Sameinuð föllum vér!

Benedikt Jóhannesson

Fyrir nokkrum dögum heyrði ég í góðkunningja mínum, ágætum unnanda einkaframtaksins, sem ég hugsa að kjósi enn Sjálfstæðisflokkinn af gömlum vana. Hann sagði: „Eiginlega gætu stjórnarflokkarnir þrír sameinast, þeir eru sammála um nánast allt sem máli skiptir.“ „Bragð er að “, hugsaði ég, og þá bætti hann við: „Undir forystu Miðflokksins.“

Þetta er auðvitað hárrétt. Þessir fjórir flokkar eru sammála um stöðnun og helst afturhald í íslensku þjóðlífi. Nú hafa foringjar stjórnarflokkanna líka lýst því yfir að þeir stefni að áframhaldandi kyrrstöðu saman næsta kjörtímabil.

Þegar Viðreisn var að stíga sín fyrstu skref birtum við Viðreisnarprófið. Margir kvörtuðu undan því að það væri nánast óhjákvæmilegt að fá hátt skor. Það gleymdist að breytingar verða ekki af sjálfu sér og alls ekki með því að kjósa flokka sem eru haldnir fortíðarþrá. Ríkisstjórnarflokkarnir kolfalla nefnilega á þessu einfalda prófi, fengju líklega núll.

Rifjum upp nokkrar spurningar:

  1. Vilt þú að sjávarútvegurinn greiði markaðstengt auðlindagjald? Ríkisstjórnin segir: Nei! Nei! Nei! Ef vinir hennar eiga að borga eitthvað málamyndaauðlindagjald þá ákveður hún það sjálf. Flokkarnir vilja ekki sjá markaðstengingu. Þeir ætla líka að festa núverandi óréttlæti í stjórnarskrá.
  2. Vilt þú almannahagsmuni umfram sérhagsmuni? Hinir þjóðlegu atvinnuvegir, bankarekstur og lokað kvótakerfi, njóta velvildar stjórnarflokkanna, sem vilja ekki markaðstengja auðlindagjald og viðhalda gjaldmiðli sem dregur úr erlendum fyrirtækjum að koma til landsins. Þeir segja nei.
  3. Vilt þú að kosningaréttur verði jafn, óháður búsetu? Stjórnarflokkarnir segja nei. Þeir vilja ekki breyta stjórnarskránni í þessa átt og hafa ekki gert þrátt fyrir fjölmörg tækifæri.
  4. Vilt þú vestræna samvinnu og sterkari tengsl við Evrópuþjóðir? Stjórnarflokkarnir hafa ítrekað sagt að þeir vilji ekki nánari tengsl við Evrópusambandið. Þeir vilja halda í krónuna sem þeir segja að hafi reynst okkur vel með sínum sveiflum og ófyrirsjáanleika. Þannig koma þeir í veg fyrir erlenda samkeppni í bankakerfinu. Þeir segja nei.
  5. Vilt þú markaðslausnir og að neytendur hafi val á öllum sviðum, þar með talið í landbúnaði? Ráðherrar stjórnarflokkanna vilja loka á erlenda samkeppni í landbúnaði. Þeir segja nei undir því yfirskini að þeir styðji bændur, en vilja í raun bara úrelt kerfi (það má engu breyta).
  6. Vilt þú að jafnrétti kynja verði tryggt á öllum sviðum? Opinbera svarið er já, en raunin er nei. Aldrei fyrr hefur ríkið farið í mál við konu sem leyfði sér að sækja sinn rétt.

 

Viðreisn berst fyrir breytingum. Við erum ánægð hve margir skora hátt á prófinu okkar. En það gerist ekkert með því að kjósa afturhaldsflokkana.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. mars 2021