Sterkari saman

Natan Kolbeinsson

Seint á síðasta ári sendi minn gamli heima­bær Tálkna­fjörður spenn­andi er­indi á flest sveit­ar­fé­lög á Vest­fjörðum þar sem áhugi á viðræðum um sam­ein­ingu var kannaður. Per­sónu­lega fannst mér það skemmti­legt að sjá mína gömlu heima­byggð leggja fram svona fram­sækið mál. Mér þótti það því ekki bara leiðin­legt að sjá þau nei­kvæðu viðbrögð sem hug­mynd­in fékk frá öðrum sveit­ar­fé­lög­um, það voru líka von­brigði þegar Vest­ur­byggð rétti fram hönd sam­ein­ing­ar en Tálkna­fjörður sló á hana. Eins og flest­ir vita þá eru lít­il sveit­ar­fé­lög um allt land að berj­ast í bökk­um við að halda úti lág­marksþjón­ustu við íbúa sína. Sam­ein­ing er því ein besta leiðin til að létta á rekstri minni sveit­ar­fé­laga og tryggja að þau geti sinnt til­heyr­andi þjón­ustu með sóma.

Sam­ein­ing er ekki bara tæki­færi til að auðvelda rekst­ur held­ur gegn­ir hún líka lyk­il­hlut­verki í að efla litlu byggðirn­ar okk­ar og gera þær að spenn­andi kost­um fyr­ir fólk að flytja til. Eitt skýr­asta og besta dæmið í því er Flat­eyri, sem hef­ur náð að byggja upp spenn­andi byggð þar sem ungt fólk kem­ur til að stunda nám. Þar hef­ur sam­ein­ing veitt byggðinni öfl­uga spyrnu til að byggja sig frek­ar upp sem svæði þar sem fólk get­ur skotið rót­um. Þessi ákvörðun Flat­eyr­ar, að verða hluti af stærri heild, þ.e. Ísa­fjarðarbæj­ar, er gott dæmi um að sam­ein­ing er ekki dauðadóm­ur fyr­ir minni byggðir held­ur get­ur þvert á móti verið ein besta leiðin til að tryggja að fjár­mun­ir séu notaðir í upp­bygg­ingu byggðar frek­ar en að vera stöðugt í bar­áttu við að halda sér rétt­um meg­in við núllið. Fleiri spenn­andi leiðir í sam­ein­ingu má sjá eins og t.d. hjá Múlaþingi þar sem heima­stjórn­ir tryggja að viss­ar ákv­arðanir séu tekn­ar í heima­byggð og tryggja þannig að ákveðið vald hald­ist heima í héraði.

Sam­keppni um fólk og hæfi­leika hef­ur breyst mikið síðustu ár. Hér áður fyrr valdi fólk hvort það vildi búa í Reykja­vík eða úti á landi en í dag er valið meira milli Íslands eða annarra landa. Sterk sam­einuð sveit­ar­fé­lög, sem geta boðið upp á blóm­legt mann­líf, geta vel verið spenn­andi kost­ur fyr­ir marga. Á tím­um bættra fjar­skipta og fjölg­un­ar starfa óháð staðsetn­ingu geta lít­il sveit­ar­fé­lög t.d. boðið ungu fólki heim aft­ur í hérað þar sem kunn­átta þess og mennt­un nýt­ist ekki bara sveit­ar­fé­lag­inu held­ur sam­fé­lag­inu í heild. Sveit­ar­fé­lög sem berj­ast í bökk­um við að halda uppi grunn­rekstri ná aldrei að verða spenn­andi kost­ur en lít­il byggð í sam­einuðu sveit­ar­fé­lagi get­ur það.

Þótt ég sé vissu­lega brott­flutt­ur Tálkn­f­irðing­ur í dag mun ég seint kalla mig eitt­hvað annað en Tálkn­f­irðing. Það sama á við um Tálkna­fjörð, sem verður alltaf Tálkna­fjörður með Poll­inn til að heim­sækja seint á sum­arnóttu og Hópið til að næla sér í póst­hús­stang­ir. Það breyt­ist ekk­ert, sama hvort það er sjálf­stætt sveit­ar­fé­lag eða hluti af öfl­ugri heild. Sam­an eru litl­ar byggðir þessa lands mun sterk­ari en hver í sínu horni að berj­ast við að halda sér á floti.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. febrúar 2022