Ertu fjármálasnillingur?

Jón Steindór Valdimarsson Alþingiskosningar Reykjavík Norður RN 2 sæti Viðreisn

Stærsta fjár­fest­ing hverr­ar fjöl­skyldu er oft­ast kaup á hús­næði. Fæst höf­um við ráð á slíkri fjár­fest­ingu án þess að taka há lán til langs tíma. Oft­ast lán upp á tugi millj­óna. Það skipt­ir því höfuðmáli að vita hver greiðslu­byrðin verður í framtíðinni.

Óþolandi óvissa

Því miður eru aðstæður á Íslandi þannig að eng­inn veit hver greiðslu­byrðin verður. Í raun þurfa lán­tak­end­ur að taka ákv­arðanir um marga þætti, bæði í upp­hafi, en ekki síður á láns­tím­an­um. Á að taka verðtryggt lán eða óverðtryggt, á það vera með föst­um eða breyti­leg­um vöxt­um? Hvað á að gera þegar gluggi opn­ast fyr­ir end­ur­fjármögn­un á láns­tím­an­um? Það má með sanni segja að hér séu lán­tak­end­ur sett­ir í stöðu áhættu­fjár­fest­is eða spá­kaup­manns. Þeir þurfa að velta fyr­ir sér hver verður verðbólg­an, vaxta­stig, gengi krón­unn­ar og þróun launa. Er það sann­gjarnt að ætl­ast til þess að við séum fjár­málasnill­ing­ar og sér­fræðing­ar í áhættumati? Svarið er auðvitað nei.

Vext­ir og verðbólga

Seðlabank­inn hækkaði ný­verið meg­in­vexti sína úr 1% í 1,25%. Sú hækk­un kann að láta lítið yfir sér. Það er alls ekki svo. Stór hluti lands­manna er með íbúðarlán á óverðtryggðum kjör­um. Hækk­un vaxt­anna mun strax hafa mik­il áhrif á út­gjöld heim­il­anna. Vaxta­kostnaður af þrjá­tíu millj­óna króna hús­næðisláni með breyti­leg­um vöxt­um hækk­ar um allt að 75 þúsund krón­ur á ári eða um 6.250 krón­ur í hverj­um ein­asta mánuði. Þeir sem skulda meira þurfa að greiða enn meira. Frek­ari vaxta­hækk­un­um er spáð og því mun greiðslu­byrðin hækka enn. Þessu til viðbót­ar er verðbólga mik­il, liðlega 4% og ekki út­lit fyr­ir að hún lækki á næst­unni.

Ávís­un á vand­ræði

Það er full ástæða til þess að ótt­ast að þessi þróun leiði til þess að marg­ar fjöl­skyld­ur lendi í erfiðleik­um, ekki síst ungt fólk, sem hef­ur spennt bog­ann til hins ýtr­asta á fast­eigna­markaði þar sem verð hef­ur hækkað hratt. Staða þess­ara lán­taka verður erfið, jafn­vel óbæri­leg. Fæst­ir sem skulda há fast­eignalán held ég að taki und­ir fögnuð seðlabanka­stjóra yfir því að vext­ir séu að hækka. Það eru þá aðrir en skuld­ar­ar sem fagna með seðlabanka­stjór­an­um.

Hvað er til ráða – hver eru tæki­fær­in?

Aldrei verður hægt að eyða allri óvissu eða áhættu. Það er hins veg­ar hægt að draga veru­lega úr henni. Það verður helst gert með því að auka stöðug­leika, draga úr geng­is­sveifl­um, minnka verðbólgu og halda vaxta­stigi lágu. Leiðin til þess er sú að gjald­miðill­inn okk­ar verði stöðugur. Það verður best gert með því að tengja krón­una við evru með samn­ingi við Seðlabanka Evr­ópu, en til langs tíma með upp­töku evru og aðild að Evr­ópu­sam­band­inu. Það mun skapa nýj­ar for­send­ur í fjár­mál­um heim­il­anna, fyr­ir­tækj­anna og þjóðfé­lags­ins í heild. Þess vegna er það stefna Viðreisn­ar.

Gefðu framtíðinni tæki­færi – kjóstu Viðreisn.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. ágúst 2021