Nýtum sköpunar­kraft allra lands­manna

Nýsköpunarvirkni fatlaðra einstaklinga er heiti á verkefni þar sem lagðar eru fram tillögur að fleiri atvinnutækifærum fyrir fólk með skerta starfsgetu. Tilgangurinn er að gera fötluðu fólki kleift að taka virkan þátt í samfélaginu í gegnum nýsköpun, hvort sem það skapar á eigin vegum eða tekur þátt í nýsköpunarverkefnum með öðrum. Í þessu felast mörg tækifæri til að fjölga atvinnutækifærum fatlaðs fólks.

Aukin atvinnuþátttaka gæti falist annars vegar í beinni þátttöku í nýsköpunarverkefni og hins vegar sem innleiðing nýsköpunar inn á aðgreinda vinnustaði fyrir fatlað fólk. Virkni­úrræði yrðu með því móti færð til nútímans í takt við breytingar á störfum. Um leið myndi fatlað fólk styrkja færni sína til atvinnuþátttöku á almennum vinnumarkaði.

Það er mat okkar hjá Þroskahjálp að þessi nálgun sé ekki bara framsækin heldur afar mikilvæg í þágu umbreytinga í atvinnuþátttöku fatlaðs fólks. Hún styður við breytingar á virkniúrræðum með því að gefa nýsköpun sérstakt rými til að styðja við þjálfun einstaklinga til atvinnuþátttöku og færni til að takast á við þau hugðarefni sem þeim eru kær og þeir hafa ástríðu fyrir.

Hér er að skapast vettvangur til raunverulegra breytinga, fyrir tilstuðlan Rannsóknaseturs í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands, sem átti frumkvæði að verkefninu í kjölfar könnunar á möguleikum fyrir þátttöku fatlaðs fólks í nýsköpun.

Miklu skiptir að stjórnvöld styðji við þetta mikilvæga og framsækna verkefni og tryggi það fjármagn sem þarf til að hrinda því úr vör. Atvinnulífið og sveitarfélögin þurfa líka að standa sína plikt. Atvinnumál fatlaðs fólks eru gríðarlega mikilvæg. Þau varða lífsgæði fólks, sem við erum öll sammála um að tryggja sem best

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 30. september 2021