Sáttastjórnmál

Frá unglingsárum mínum hef ég fylgst með stjórnmálum af áhuga. Ég man eftir átökum milli kommúnisma og kapítalisma sem lauk með falli Berlínarmúrsins. Tekist var á um EFTA, álverið í Straumsvík og Varnarliðið. Það eina sem við virtumst sammála um var stækkun landhelginnar, ágæti Viðreisnarstjórnarinnar og Búrfellsvirkjun.

Síðar hófust átök um EES og ESB, gengisfellingar og vísitöluna. Í dag er deilt um takmarkanir á landamærum, nýja stjórnarskrá, auðlindagjöld, hálendisþjóðgarðinn, krónuna, misvægi atkvæða og viðbrögðin við COVID-19. Deilt er um Sundabraut, Reykjavíkurflugvöll, Borgarlínuna auk loftslagsmála og málefni hælisleitenda.

Þessi litla þjóð virðist sammála um að vera ósammála í flestum málum. Hagsmunir takast á að sjálfsögðu sem leiðir til sífelldra átaka milli hagsmunaaðila, bæði sérhagsmuna og almannahagsmuna. Að mínu mati snúast næstu kosningar um leiðir til að leita sátta um öll þessi ágreiningsmál. Að finna „vinn-vinn“ eins og það heitir í samningatækni. Vinna að því að finna sameiginlega hagsmuni í stað togstreitu milli sérhagsmuna.

Það væri miklu betra fyrir landbúnaðinn, sjávarútveginn, loftslagsmálin og almenning ef sæmileg sátt ríkti um stærri mál þjóðarinnar í stað átaka og sundrungar. Ég tel að næsta ríkisstjórn eigi að hafa það sem forgangsmál að koma á sáttum í þessum stóru málum. Við hljótum að geta sameinast um það sem mestu máli skiptir fyrir okkur öll. Fækkum þrætueplunum, finnum sameiginlega hagsmuni og komum á sáttum.

Á morgun eru sex mánuðir til kosninga. Ég vona að næsta ríkisstjórn verði stjórn sátta og samvinnu þar sem hagsmunir almennings verði hafðir að leiðarljósi. Þá verður líka svo miklu skemmtilegra að búa á Íslandi.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 25. mars 2021