Réttlæti og hagkvæmni

Sam­tök fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi standa ein­arðlega vörð um regl­ur, sem tryggt hafa meiri hag­kvæmni í rekstri ís­lensks sjáv­ar­út­vegs en þekk­ist ann­ars staðar. Sú verðmæta­sköp­un sem þetta kerfi hef­ur skapað skipt­ir miklu máli fyr­ir efna­hags­líf lands­ins. Hags­mun­ir heild­ar­inn­ar og lands­byggðar­inn­ar mæla ein­dregið með því að henni verði ekki raskað.

Ágrein­ing­ur okk­ar við Sam­tök fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi snýst um annað. Þau telja að fiski­miðin séu eina auðlind­in í þjóðar­eign þar sem hag­kvæmni og rétt­læti geti ekki farið sam­an. Hér erum við á önd­verðum meiði.

Lyk­ill­inn er eng­inn galdrastaf­ur

Lyk­ill­inn að þeirri lausn er eng­inn galdrastaf­ur. Hann er ein­fald­lega sá sami og notaður er til að tryggja hag­kvæmni og rétt­læti við nýt­ingu allra annarra nátt­úru­auðlinda, bæði hér heima og ann­ars staðar.

Þessu tvö­falda mark­miði má sem sagt ná með því að veita þröng­um hópi einka­rétt á auðlind­um til nýt­ing­ar í til­tek­inn tíma gegn gjaldi. Einka­leyfið fel­ur í sér tak­mörkuð eign­ar­rétt­indi. Sann­gjarnt gjald fyr­ir slík rétt­indi end­ur­spegl­ast síðan í verði þeirra.

Rík­is­stjórn­in hef­ur ákveðið að gera sjáv­ar­út­vegs­mál­in að einu helsta deilu­efni næstu kosn­inga. Hún hef­ur fall­ist á þá skoðun Sam­taka fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi að fiski­stofn­ar við Ísland séu eina auðlind­in í ver­öld­inni sem ekki sé unnt að nýta þannig að sam­an fari hag­kvæmni og rétt­læti.

Tví­veg­is hafa flokk­ar rík­is­stjórn­ar­inn­ar á þessu kjör­tíma­bili fellt til­lög­ur frá Viðreisn og fleiri flokk­um um að tíma­binda nýt­ing­ar­rétt­inn í al­menn­um lög­um. Stefnu SFS skal frek­ar fylgt.

Rík­is­stjórn­in vel­ur ófrið

En kosn­inga­stríðshansk­an­um var þó ekki kastað fyrr en formaður VG flutti til­lögu að nýju stjórn­ar­skrárá­kvæði um auðlind­ir í þjóðar­eign. Þar er ekki gert ráð fyr­ir grunn­regl­unni um tíma­bind­ingu nýt­ing­ar­rétt­ar. Í stað þess ætl­ar rík­is­stjórn­in að veita al­menn­ingi falska ör­yggis­kennd um sjálfa þjóðar­eign­ina.

Nýja stjórn­ar­skrárá­kvæðið viðheld­ur áfram þeirri sérreglu í al­menn­um lög­um að einka­rétt­ur til nýt­ing­ar fiski­miðanna sé ótíma­bund­inn. Meðan öll önn­ur einka­rétt­indi eru eðli­lega háð mis­mun­andi tíma­mörk­um.

Þegar festa á órétt­lætið í sessi með nýju stjórn­ar­skrárá­kvæði af þessu tagi er óhjá­kvæmi­legt að kjós­end­ur fái að segja álit sitt. Sérregla um áfram­hald­andi rang­læti við út­hlut­un afla­heim­ilda er orðið að meg­in­máli í kom­andi kosn­ing­um.

Stjórn­ar­skrárá­kvæði sem hnekk­ir ekki ótíma­bundn­um einka­rétti al­mennra laga er ekki svar við kröf­um al­menn­ings um rétt­læti. Það er bara já­kvætt svar við beiðni Sam­taka fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi um að raska ekki þeirra sér­hags­mun­um.

