Fjórða stoðin

Árið 2013 tók ég þátt í bráð­skemmti­legu verk­efni um mögu­legar úrbætur á íslensku sam­fé­lagi. Verk­efnið var unnið fyrir sam­ráðs­vet­vang um aukna hag­sæld. Afurð­ina má sjá hér. Til­lög­urnar snéru að öllum geirum sam­fé­lags­ins. Að öðrum ólöst­uðum fund­ust mér til­lögur hóps­ins hvað varðar nýsköpun áhuga­verðast­ar. Þar var fjallað um hvernig íslenskt sam­fé­lag gæti stutt við nýsköpun og skapað nýja stoð fyrir efna­hags­líf­ið. Stoð sem skap­aði vel launuð störf fyrir Íslend­inga fram­tíð­ar­innar og sem byggði á útflutn­ingi á inn­lendu hug­viti. Sumar af til­lög­unum komst til fram­kvæmda, aðrar ekki eins og geng­ur.

Nú nýverið var ég að und­ir­búa mig fyrir við­tal við erlendan blaða­mann. Ég leit því á tölur um þróun útflutn­ings. Þarna trón­uðu turn­arnir þrír, sjáv­ar­út­veg­ur, áliðn­aður og ferða­þjón­usta, eins og búast mátti við. Yfir­lit um þróun útflutn­ings má sjá á mynd 1.

Mynd 1. Valdir liðir útflutnings vöru og þjónustu 2013-2021 (Heimild: Hagstofa Íslands).

Mynd 1. Valdir liðir útflutnings vöru og þjónustu 2013-2021 (Heimild: Hagstofa Íslands).

Athygl­is­vert er að skoða lið­inn „ann­að“, lið sem ekki ratar í frétt­ir. Þessi sak­lausi liður „ann­að“ er nefni­lega, í fyrsta skipti, stærsta útflutn­ings­at­vinnu­grein Íslands á und­an­gengnum árs­fjórð­ung­um. Hvað er þetta ann­að?

Fram­setn­ing hagtalna byggir á sögu­legum ákvörð­un­um. Þannig heldur Hag­stofa Íslands afar nákvæmar skýrslur um útflutn­ing á sjáv­ar­fangi, frá blaut­verk­uðum salt­fiski til salt­aðra hrogna (alls rúm­lega 300 lið­ir). Sund­ur­liðun ann­arra nýlegri atvinnu­greina er ekki eins ýtar­leg, en þó til stað­ar. Svo ég sett­ist niður og fór að rýna.

Íslend­ingar hafa flutt út alls­konar aðra hluti en fisk, ál og upp­lif­anir fyrir ferða­menn. Til er annar iðn­aður en áliðn­að­ur. Fluttar eru út land­bún­að­ar­af­urðir og möl, sæl­gæti og brota­járn. Þessir liðir eru þó aðeins brot af liðnum ann­að, og ekki það sem hefur verið að lyfta honum upp í efsta sæti. Fisk­eldi hefur lagt til aukn­ing­ar­innar en hluti þess í heild­ar­vext­inum er þó ekki nema um 25% frá árinu 2013 til 2020.

Stærslu vaxt­ar­lið­irnir eru nefni­lega á sviði útflutn­ings á sér­fræði­þjón­ustu, tækni, hug­viti og hug­verk­um. Sam­an­lagt hafa þessir liðir vaxið um 78% frá 2013 til 2020 meðan t.d. sjáv­ar­út­veg­ur, áliðn­aður og ferða­þjón­usta (sem þó er ekki alveg að marka vegna COVID) hafa allir dreg­ist sam­an. Fjórða stoðin er mætt á svæð­ið. Hún hefur vaxið á und­an­förnum árum um að með­al­tali 9% á ári. Mestur hefur vöxt­ur­inn verið und­an­farin þrjú ár.

