Þögla stjórnarskráin

Þorbjörg S Gunnlaugsdóttir

Í umræðum um stjórn­ar­skrá er ýmist talað um gömlu stjórn­ar­skrána eða þá nýju. Nýlegt frum­varp for­sæt­is­ráð­herra um auð­lindir er þriðja afbrigð­ið, stökk­breytt gætum við jafn­vel kallað það nú á tímum heims­far­ald­urs. Hvers vegna? Vegna þess að frum­varpið er þög­ult um stærstu póli­tísku spurn­ing­arn­ar. Þög­ult um þá þætti sem mestu skipta. Ákalli þjóð­ar­innar um sann­gjarna auð­lindapóli­tík er ekki mætt.

Rík þörf er á að fjalla um auð­lindir í stjórn­ar­skrá og setja meg­in­reglur sem stjórn­völd verða að virða við alla aðra reglu­setn­ingu um auð­linda­nýt­ingu. Sem grund­vall­ar­lög­gjöf þjóð­ar­innar verð­skuldar stjórn­ar­skráin að vera stöðug. Þar eiga að vera skrá­settar grund­vall­ar­reglur sam­fé­lags­ins sem öll önnur lög­gjöf þarf að stand­ast. Til þess að hún getið staðið stöðug þarf hins vegar að ríkja um hana sátt. Þess vegna verður hún líka að fá að þró­ast með tím­an­um. Getur þetta tvennt sam­an? Já, það er ekki bara æski­legt heldur nauð­syn­legt að svo sé. Það er inn­tak hennar sem máli skipt­ir, en ekki hvort hún er að grunni ný eða göm­ul.

Lögð hafa verið fram all­nokkur frum­vörp til stjórn­ar­skip­un­ar­laga á Alþingi þar sem gert er ráð fyrir auð­linda­á­kvæði í stjórn­ar­skrá. Raunar hefur verið unnið að mótun slíks ákvæðis nán­ast frá 1998. En hvað er það sem vantar í frum­varp­ið?

Í ákvæðið vantar að geta þess að rétt­ur­inn til nýt­ingar sé tíma­bund­inn og að eðli­legt gjald skuli koma fyrir nýt­ingu á rétt­in­um. Að veit­ing heim­ilda sé skýr­lega tíma­bundin er það sem öllu máli skiptir í hinu póli­tíska sam­hengi. Hafi mark­miðið verið að tryggja rétt almenn­ings umfram það sem fisk­veiði­stjórn­un­ar­lög­gjöfin gerir nú þegar þá hefur sú nið­ur­staða ekki verið tryggð með skýrum hætti. Til þess að tryggja að efn­is­leg breyt­ing verði hefði átt að segja það í ákvæð­inu. Þannig yrði tryggt að ekki sé um var­an­legan rétt sé að ræða. Með skýru stjórn­ar­skrár­á­kvæði leiðir að lög­gjaf­inn eða fram­kvæmd­ar­valdið geta ekki afhent auð­lindir nema með tíma­bundnum samn­ing­um.

 

Tíma­bind­ing rétt­inda er meg­in­regla þegar stjórn­völd úthluta tak­mörk­uðum gæðum í þjóð­ar­eign til hag­nýt­ing­ar. Mest öll orku­fram­leiðsla í land­inu er á for­ræði ríkis eða sveit­ar­fé­laga. Orku­lög heim­ila hins vegar sveit­ar­fé­lögum að fram­selja einka­leyfi til að starf­rækja hita­veitu um til­greint tíma­bil í senn. Dæmin sjást gegn­um­gang­andi í lög­gjöf um auð­lind­ir. Í lögum um rann­sóknir og nýt­ingu auð­linda í jörðu er ákvæði um tíma­bundin leyfi til allt að 65 ára. Í lögum um fisk­eldi er mælt fyrir um rekstr­ar­leyfi til 16 ára. Og nýtt frum­varp rík­is­stjórn­ar­innar um Hálend­is­þjóð­garð skil­greinir hálendi Íslands sem nátt­úru­auð­lind í þjóð­ar­eign. Þar kemur skýrt fram að óheim­ilt sé að reka atvinnu­starf­semi í þjóð­garði nema með tíma­bundnum samn­ingi.

Nýtt auð­linda­á­kvæði myndi því vera á skjön við laga­setn­ingu um flestar aðrar auð­lind­ir. Eftir ára­langa vinnu og yfir­ferð virð­ist nið­ur­staðan hafi orðið sú af hálfu rík­is­stjórn­ar­flokk­anna þriggja að leggja fram áferð­ar­fal­legt en fremur opið ákvæði. Ákvæði sem skilar ekki þeirri nið­ur­stöðu sem að var stefnt og ákall hefur verið um. Það er þög­ult um stærstu póli­tísku álita­efn­in.

Hafi mark­miðið verið sátt um auð­lindapóli­tík og að stjórn­ar­skrá festi í sessi ein­hverja efn­is­lega þýð­ingu þess að auð­lind sé í sam­eign þjóð­ar, þá verður það ekki nið­ur­stað­an. Um þessi atriði er ákvæðið ein­fald­lega þög­ult. Sé ætl­unin hins vegar að ná fram breyt­ingum þá er ósk­andi að meiri­hlut­inn á Alþingi tryggi það með skýru auð­linda­á­kvæði. Ann­ars gætum við hæg­lega verið að eign­ast auð­linda­á­kvæði sem í reynd rammar inn óbreytta ástand, þar sem sjáv­ar­auð­lindin verður áfram í eigu og á for­ræði hinna fáu.

Í sam­skiptum er mik­il­vægt kunna þá list að heyra það sem fólk seg­ir, en um leið að rýna í það sem ekki kemur fram. Stundum fel­ast nefni­lega sterk­ustu skila­boðin í því sem ekki er sagt. Í þögn­inni sjálfri.

Greinin birtist fyrst á Kjarnanum 5. mars 2021