþingi er nauðsynleg til að tryggja breiða sátt um þær reglur sem settar eru til verndar heilsu þjóðarinnar sem og áframhaldandi traust í garð stjórnvalda. Við aðstæður sem þessar er brýnt að Alþingi sé gert fært að sinna eftirlitshlutverki sínu. Það verður best gert með því að reglubundið samtal eigi sér stað á Alþingi með upplýsingagjöf af hálfu heilbrigðisráðherra.

Af þessum sökum óskar þingflokkur Viðreisnar eftir því að forseti Alþingis færi hæstvirtum heilbrigðisráðherra, fyrir hönd þingsins, formlega beiðni um reglulega skýrslugjöf heilbrigðisráðherra meðan umrætt ástand varir. Óskar þingflokkurinn jafnframt eftir því að sérstökum tíma af þingstörfum verði varið til umræðu um skýrslugjöfina. Í ljósi þess að daglega berast nýjar fréttir af samfélagslegum og einstaklingsbundnum áhrifum kórónuveirunnar og þar sem sóttvarnaráðstafanir eru tíðar og gilda yfirleitt til tveggja vikna að lágmarki, leggur þingflokkurinn til að skýrslugjöf og umræður fari fram annan hvern mánudag, frá öðrum mánudegi í nóvember og þar til þörfin á sérstökum ráðstöfunum er yfirstaðin.

Þingmenn Viðreisnar binda vonir við að hæstvirtur forseti Alþingis sé þeim sammála um hversu brýn þörf sé á upplýstri umræðu þingsins um sóttvarnaráðstafanir stjórnvalda og bregðist við erindi þeirra í samræmi við það.

Fyrir hönd þingflokks Viðreisnar,

Hanna Katrín Friðriksson