Nýju höftin Sjálf­stæðis­flokksins

Nýju fötin keisarans í ævin­týri H. C. Ander­sen af­hjúpuðu hégóma og sjálfs­blekkingu. Nýju höftin Sjálf­stæðis­flokksins í frum­varpi, sem fjár­mála­ráð­herra hefur lagt fram á Al­þingi, af­hjúpa líka hégóma og sjálfs­blekkingu um krónuna.

Frum­varp fjár­mála­ráð­herra felur í sér að auk þjóð­hags­var­úðar­tækja fái Seðla­bankinn og fjár­mála­ráð­herra vald til þess að skella á jafn um­fangs­miklum fjár­magns­höftum og giltu eftir hrun krónunnar og fall bankanna 2008.

Vald­fram­salið gerir ekki einu sinni ráð fyrir neinni pólitískri um­ræðu um svo viða­miklar og af­drifa­ríkar á­kvarðanir. Um þær á ein­fald­lega að véla í lokuðum her­bergjum.

Varan­legt van­traust á gjald­miðlinum

Senni­lega er þetta í fyrsta skipti sem stjórn­mála­flokkur hefur kosninga­bar­áttu með svona af­gerandi upp­gjafar­yfir­lýsingu.

Fast­heldni við krónuna og and­staða við hvers kyns al­þjóð­legt sam­starf í gjald­miðils­málum hefur verið horn­steinn í efna­hags­stefnu Sjálf­stæðis­flokksins síðustu ár. Nú koma hins vegar tals­menn hans og segja að krónan gangi ekki upp nema Seðla­bankinn og fjár­mála­ráð­herra fái varan­lega víð­tækustu hafta­heimildir sem þekkjast á Vestur­löndum.

Þessi að­gerð felur ekki í sér tíma­bundnar að­gerðir eins og eftir hrun. Það er verið að fram­selja Seðla­bankanum og fjár­mála­ráð­herra varan­leg og við­varandi hafta­völd í gjald­eyris­málum. Á­stæðan er sem sagt ekki stundar­erfið­leikar heldur varan­legt van­traust á gjald­miðlinum.

Aðrar leiðir eru færar

Það vill svo til að Við­reisn er sam­mála þessu nýja mati Sjálf­stæðis­flokksins á krónunni. Svo lengi sem við höldum krónunni eru gjald­eyris­hafta­á­form fjár­mála­ráð­herra ó­hjá­kvæmi­leg.

Á­stæðan fyrir þeim grund­valla­r­á­greiningi, sem ríkir milli Við­reisnar og Sjálf­stæðis­flokksins, liggur í hinu að við þurfum ekki að þrengja að sam­keppnis­stöðu landsins með þessum hætti. Okkur eru aðrar leiðir færar. Því hafnar Sjálf­stæðis­flokkurinn.

Það eru sér­stök skila­boð til ferða­þjónustunnar og þekkingar­iðnaðarins að hóta nú gjald­eyris­höftum þegar mest á ríður að auð­velda þessum greinum að hlaupa hraðar. Meðal annars með því að laða að er­lenda fjár­festingu.

Al­þjóð­legt sam­starf ó­hjá­kvæmi­legt

Við höfum sýnt fram á að það myndi þjóna best sam­keppnis­stöðu landsins að taka upp evru með aðild að evrópska mynt­banda­laginu og Evrópu­sam­bandinu. Kreppan kallar hins vegar á skjót­virkari lausnir.

Guð­mundur Magnús­son fyrr­verandi há­skóla­rektor og Stefán Már Stefáns­son fyrr­verandi laga­prófessor hafa í greinum sýnt fram á að Ís­landi á að standa opin leið að semja við Evrópu­sam­bandið um sam­starf til þess að tryggja stöðug­leika á innri markaðnum, sem við eigum aðild að. Við höfum lagt til að þessi leið verði farin.

Í ljós hefur komið að kreppan er ekki eins mikil og menn héldu í fyrstu. Það er engin gjald­eyris­kreppa eins og 2008. Bankarnir blómstra. Sóknar­færin bíða. Samt þarf að lög­festa hafta­heimildir.

Eigum ekki að hlaupa í öfuga átt

Á­stæðurnar fyrir því blasa við:

Við erum eina þjóðin á Vestur­löndum þar sem veirufar­aldurinn hefur leitt til aukinnar verð­bólgu. Hér hefur verð­bólgu­þakið verið sprengt og at­vinnu­leysi aldrei verið meira. Þrátt fyrir sér­sniðna krónu.

Ríkis­stjórnin fær ekki inn­lend lán á við­ráðan­legum kjörum eins og hún stefndi að í fyrra. Þess í stað eru tekin er­lend lán með mikilli gengis­á­hættu, sem skatt­borgararnir á­byrgjast.

Seðla­bankinn hefur ekki getað staðið við fyrir­heit sín um inn­lenda láns­fjár­öflun fyrir ríkis­sjóð og lýsir nú á­hyggjum yfir því að út­gjalda­á­form ríkis­stjórnarinnar séu of mikil. Og menn óttast vaxta­hækkun.

Sam­tök at­vinnu­lífsins segja að fjár­mála- og efna­hags­á­ætlun ríkis­stjórnarinnar sýni að væntan­legur hag­vöxtur verði of lítill til að standa undir lánum ríkis­sjóðs og því þurfi að skera niður eða hækka skatta.

Þegar málum er þannig komið sér Sjálf­stæðis­flokkurinn það eitt til ráða að fá Al­þingi til að fram­selja seðla­banka­stjóra og fjár­mála­ráð­herra ó­tak­markað vald til þess að beita gjald­eyris­höftum.

Þetta heitir ekki að hlaupa hraðar. Þetta er að hlaupa í öfuga átt.

Líf­eyris­þegar í mestri hættu

Skað­semi gjald­eyris­hafta er marg­vís­leg. Heimildirnar einar hræða er­lenda fjár­festa. Beiting þeirra veikir sam­keppnis­hæfni Ís­lands. Hún leiðir ó­hjá­kvæmi­lega til mis­mununar. Af­leiðingin er spilling. Þeir sem telja sig hagnast á henni gleðjast hins vegar.

Ein mesta hættan felst þó í því að Seðla­bankinn og fjár­mála­ráð­herra muni nota hafta­heimildirnar til þess að loka líf­eyris­sjóðina af í hag­kerfi sem þeir eru löngu vaxnir upp úr. Á sama tíma er Seðla­bankinn að þrýsta á fjár­mála­ráð­herra að af­nema á­vöxtunar­kröfu líf­eyris­sjóðanna, sem er eina hald­reipi sjóð­fé­laganna.

Þróist mál á þennan veg verða líf­eyris­sjóðirnir að lána ríkis­sjóði á vöxtum sem verða til muna lægri en hag­vöxturinn. Þar með geta þeir ekki tryggt sjóð­fé­lögunum ó­skertan líf­eyri í fram­tíðinni. Þetta þýðir að í stað al­mennra skatta­hækkana eða niður­skurðar eins og Sam­tök at­vinnu­lífsins spá verða líf­eyris­þegar látnir bera baggana.

Raun­sæi í stað sjálfs­blekkingar

Hér þarf öfluga við­spyrnu. Nýja hugsun. Við þurfum strax að leita eftir al­þjóð­legu sam­starfi til að tryggja stöðug­leika gjald­miðilsins. Sjálfs­blekkingin má ekki ráða för. Við þurfum raun­sæi til þess að auð­velda ferða­þjónustu og þekkingar­iðnaði að hlaupa hraðar en ekki síður verja hags­muni líf­eyris­þega.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 23. mars 2021