Bætt stjórnsýsla opinberra framkvæmda getur sparað stórfé

„Við erum stödd í efnahagsástandi sem kallar á miklar opinberar framkvæmdir og þá skiptir svo miklu máli að við getum vandað okkur, hver prósenta sem sparast skiptir svo miklu máli. Þetta er mjög stórt mál fyrir Íslendinga alla að tekið sé fast á þessu,“ sagði Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar á opnum fundi um misbresti í opinberum framkvæmdum.  Undir þetta tók Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs og oddviti Viðreisnar í Reykjavík. „Við erum búin að áætla að fara í miklar fjárfestingar og allir vilja hlaupa hratt en þá er ástæða til að setjast niður og staldra við,“ sagði Þórdís Lóa. Hægt er að horfa á upptöku af fundinum á facbeooksíðu Viðreisnar.

Jón bætti við að þið þurfum að læra af Norðmönnum og setja upp öflugra samtal og samstarf á milli helstu hagaðila þegar kemur að opinberum framkvæmdum. Fram kom í máli Þórðs Víkings Friðgeirssonar, lektors við hagfræðideild Háskólans í Reykjavík að Norðmenn hafi náð að bæta skipulag opinberra framkvæmda, með samstilltu átaki stjórnsýslunnar, fræðimanna og atvinnulífsins með þeim afleiðingum að tugir milljóna norskra króna sparast árlega.

Í stað þess að 80% opinberra framkvæmda fari yfir kostnaðaráætlun séu nú 80% verkefna á eða undir áætlun, þar af séu öll stór verkefni á áætlun. Upphæð heildarfjárfestingar hafi lækkað um 7% sem komi ekki niður á gæðum verkefna, verkefnastjórnun eða skipulagi. Aðspurður hvað þurfi til að koma á viðlíka breytingu hér á Íslandi segir hann þurfa eldmóð innan íslensku stjórnsýslunnar til að þarna verði breytingar, í Noregi hafi það verið aðili í fjármálaráðuneytinu sem mikinn áhuga, sem hafi leitt breytingar í höfn.

Ekki er slíkan eldmóð að finna í íslenskri stjórnsýslu. Eins og fram kom hjá Jóni Steindóri Valdimarssyni, þingmanni Viðreisnar hefur verið rætt um breytingar á lögum um opinber innkaup en lítil hreyfing sé á málinu. Þá var þingsályktunartillaga hans um tryggingu gæða, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga samþykkt einróma í apríl 2018. Gekk tillagan út á að ríkið myndi setja sér stefnumörkun til að tryggja þessi markmið og skipaður yrði sérstakur starfshópur sérfræðinga um málið. Þrátt fyrir eftirfylgni Jóns Steindórs með áminningum og fyrirspurnum á þingi hefur fjármálaráðherra ekkert brugðist við henni, sem eru mikil vonbrigði.

Runólfur Þór Ástþórsson, framkvæmdastjóri VSÓ Ráðgjafar talaði um reynslu sína frá Noregi. Almennt sé kostnaður á verkefnum vanmetinn. Við þessu hafi verið brugðist í Noregi með því að bæta óvissu- og áhættumat með aðkomu allra hagaðila til að tryggja að tekið sé tillit til alls kostnaðar sem tengist verkefninu.

Þórdís Lóa rakti þær breytingar sem gerðar hafa verið í Reykjavík frá því Viðreisn kom inn í borgarstjórn, meðal annars til að bregðast við skýrslum sem sögðu að einkenni þeirra verkefni sem færu yfir kostnaðaráætlun væri að farið væri af stað án þess að hönnun væri fullkláruð eða þarfagreiningu væri lokið. „Þegar við í Viðreisn komum inn í borgarstjórn sáum við að þegar kemur að framkvæmdum þá voru þar tækifæri til úrbóta. Það er margt sem við höfum verið að laga en hægt að gera betur. Allt sem við getum gert til að bæta úr skiptir svo miklu máli fyrir fjárfestingu og fjármagnskostnað sveitarfélaganna nú.“

Theodóra Þorsteinsdóttir, oddiviti BF Viðreisnar í Kópavogi var fundarstjóri og stýrði umræðum. Hægt er að horfa á upptöku af öllum fundinum.