Mikilvægt val á nýju ári

Þorsteinn Pálsson

Sjóðsöfnun lífeyrisréttinda er styrkasta stoð velferðarkerfisins. Grunnurinn að því var lagður í kjarasamningum fyrir hálfri öld. Á nýju ári stendur það við vatnaskil.

Sívaxandi þungi í kröfum stjórnvalda um að lífeyrissjóðir fjármagni óhjákvæmilega skuldasöfnun ríkissjóðs vegna kórónuveirukreppunnar veldur tvíþættri ógn: Önnur er sú að við getum í reynd færst yfir í gegnumstreymiskerfi. Hin felst í þeirri nauðsyn að ríkissjóður greiði kreppulánin ekki til baka í jafngildum verðmætum.

Velferðarkerfi í hættu

Reynsla okkar og annarra hefur sýnt að lífeyrir sem byggir á sjóðsöfnun, er miklu traustari fyrir launafólk en lífeyrir, sem fæst með samtíma skatttekjum. Ef útgjöld ríkisins í dag eru greidd með iðgjöldum lífeyrissjóða byggjast lífeyrisgreiðslur eftir tíu ár á samtíma skatttekjum.

Með því móti yrði söfnun lífeyrisréttinda nafnið eitt. Vilja menn falla með straumnum í þá átt? Að ári getur verið of seint að snúa við leggi menn af stað inn á þessa braut. Það á ekki að gerast umræðulaust.

Lífeyrissjóðirnir eiga nú þegar óeðlilega mikið af skuldum ríkissjóðs og eru of stórir á innlendum hlutabréfamarkaði. Að sama skapi dreifa þeir áhættu sinni ekki í nægjanlega ríkum mæli í öðrum stærri hagkerfum.

Fyrir sex árum skrifaði núverandi seðlabankastjóri þetta: „Lágt raungengi, viðskiptaafgangur og útflutningur lífeyrissparnaðar er einnig forsenda fyrir útflutningsdrifnum hagvexti, efnahagslegum stöðugleika og þjóðhagslegum sparnaði.“ Þessi orð eru jafn gild í dag.

Óréttlát lausn

Enginn vegur er að byggja upp sjóðsöfnun til margra áratuga nema í gjaldmiðli, sem getur geymt verðmæti. Verðtryggða krónan og erlendar eignir eru þar af leiðandi sterkasti grundvöllur þeirra réttinda, sem launafólk á í sjóðunum.

Ríkissjóður notar hins vegar óverðtryggðar krónur. Hann mun ekki ráða við nýju lánin nema vextir verði verulega lægri en hagvöxtur. Lífeyrissjóðir, sem nota iðgjöld til að kaupa slíkar skuldir, geta aftur á móti ekki tryggt launafólki réttindi í jafngildum verðmætum.

Það sem stjórnvöld eru að segja í raun og veru er þetta: Það verður ekki niðurskurður hjá ríkissjóði heldur fellur sú áhætta á þann hluta velferðarkerfisins, sem stendur utan hans.

Aðferðin er einföld. Hún gengur auðveldlega upp. Og menn finna ekki fyrir afleiðingunum fyrr en eftir nokkur ár. En óréttlætið mælist í öfugu hlutfalli við einfaldleikann.

Tvær leiðir

Þetta vandamál kemur ekki upp hjá þjóðum, sem nota eða eru fasttengdar gjaldmiðli, sem getur geymt verðmæti til lengri tíma.

Samhljómur virðist vera milli ríkisstjórnarflokkanna og stjórnarandstöðunnar um þá skynsamlegu afstöðu að borga nýju skuldirnar hvorki með nýjum sköttum né niðurskurði hjá ríkissjóði. Þá eru bara tvær leiðir færar:

Önnur er sú að þvinga stjórnendur lífeyrissjóðanna til að axla ábyrgð á því að framtíðarréttindi til lífeyris verði skert, eða í besta falli að þeim verði teflt í mikla tvísýnu með kaupum á ríkisskuldum.

Hin leiðin felst í því að taka upp eða tengjast gjaldmiðli, sem geymt getur verðmæti, og tryggja þannig bæði ríkissjóði og lífeyrissjóðum jafna stöðu við grannlöndin.

Ákvörðun kjósenda

Verkalýðsfélög og samtök atvinnufyrirtækja hafa sameiginlega borið ábyrgð á söfnunarkerfi lífeyrisréttinda. Það hefur reynst farsæl skipan. En nú reynir á þessa forystu.

Ef forsendur eru brostnar fyrir verðtryggðum réttindum í sjóðunum þurfa stjórnendurnir að ræða opinskátt og í fullri hreinskilni hvað það þýðir fyrir þá sem réttindin eiga og hvaða leiðir eru færar. Kjölfestan í velferðarkerfinu er í húfi.

Eignir lífeyrissjóðanna eru félagslegt fjármagn, sem þjónar aðeins einu markmiði. Þátttaka sjóðanna á verðbréfamörkuðum er nauðsynleg. En mikilvægt er að hafa í huga að þar lýtur hún öðrum lögmálum en áhættusjóðir einkaaðila. Söfnunarkerfi lífeyrisréttinda er heldur ekki tæki fyrir ríkissjóð við lausn efnahagsáfalla.

Það er hlutverk kjósenda á grundvelli upplýstrar umræðu að taka afstöðu til þeirra tveggja meginleiða, sem færar eru til að mæta skuldastöðu ríkissjóðs. Að réttu lagi ætti þetta að vera eitt helsta mál kosninga á nýju ári.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 31. desember 2020