Hangi­kjöt og há­skólar

Þorsteinn Pálsson

Ráðherra, sem fer með mál hangikjötsreykinga og háskólarannsókna, samkvæmt nýju skipulagi stjórnarráðsins, skrifaði Morgunblaðsgrein á dögunum undir fyrirsögninni: „Alvöru­kerfisbreytingar.“

Ráðherrann skiptir hugmyndafræði kerfisbreytinga í tvo flokka:

Undir fyrri flokkinn falla: „Stjórnmálamenn, sem telja sig nútímalegri en aðrir, tala undarlega oft um kerfisbreytingar ef þeir telja sig hafa betri skoðanir en aðrir og saka þá sem ekki taka undir um íhaldssemi og afturhald.“

Síðari flokknum er lýst svo: „Það er síðan hægt að ráðast í alvörukerfisbreytingar sem taka mið af raunverulegum aðstæðum og framtíðarhorfum okkar.“

Í framhjáhlaupi

Eftir kosningar settust formenn stjórnarflokkanna þriggja niður. Þeir sögðust þurfa drjúgan tíma til að leysa þau mál, sem þeir komu sér ekki saman um á síðasta kjörtímabili. Enn fremur töldu þeir sig þurfa nokkurn tíma í samtal um þá hluti sem þeir kynnu að vera sammála um fyrir næstu fjögur ár.

Samtölin stóðu í fulla tvo mánuði. Niðurstaðan var sú að mál gamla kjörtímabilsins voru enn óleyst. Mál nýja kjörtímabilsins voru sett í nefndir.

Í framhjáhlaupi komust formennirnir að því að „raunverulegar aðstæður og framtíðarhorfur“ kölluðu á tafarlausar kerfisbreytingar á stjórnarráðinu.

Hver er hugsunin?

Ein þeirra var að færa málefni þeirra sem reykja hangikjöt og stunda annan iðnað saman í ráðuneyti með málefnum hinna, sem sjá um háskólakennslu og vísindarannsóknir á hangikjöti og fleiri hlutum og fyrirbærum.

Lengi hefur verið litið á alla skóla, rannsóknir og vísindi sem eina heild. Þekkingarmiðlunin frá leikskóla til doktorsprófs hefur því heyrt undir sama ráðuneyti.

Engar athuganir hafa verið gerðar, sem benda til galla á þessu skipulagi.

En nú kalla „raunverulegar aðstæður og framtíðarhorfur“ á að háskólar tengist fyrirtækjum, sem reykja hangikjöt. Hins vegar er ekki talin þörf á að tengja þá við hina sem ala lömbin fyrir reykingu eða þá sem selja neytendum vöruna? Og ekki er talin þörf á að háskólarnir tengist þeim sem draga þorsk úr sjó eða leiðbeina ferðamönnum?

Nám í læknisfræði fer í ráðuneyti með iðnaðarmálum, en nám í kjötiðn á ekki heima þar.

Stjórnarráðinu þarf sannarlega að breyta þannig að það virki betur sem ein heild gagnvart þeim sem það þjónar. En í því tilliti virka þessar breytingar fremur sem skref aftur á bak. Alltént er ekki ljóst hver hugsunin er.

Meiri vegur

Annað dæmi um kerfisbreytingu:

Mannréttindamálefni eru færð úr dómsmálaráðuneytinu í forsætisráðuneytið. Þau rök eru færð fyrir þessari breytingu að hún hafi verið nauðsynleg til að auka veg mannréttinda og sýna að þeim verði meiri gaumur gefinn í framtíðinni.

Enginn hefur að vísu sýnt fram á að dómsmálaráðuneytið hafi vanrækt þetta mikilvæga málefnasvið. Eigi að síður verður að fallast á þau rök að það auki vægi málefna þegar þau eru færð undir forsætisráðuneytið.

Minni vegur

En með gagnályktun er þá ekki unnt að komast að annarri niðurstöðu en að stefna ríkisstjórnarinnar sé að draga úr vægi þeirra málefna, sem færð eru frá forsætisráðuneytinu, og ætlan hennar sé að gefa þeim mun minni gaum í framtíðinni.

Þetta er greinilega hugsunin með því að flytja Umboðsmann barna úr forsætisráðuneytinu.

Til að sýna þá djúpu alvöru, sem býr að baki þessari kerfisbreytingu, var ákveðið að setja embættið undir það fagráðuneyti, sem það á helst að hafa eftirlit með.

Endaskipti á hugsjónum

Langsamlega mesta „Alvörukerfis­breytingin“ er fjölgun ráðuneyta um 20 prósent og fjölgun ráðherra um 10 prósent. Það er stærsta hugsjónamálið, sem leitt var til lykta.

Í beinu framhaldi var rúmum á geðdeild Landspítala fækkað um 10 prósent. Forgangsröðunin fer ekki einu sinni leynt.

Íslenskt ríkisbákn þarf nú tólf ráðherra, en það þýska sextán.

Sumt eldra fólk í Sjálfstæðisflokknum virðist að vísu ræða þessa nýju hugsjón eins og hún sé feimnismál.

En unga fólkið í þingflokknum virðist standa með ráðherrum VG og líta á þessa útþenslu báknsins sem einu „Alvörukerfisbreytinguna“, sem það getur hugsað sér.

Ég man varla eftir meiri endaskiptum á hugsjónum.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 16. desember 2021