Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir: Umræða um stefnuræðu forsætisráðherra

Kæru landsmenn.

Hér áttum við að heyra stefnuræðu forsætisráðherra. En í staðinn fengum við varnarræðu ríkisstjórnarinnar. Uppfulla af réttlætingu yfir því að ráðherrarnir fóru þvert gegn eigin yfirlýsingum í upphafi faraldursins – um að gera meira en minna. Réttlæting á því að þau tóku lítil skref – í stað stórra skrefa.  Strax.

Þessi varnarræða veitti þjóðinni ekki leiðsögn og von um það hvernig við förum út úr þessum erfiðleikum, hvernig á að taka utan um fólkið okkar – félagslega – efnahagslega og andlega. Hvernig halda á lífinu í litlu og meðalstóru fyrirtækjunum, verja störfin. Ræðan sendi ekki skilaboð til Suðurnesjanna þar sem atvinnuleysi er nú um 20%, til unga fólksins sem á erfiðara en áður að fá vinnu, til listamanna sem fótum hefur verið kippt undan eða einyrkja.

Hvernig ríkisstjórnin ætlaði að gæta þess að almenningur verði þátttakandi í viðreisn atvinnulífsins og hvernig við brúum bilið milli þeirra sem eiga mikið og þeirra sem eiga lítið sem ekkert. Að endurreisnin verði ekki eingöngu á forsendum gamla fjármagnsins og kunnuglegu vinanna. Eins og síðast, og þarsíðast.

Virðulegi forseti,

Bráðavandi heimila og lítilla fyrirtækja er núna. Á þessari stundu. Á fyrsta degi eftir mánaðarmót. Það vantar allt samræmi á milli sóttvarnaráðstafana og efnahagsákvarðana. Ef stóru skrefin verða ekki tekin strax þá er ríkisstjórnin að bjóða þjóðinni upp á langvarandi kreppu. Það er óboðleg forgangsröðun. 

Þótt ríkisstjórnin telji það lögmál að vera alltaf einu skrefi á eftir veirunni þá þarf það ekki að vera svo. Í þessar, nú þriðju bylgju er enn skortur á plani og samtali, skýrri sýn – sem þjóðin öll skilur.

Veikleikar stjórnarinnar, sem reist var á þeirri einu hugsun að halda hlutum óbreyttum, verða augljósir þegar óvæntar aðstæður og áskoranir koma upp. Ríkisstjórn kyrrstöðunnar, ríkisstjórn lægsta samnefnarans er ekki best til þess fallin að bregðast hratt og örugglega við. Hvað þá taka stór skref.

Kæru landsmenn

Við blasir úrslitabarátta í einu stærsta deilumáli stjórnmálanna. Hvernig á auðlindaákvæði í stjórnarskrá að líta út? Stjórnarflokkarnir og Miðflokkurinn, hafa lofað útgerðinni að koma ákvæði án tímabindingar veiðiréttar í gegn. Tillagan sem nú liggur fyrir er merkingarlaus. Breytir engu. Ef eitthvað er eykur hún líkur á að sameign þjóðar verði séreign fárra. Við því verður að spyrna. Þar munum við í Viðreisn standa vaktina.

Og Krónan, örgjaldmiðillinn okkar hefur veikst hratt á liðnum mánuðum. Verðbólgan hefur tvöfaldast. Matarkarfan hækkað. En gjaldmiðilinn, hann má ekki ræða.  „Ekki núna – seinna“ segja ríkisstjórnarflokkarnir og lobbyistar þeirra. En þá spyr ég – hvenær? Hvenær má ræða eitt mesta hagsmunamál almennings – stöðugleika heimilsbókhaldsins? Af hverju þrífast nýsköpunarfyrirtæki ekki á Íslandi til lengri tíma, þótt hugmyndin vakni hér? Hvers vegna mega stórfyrirtæki gera upp í erlendri mynt meðan heimilin eru látin taka áhættuna af krónunni?  Af hverju erum við með gjaldmiðil sem bara fyrir suma en ekki alla? Er ekki sönnunarbyrðin á þeim sem standa gegn breytingum? Gleymum ekki að samfélag snýst um fólk – ekki kerfi eða hagsmuni fárra.  Um það munu næstu kosningar snúast.

Og vel að merkja – þá dugar nú lítt fyrir þingmenn Sjálfstæðisflokks að skrifa reglulega aflátsbréf í ríkisstyrkt Morgunútgerðablað til að firra sig ábyrgð á útgjaldaþenslu síðustu ára, sem þó er öll á vakt flokksins og skrifa um mikilvægi frelsismála en þramma svo hingað niður á þing og greiða ítrekað atkvæði gegn eigin orðum og grundvallarhugsjónum. Sem voru þá kannski ekki hugsjónir þeirra eftir allt saman.

Og það sama má segja um stjórnarliða VG, sem segjast standa fyrir grænni framtíð en kjósa síðan með blárri fortíð. Þetta er flokkurinn sem segist vera á móti hvalveiðum og vill uppfæra sjávarútvegskerfið- en gerir ekkert í því. Flokkurinn sem segist vilja mæta flóttamannavandanum af mannúð, en hefur bara sýnt hið gagnstæða. Við vitum að það mun ekki breytast á vakt þessarar ríkisstjórnar. Það er kominn tími til að stjórnarflokkarnir hætti þessu sýndarleikriti sem sett er upp fyrir framan alþjóð. Tjöldin eru að falla og þá er mikilvægt að þjóðin sjái hvað raunverulega býr að baki.

Kæru landsmenn,

Að ári getur þjóðin valið að framlengja í lífi ríkisstjórnar kyrrstöðunnar. Eða mynda ríkisstjórn fyrir fjöldann þar sem miðja stjórnmálanna verður kjölfestan og frjálslyndið þráðurinn. Og skilin eru skörp á milli  fortíðarflokkanna sem engu vilja breyta og þeirra flokka sem þora að tala um umbætur á íslensku stjórnkerfi, íslensku samfélag – flokka sem eru engum háðir. Eru frjálsir. Þetta frelsi mun Viðreisn nýta. Fyrir minni fortíð og popúlisma líkt og Sigmundur Davíð bauð hér upp á áðan, meiri mennsku og frjálsari framtíð.

Ég undirstrika. Kæra þjóð.

Ykkar – er – valið.