Já yðar sé já og nei sé nei

Þorsteinn Pálsson

Í Fjallræðunni segir: „En þegar þér talið sé já yðar já og nei sé nei.“

Í umræðum á Alþingi 8. desember 1969 um inngöngu Íslands í EFTA sagði Ólafur Jóhannesson formaður Framsóknarflokksins:

„Ég hef aldrei getað aðhyllst þá kenningu, að ræða manns ætti að vera já, já eða nei, nei.“

Síðustu hálfa öld hafa fá orð í þingræðum orðið jafn fleyg og þessi.

Klofningur, EFTA og sóttvarnir

Framsókn var klofin um EFTA-aðildina. Hún var í stjórnarandstöðu. Hjáseta var því einföld lausn til að halda flokknum saman. Hefði Framsókn aftur á móti átt aðild að ríkisstjórn hefðu þingmenn hennar ekki komist hjá að taka afstöðu í atkvæðagreiðslu eða með því að láta af stuðningi við hana.

Þessi gamla já, já og nei, nei þingræða kemur upp í hugann nú þegar þingmenn tala gegn sóttvarnaráðstöfunum ríkisstjórnarinnar. En öfugt við stöðu Framsóknar, þegar deilt var um EFTA, eru það einkum þingmenn, sem bera stjórnskipulega og pólitíska ábyrgð á setu og athöfnum ríkisstjórnarinnar, sem andæfa henni í orði en styðja í verki í þessu máli.

Spurningar og ábyrgð

Þau vísindi, sem pólitískar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar í sóttvörnum byggjast á, eru ekki annaðhvort svört eða hvít. Álitaefnin eru fjölmörg. Þau eru hins vegar ekki til umfjöllunar í þessari grein, heldur pólitíska ábyrgðin á niðurstöðunni.

Þingmenn stjórnarflokka hafa nákvæmlega sömu skyldur og þingmenn stjórnarandstöðu. Sé eitthvert mál óskýrt ber þeim að spyrja spurninga. Hafi þeir efasemdir ber þeim að greina frá þeim.

Kjósendur eiga svo rétt á að vita hvaða rök búa að baki þegar þingmenn taka ákvarðanir. Það sama á við þegar þeir veita ráðherrum vald til að framkvæma. Því fylgir ábyrgð, sem stjórnarþingmenn bera, en stjórnarandstæðingar ekki.

Meðvirkni lýkur

Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins skrifaði grein á Vísisvefinn 9. nóvember síðastliðinn. Þar má lesa þessi þrjú kjarna atriði í skoðunum hans á sóttvarnaráðstöfunum ríkisstjórnarinnar:

1. „Ríkisvaldið hefur stigið stærri skref til alræðis undanfarna mánuði en nokkru sinni fyrr í okkar sögu.“

2. „Þessi veira er ekki slíkt neyðarástand sem réttlæti að setja blóðtappa í þjóðarlíkamann með svona almennum og íþyngjandi takmörkunum.“

3. „Nú er svo komið að meðvirkni minni er lokið.“

Meðvirknin heldur áfram

Taka verður undir með þingmanninum, þegar hann í lok greinar sinnar segir, að þetta sjónarmið þurfi ekki að kalla á „útskúfun eða aðra opinbera smánun“. Hann hefur vissulega fært rök fyrir máli sínu. Sumir eru þeim sammála, aðrir ekki.

En þingmaðurinn skuldar svör við hinu: Hvers vegna tekur hann stjórnskipulega og pólitíska ábyrgð á setu ráðherra, sem að hans mati hefur stigið stærri skref í átt til alræðis en áður í sögunni án þess að slíkt neyðarástand sé fyrir hendi, sem réttlæti það? Og hvers vegna heldur hann því áfram þrátt fyrir að meðvirkni hans sé í orði kveðnu lokið?

Fyrir þessu geta verið rök. Kjósendur eiga bara nokkurn rétt á að vita hver þau eru. Já, já og nei, nei pólitík er snúnari í stjórn en stjórnarandstöðu.

Minnihlutastjórn?

Umræða síðustu vikna bendir til þess að margir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi líkar skoðanir á sóttvarnaaðgerðum ríkisstjórnarinnar utan Alþingis.

Enginn veit þó með fullri vissu hvernig þeir myndu greiða atkvæði á þingfundi. Styðja þeir í reynd ráðstafanir, sem þeir segjast vera á móti? Flest bendir til að svo sé. Þannig helst flokkurinn saman.

Ef ummæli þingmanna Sjálfstæðisflokksins eru aftur á móti tekin bókstaflega er ríkisstjórnin í minnihluta. Þá er líf hennar háð því að stjórnarandstaðan vilji ekki nota þetta mál til að bregða fæti fyrir hana.

Einfaldasta leiðin til að eyða óvissu um þetta er að bera þessar ákvarðanir beint og formlega undir þingið.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 19. nóvember 2020