Land vaxtanna

Jón Steindór Valdimarsson Alþingiskosningar Reykjavík Norður RN 2 sæti Viðreisn

Íslandsbanki gaf út nýja þjóðhagsspá í dag. Hann spáir meðal annars að stýrivextir fari í 1,5% fyrir lok árs. Verðikomnir í 2,5% um mitt ár 2022 og í 3,5% á 3. ársfjórðungi 2023.

Spá bankans er hrollvekjandi sýn fyrir alla þá sem eru með óverðtryggð íbúðalán á breytilegum vöxtum. Það er nefnilega gríðarleg hækkun að vextir fari úr 1,25% í 3,5%.

Sé gengið út frá því að meðallán sé 40 milljónir þá hækkar greiðslubyrðin um 900.000 krónur á ári. Það eru 75.000 krónur í hverjum mánuði. Hætt er við að flestum reynist erfitt að rísa undir þessari hækkun. Skuldari þarf að auka tekjur sínar um 125 þúsund krónur á mánuði fyrir skatt til þess að geta staðið í skilum fyrir vaxtahækkunina eina og sér.

Land tækfæranna bíður ekki þessa fólks. Nei, það er land vaxtanna ef ekki verður gripið til raunhæfra en róttækra lausna.

Enn og aftur kemur í ljós að án breytinga verður íslenskur almenningur að greiða mun hærri vexti fyrir sín húsnæðislán en í þeim löndum sem nota evru eða hafa tengt gjaldmiðil sinn við evru.

Viðreisn vill raunhæfa en róttæka lausn sem breytir þessu. Í stað þess að vextir og kostnaður heimilanna hækki þá mun hvoru tveggja lækka verulega.

Viðreisn vill tengja krónuna við evru með samningi við Seðlabanka Evrópu. Reynsla annarra ríkja sýnir svart á hvítu að kostnaður vegna húsnæðislána og rekstrarkostnaður heimila mun lækka svo um munar.

Við höfum sett fram dæmi um að kostnaður fjögurra manna fjölskyldu með 30 milljóna króna húsnæðislán af rekstri heimilis myndi lækka um 72.000 krónur á mánuði.

Við höfnum landi vaxtanna.

Gefðu framtíðinni tækifæri – kjóstu Viðreisn.

Höfundur er alþingismaður og skipar 2. sæti í Reykjavík norður á lista Viðreisnar.

Greinin birtist fyrst á Vísi 22. september 2021