Þú mengar, þú borgar

Hér á landi erum við flest, sem betur fer, komin á þann stað að geta viðurkennt að það felst raunveruleg ógn í loftslagsvá af mannavöldum og hnignun vistkerfa. Í þessari ógn felast hins vegar líka tækifæri. Tækifæri okkar Íslendinga er einstakt í heimi þar sem sífellt meiri eftirspurn er eftir afurðum sem unnar eru með hreinni orku í sátt við náttúruna. Kraftar einkaframtaksins eru lykillinn að árangri hér. Stjórnvöld þurfa að virkja atvinnulífið með grænum hvötum og nýta þannig krafta frjáls markaðshagkerfis til góðs í umhverfismálum. Opinber gjöld verða að endurspegla þessi markmið. Að sama skapi þarf að gæta þess að hagrænir og grænir hvatar leiði ekki til almennra skattahækkana, heldur verði tilfærsla á tekjustofnum með samsvarandi lækkun annarra gjalda. Þau sem draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum, bæði heimili og fyrirtæki, eiga að fá umbun í samræmi við ávinninginn. Leiðarstefið verði að þau borgi sem mengi.

Víðtækt alþjóðasamstarf er eina leiðin til að ná fullnægjandi tökum á loftslagsvánni enda hefur losun gróðurhúsalofttegunda hnattræn áhrif óháð því hvar losunin verður. Ísland á þess vegna að nýta sér til fulls nálgun og aðferðir sem alþjóðasamtök og formleg samvinna þjóða hefur skapað. Eitt þeirra leiðarljósa sem mikilvægt er fyrir Ísland að nýta sér er hinn græni samfélagssáttmáli Evrópusambandsins. Þar hefur til dæmis verið mótað öflugt styrkjakerfi til að styðja fyrirtæki til að gera starfsemi sína grænni. Sérstök áhersla verði lögð á stuðning við lítil og meðalstór fyrirtæki til að tryggja samkeppnishæfni þeirra í tengslum við grænu byltinguna.

Markmiðið okkar á að vera að tryggja öfluga efnahagslega viðspyrnu gegn loftslagsbreytingum, þar sem heimilum og fyrirtækjum er gert kleift að taka fullan þátt. Hlutverk hins opinbera er að gera eftirsóknarvert og auðvelt fyrir neytendur og atvinnulífið að taka ákvarðanir með umhverfið í fyrirrúmi. Í því liggja almannahagsmunir.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 12. maí 2021