Hvar eru hagsmunir almennings

Guðmundur Ragnarsson alþingiskosningar 2021 Reykjavíkurkjördæmi Norður RN 4. sæti

Ef reynt er að átta sig á því hvar framtíðarhagsmunir launafólks og almennings eru, verður að skoða fortíðina og hvernig hagsaga okkar hefur verið. Þar blasir við okkur raunveruleiki sem er ekki fagur. Það fyrsta sem kemur upp í hugann er korktappi í ólgusjó þegar horft er á örlagavaldinn íslensku krónuna í þessari sögu. Hún er fljót sögð efnahagssaga okkar, óstöðugur gjaldmiðill, regluleg verðbólguskot, háir vextir sem hafa farið upp í okurvexti með óviðráðanlegum afborgunum og eignamissi. Kaupmáttur launa farið upp og niður með sömu endurtekningunum, þegar verðbólgan hefur étið upp kaupmáttinn hefur verið farið í launahækkanir umfram getu hagkerfisins sem aftur framkallar verðbólgu, vaxtaokur og óstöðuleika á gjaldmiðlinum. Það hlýtur að vera umhugsunarefni eftir að hafa skoðað söguna hvernig byggja á upp stöðugleika sem er varanlegur með krónuna sem gjaldmiðil. Það verða þeir að útskýra sem boða stöðugleika með henni.Það má ekki gleyma því að þessar hremmingar geta komið aftur þó að við séum núna í ástandi sem er ekki mjög slæmt miðað við mörg tímabil í hagsögu okkar. Skjótt skipast veður í lofti og hlutirnir eru fljótir að breytast. Það hangir alltaf yfir okkur sú ógn að lenda í enn einu hremmingartímabilinu ef illa fer, meðan við höfum ekki breytt neinu.

Mig langar svo í það sem þeir hafa

Við horfum öfundaraugum á lönd sem við viljum bera okkur saman við með margt og það er gott. Það sem okkur langar að fá er efnahagslegur stöðugleiki, lægri vexti, aukinn kaupmátt, lægra vöruverði og fleira sem þessar þjóðir hafa. Ef horft er yfir þessa upptalningu og gerður samanburð á því hvernig þessu er öðruvísi fyrirkomið hjá þeim, stendur aðallega tvennt upp úr, það er gjaldmiðillinn og fákeppni sem heldur uppi okri hvort sem er í vöruverði, þjónustu eða fjármálakerfinu hjá okkur.

Hvernig eigum við að koma okkur út úr þessu

Við eigum að byrja á því að tengja krónuna við evru. Tileinka okkur það sem hefur gefið góða raun hjá öðrum þjóðum, við þurfum ekki að finna upp hjólið, þetta er allt til. Við þurfum að skoða vel hvernig  nágrannaþjóðum okkar hefur tekist að auka kaupmátt launafólks verulega með hóflegum reglulegum launahækkunum og stöðugleika. Síðan á það að vera krafa að aðildarviðræður við Evrópusambandið verði kláraðar og almenningur fái að leggja mat á hvort aðild að sambandinu skili verulegri kaupmáttaraukningu með lægri framfærslu og losi okkur undan fákeppninni.

Það er búið að halda ótaldar ræðurnar í áratugi um gjaldmiðilinn, verðbólgu, okurvexti og hátt vöruverð og ekkert hefur breyst. Við verðum að spyrja okkur ætlum við að halda áfram að hlusta á sömu ræðurnar eða viljum við breytingar til að losa okkur undan því að hlusta á þessar sömu ræður um sömu vandamálin áfram. Viljum við ekki nýjar ræður um lausnir og bjartari framtíðarhorfur í stöðugleika? Stöðugleika sem er varanlegur og grunnur til að byggja á fyrir þau fjölmörgu samfélagsverkefni sem bíður okkar að leysa og koma í betra horf. Hann er gunnforsendan fyrir því að geta náð markmiðum okkar í umhverfismálum.Það ætti að vera ákveðin léttir að vita að það er til annað fyrirkomulag, að við höfum val, við getum komist út úr þessu.

Ef við viljum aðra framtíð þá verður að gera breytingar, það er hægt með því að kjósa Viðreisn. Hættum þessum kostnaðarsömu fórnum fyrir gjaldmiðilinn krónuna og spóla í sama hjólfarinu. Það er almenningur sem er að greiða þann fórnarkostnað, ekki þeir sem eru að eignast Ísland í skjóli fákeppni og gjaldmiðilsins.

Förum inn í nýja framtíð með því að kjósa Viðreisn.

Greinin birtist fyrst í Kjarnanum 12. september 2021