Skila­boðin þurfa að vera skýr

Þorsteinn Pálsson

Þegar ríkisstjórnin var mynduð fyrir fjórum árum dugði að senda þau skilaboð í stjórnarsáttmála að hjakkað yrði í sama farinu.

Nú eru aðstæður gjörbreyttar. Þær kalla á afdráttarlaus markmið og útlistun á leiðum til að ná þeim.

Fortíðarvandinn í forgangi

Fyrir kosningar voru forystumenn stjórnarflokkanna á einu máli um þeir hefðu í öllum tilvikum náð að ræða mál til niðurstöðu.

Fullyrt var að mál eins og hálendisþjóðgarður, endurskoðun stjórnarskrár, virkjanaáform og mörg fleiri hefði dagað uppi vegna tímaskorts. Nú kemur í ljós að í raun strönduðu þau vegna ágreinings.

Af þessari ósannsögli leiðir að lausn á fortíðarvanda hefur verið forgangsverkefni við endurnýjun stjórnarsáttmálans.

Hvernig á að auka verðmætasköpun

Framtíðin skiptir þó meira máli. Því er mikilvægast að launafólk og atvinnufyrirtæki sjái í endurnýjuðum stjórnarsáttmála einingu um aðgerðir, sem leiða munu til þess að verðmætasköpun þjóðarbúsins verði til muna meiri en fyrir faraldurinn.

Um þetta eru allir sammála. Stjórnarsáttmálinn þarf á hinn bóginn að segja hvernig því marki verður náð.

Fyrir kosningar staðhæfðu forystumenn stjórnarflokkanna að gengi krónunnar yrði haldið stöðugu til þess að verja kaupmátt launa. En þeir sögðu einnig að nota ætti sveigjanlega mynt til þess að tryggja samkeppnishæfni útflutningsgreina.

Það getur reynst erfitt að framkvæma bæði þessi loforð samtímis. Stjórnarsáttmálinn þarf því að taka af allan vafa um hvort markmiðið verður sett í forgang, ef nauðsyn krefur.

Launastefna er forsenda stöðugleika

Ætla má að stjórnendur í ferðaþjónustu og útflutningi horfi til þess hvernig stjórnarflokkarnir svara þessari spurningu. Og það munu forystumenn í samtökum launafólks einnig gera.

Samningar á almennum vinnumarkaði eru lausir á næsta ári og svo þarf að endurnýja samninga við opinbera starfsmenn og Bandalag háskólamanna.

Í stjórnarsáttmálanum þarf að koma fram hvaða svigrúm ríkisstjórnin telur vera fyrir hendi til launahækkana. Ætli ríkisstjórnin að skapa trú á stöðugleika þurfa skilaboðin um þetta efni að vera afdráttarlaus.

Engar líkur eru á að markmið um stöðugleika náist nema ríkisstjórnin hafi forystu um launastefnu, sem samrýmist öðrum efnahagslegum markmiðum. Mest verður því horft á þessi skilaboð.

Stjórnarsáttmálinn þarf að bera með sér að ætlast sé til að aðilar vinnumarkaðarins taki þau alvarlega.

Tímasettar og fjármagnaðar áætlanir

Á sviði ríkisfjármála þarf stjórnarsáttmálinn að geyma áætlun um á hversu löngum tíma á að greiða niður skuldir ríkissjóðs.

Gera þarf glögga grein fyrir umfangi hallans og útfæra hvernig á að fjármagna hann. Þar á meðal þarf að sýna áhrif innlendrar lántöku á vaxtastig í landinu.

Á síðasta kjörtímabili olli ríkisstjórnin mestum vonbrigðum í heilbrigðismálum. Stjórnarsáttmálinn hlýtur því að fela í sér hvernig heilbrigðisáætlunin og krabbameinsáætlunin, sem eru í gildi til 2030, verða tímasettar og fullfjármagnaðar.

Á síðasta kjörtímabili náði ríkisstjórnin engum árangri í að stytta biðlista barna vegna réttar til þjónustu á sviði félags- og heilbrigðismála. Nýja barnalöggjöfin verður dautt plagg ef tímasett og fjármögnuð áætlun um að stytta þessa biðlista kemur ekki fram í stjórnarsáttmálanum.

Loftslagsmarkmið

Útilokað er annað en að stjórnarsáttmálinn sendi skilaboð um ný mælanleg markmið í loftslagsmálum.

Ganga þarf lengra en stjórnin hefur gert til þessa. Fyrir því er breiður þingmeirihluti. Það ætti því að vera auðveldasta málið.

Aðstæður kalla einnig á að stjórnarflokkarnir sýni fram á að þeir hafi leyst ágreining um frekari virkjun hreinnar orku til orkuskipta og verðmætasköpunar.

Stjórnarskrá

Þá þarf ríkisstjórnin að gera grein fyrir því hvernig hún hyggst ljúka heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar á næstu fjórum árum.

Efnisleg niðurstaða um öll þau efni, sem stjórnin ætlar að breyta í stjórnarskrá, hlýtur því að birtast í sáttmálanum.

Með hliðsjón af strandsiglingu málsins á síðasta kjörtímabili yrði forsætisráðherra á flæðiskeri án samkomulags um einstök úrlausnarefni.

Hjakkað í sama farinu

Líklegt er að stjórnin nái saman um skýr skilaboð af þessu tagi.

En í peningamálum, utanríkismálum, sjávarútvegsmálum og landbúnaðarmálum má búast við að hjakkað verði í sama farinu.

Það tefur framfarasóknina.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 4. nóvember 2021