Fjórða stoðin er afar eft­ir­sókn­ar­verð fyrir sam­fé­lag­ið. Hún eykur við stöð­ug­leika fábreyttra útflutn­ings­at­vinnu­vega. Í henni eru alls­konar fyr­ir­tæki í alls­konar starf­semi sem selja alls­konar vöru og þjón­ustu. Fjórða stoðin er því lík­legri til að leiða til stöð­ug­leika en t.d. ferða­þjón­usta. Hún skapar fjöl­breytt vel launuð störf fyrir alls­konar sér­fræð­inga og hæfi­leika­fólk. Hún hvetur til enn frek­ari nýsköp­unar og vaxtar með því að dýpka vinnu­markað og skapa hvata sem draga hingað hæfi­leika. Að þessum vexti þarf að hlúa.

Þessi geiri á þó við ákveð­inn vanda að etja. Hann er minna sýni­legur en eins­leitar atvinnu­grein­ar. Hags­munir og þarfir þeirra sem innan hans vinna eru mis­jafn­ir. Þess vegna er enn mik­il­væg­ara að stjórn­mála­menn taki frum­kvæði í að styðja þessa þró­un. Ýmis­legt hefur verið gert. Aukið hefur verið við fram­lög í sjóði sem styrkja nýsköp­un. Íslenskir háskólar standa sterkt. Og ekki skortir heldur á hugmyda­auðgina.

Vanda­málið er að kom­ast frá hug­mynd að þátt­töku á alþjóða­mark­aði. Það skref er gríð­ar­stórt og kostn­að­ar­samt og því fylgir að jafn­aði mikil áhætta. Áhætt­una má minnka með því að stjórn­völd leggi áherslu á stöðug rekstr­ar­skil­yrði. Svo þarf fjár­magn. Opin­berir sjóðir eru ágætir í að styðja við þróun hug­myndar að vöru. Allt ann­ars konar og meira fjár­magn þarf til að kom­ast frá vöru að veltu, skala upp umfang þannig að það eigi mögu­leika á alþjóða­mark­aði. Þar þarf áhættu­fjár­magn. Það hefur hingað til verið tak­markað á Íslandi.

Nú er ekki eins og það skorti fjár­magn hér á landi. Íslenskir líf­eyr­is­sjóðir eru orðnir mjög stórir og öfl­ug­ir. Þeir eru hins vegar illa í stakk búnir til að taka þátt í áhættu­fjár­fest­ing­un­um. Til þess þarf sér­hæfða aðila. Leita þarf leiða til þess að gera líf­eyr­is­sjóð­unum kleift að taka þátt í fjár­mögnun nýsköp­un­ar­fyr­ir­tækja. Reynsla af slíkum fjár­fest­ing­um, bæði hér á landi og erlend­is, er að þær skili mik­illi ávöxt­un, sé áhætt­unni vel stýrt og henni dreift nægi­lega, þ.e. fjár­fest í nægi­lega mörgum verk­efnum og með nægi­legu aðhaldi. Hér er því til mik­ils að vinna fyrir sjóð­ina, bæði hvað varðar ávöxtun eigna en einnig stuðn­ing við hag­sæld og stöð­ug­leika. Lausn á þessu er því verð­ugt verk­efni.

„Þetta reddast“ mætti kalla þjóð­ar­mottó Íslend­inga. Það lýsir æðru­leysi sem kemur af búsetu í harð­býlu landi. Bank­arnir hrynja og ferða­þjón­ustan redd­ar. Í núver­andi kreppu hefur „ann­að“ komið til bjarg­ar. Styðja þarf þennan geira þannig að hlutur hans geti vaxið enn frek­ar. Mik­il­vægt er að stjórn­völd leggi áherslu á stöðug rekstr­ar­skil­yrði og að leitað verði leiða til að þessi fyr­ir­tæki hafi aðgang að áhættu­fjár­magni. Þannig virkjum við kraft­inn sem býr í þessum geira og auð­veldum honum að vaxa enn frek­ar.

Kannski hag­stofan fari núna að sund­ur­liða „ann­að“.

Greinin birtist fyrst á Kjarnanum 28. desember 2021