Hættum að niðurlægja bændur

Benedikt Jóhannesson

Ekkert fer jafnmikið í taugarnar á bændum og að heyra að þeir lifi á ölmusum frá ríkinu. Neytendum finnst líka afleitt hve matarkarfan er dýr. Það er kominn tími á sátt.

Á hverju ári renna um 30 milljarðar króna til landbúnaðar. Helmingurinn kemur beint frá ríkinu en hinn hlutinn er greiddur af neytendum í formi yfirverðs á landbúnaðarafurðum í skjóli tolla og innflutningskvóta. Halldór Blöndal lét meta þennan hluta af sérfræðingum meðan hann var landbúnaðarráðherra. Síðan hafa flestir viðurkennt þessa byrði neytenda af verndinni.

Í nýlegri grein í Vísbendingu segir Sigurður Jóhannesson: „Gefum okkur líka að stuðningnum sé einkum ætlað að styðja við byggð í sveitum, gamlan atvinnuveg og menningu. … En ef þetta eru meginmarkmið landbúnaðarstefnunnar má færa rök að því að fénu sé ekki vel varið.“

Bændur eru sannarlega ekki skúrkarnir í þessari sögu. Því miður hafa þeir oft verið óheppnir með talsmenn og forystu sem hefur talið að hún ætti fyrst og fremst að verja óhagkvæmt og úrelt kerfi. Nýlegur dómur um misnotkun Mjólkursamsölunnar á markaðsráðandi stöðu er dæmi um þetta. Þrálátar deilur eru engum til góðs og löngu kominn tími til að slíðra sverðin og finna hagkvæma lausn fyrir bæði bændur og neytendur.

Hagstofa Íslands sýnir afkomu sauðfjárbúskapar, sem líklegast eru þjóðlegasta búgreinin. Um helmingur sauðfjárræktenda er með minna en 200 kindur. Árin 2017-18 töpuðu þessir aðilar 3-400 milljónir hvort ár. Skuldirnar þeirra voru nálægt þremur og hálfum milljarði króna. Þær skuldir verða ekki greiddar af slíkum rekstri. Stærri búin voru þó réttum megin við strikið í afkomu en skuldir miklar og eigið fé lítið.

Vill stór hluti þjóðarinnar samt ekki einmitt styrkja þennan þjóðlega rekstur? Fólki finnst notalegt að sjá kindur flæða um hálendið og naga grasbörð. Margir borga glaðir fyrir þann lúxus. En hvert renna peningarnir? Sigurður segir:

„Stór hluti fjárins rennur til íslenskra framleiðenda eggja, kjúklinga og svínakjöts. Þeir geta sett upp hátt verð í skjóli hárra tolla á þessum vörum. Á árunum 2017-2019 var framlag neytenda vegna þessa yfir 70% af því sem bændur fengu fyrir kjúklinga og egg og rúmur helmingur af því sem bændur fengu fyrir svínakjöt. Kjúklinga- eggja- og svínabú eru fá og minna meira á verksmiðjur en hefðbundinn búskap. Þau breyta litlu um byggð í sveitum. Tilvera þeirra réttlætir tæpast milljarðastuðning.“

Með beingreiðslum til þeirra sem stunda alvörubúskap má fella niður tolla og innflutningskvóta og greiða sambærilega fjárhæð beint til bændanna. Þá batnar hagur beggja, neytenda og bænda. Ríkið gæti jafnvel greitt upp skuldir allra sauðfjárbænda gegn hagræðingu í greininni. Allt sem þarf er vilji og þor til þess að fórna óhagkvæmu kerfi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu  12. mars 2021