Ætla kjós­end­ur að veita nú­ver­andi rík­is­stjórn­ar­flokk­um umboð til að festa þessa reglu í stjórn­ar­skrána?

Stefna Viðreisn­ar

Stefna Viðreisn­ar í þess­um efn­um er mjög skýr.

Í fyrsta lagi vilj­um við tryggja í stjórn­ar­skrá að meg­in­regl­an um eðli­legt gjald fyr­ir tíma­bund­inn einka­rétt nái til allra auðlinda þjóðar­inn­ar. Það trygg­ir rétt­læti.

Í öðru lagi vilj­um við að í al­menn­um lög­um verði kveðið á um tíma­lengd einka­rétt­ar­ins í sjáv­ar­út­vegi eins og í öðrum auðlinda­grein­um. Við höf­um talað um lang­an tíma, 20 til 25 ár. Það trygg­ir nauðsyn­leg­an var­an­leika.

Í þriðja lagi telj­um við að gjaldið eigi að end­ur­spegla verðmæti einka­rétt­ar­ins. Til að finna eðli­legt end­ur­gjald er markaður­inn besta lausn­in. Hann stuðlar að auknu gegn­sæi og minni hættu á að auðlinda­gjald ráðist af hags­munaþrýst­ingi og póli­tísk­um teng­ing­um. Gerðir verða einka­rétt­ar­leg­ir samn­ing­ar um 4 til 5% veiðiheim­ilda á hverju ári. Með þessu móti má tryggja nauðsyn­leg­an stöðug­leika.

Í fjórða lagi vilj­um við varðveita gild­andi regl­ur um framsal afla­heim­ilda. Þær eru lyk­ill­inn að hag­kvæmn­inni.

Í fimmta lagi vilj­um við nýta hluta af auðlinda­gjald­inu til ný­sköp­un­ar at­vinnu­lífs á lands­byggðinni. Hér höf­um við nefnt innviðasjóð. Fjöl­mörg dæmi eru um það á und­an­förn­um árum hvernig hreyf­an­leiki afla­heim­ilda hef­ur kippt efna­hags­leg­um grund­velli und­an heilu byggðarlög­un­um. Það er því eðli­legt og sann­gjarnt að hluta hagnaðar­ins af sam­eig­in­legri auðlind sé varið til að bæta það.

Mála­miðlun hafnað

Við ger­um okk­ur grein fyr­ir að gera má tíma­bundna samn­inga með föstu gjaldi þó að það sé flókn­ara en markaðslausn­in.

Á þessu kjör­tíma­bili buðum við upp á slíka mála­miðlun ásamt fleiri flokk­um á Alþingi. Skemmst er frá því að segja að rík­is­stjórn­in kaus að hafna því boði.

Einnig lögðum við til mála­miðlun, sem styrkt hefði smá­bát­ana við út­hlut­un var­an­legr­ar afla­hlut­deild­ar í mak­ríl. Henni var líka hafnað.

Hvers vegna hafnaði rík­is­stjórn­in öll­um mála­miðlun­um? Hverra hags­muna er hún að gæta?

Það er kom­inn tími á breyt­ing­ar

Aðal­atriðið er þetta: Með eng­um rök­um er unnt að halda því fram að rétt­læti af þessu tagi og hag­kvæmni fari ekki sam­an.

Meðan rík­is­stjórn­in viður­kenn­ir ekki þessa al­mennu grund­vall­ar­kröfu um tíma­bund­inn einka­rétt, sem nýt­ing allra annarra auðlinda í þjóðar­eign bygg­ist á, er hætt við var­an­leg­um ófriði um sjáv­ar­út­veg­inn.

Það er kom­inn tími til að breyta því. Þar eru ekki bara hags­mun­ir heild­ar­inn­ar sem eru í húfi, held­ur einnig út­gerðar­inn­ar og ekki síður alls fólks­ins á lands­byggðinni.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. mars 2021