Í grunninn er þetta ekki flókið heldur fáránlega einfalt

Þórunn Wolfram. Alþingiskosningar. Suðurkjördæmi (SU). 2. sæti

Við mann­fólkið höfum raskað kolefn­is­hringrás jarðar með því að seil­ast djúpt í iður hennar og brenna líf­rænt kolefn­i/jarð­efna­elds­neyti sem mamma jörð var fyrir löngu búin að taka úr umferð. Við losum þannig mun meiri koltví­sýr­ing út í and­rúms­loftið en vist­kerfi jarðar í hafi og á landi hafa tök á að binda á ný. Við bæt­ist svo gríð­ar­leg rösk­un/eyð­ing jarð­vegs og gróð­urs sem hefur stór­lega skert getu vist­kerfa á landi til að varð­veita og binda kolefni. Í grunn­inn er þetta nú ekki flókn­ara en svo, þó það sé æði marg­þætt verk­efni að ná kolefn­is­jafn­væg­inu á ný.

Ísland er eitt af vist­fræði­lega verst förnu löndum Evr­ópu

Meira en helm­ingur íslenskra vist­kerfa er í hnign­uðu ástandi af okkar völd­um, bæði þurr­lendi og vot­lendi. Við erum bara svo vön ásýnd Íslands svona að við höldum flest að þetta sé í besta lagi. En, svo er ekki. Núver­andi ástand lands­ins okkar er markað ósjálf­bærri land­nýt­ingu fyrri alda vegna þess að við skildum ekki vist­fræði­leg tak­mörk þess. Það villti fyrir okkur hvað landið var frjósamt. Sáum ekki fyrir rof­gjarnan jarð­veg, sam­spil norð­lægrar hnatt­stöðu og veð­ur­fars og ýmsa nátt­úru­vá. Rann­sóknir sýna að jarð­vegs­yf­ir­borð var stöðugt fyrir land­nám, það var fyrst og fremst land­nýt­ingin sem raskaði jafn­vægi í hringrásum vist­kerf­anna og veikti gróð­ur­þekju þeirra svo vatn og vindur áttu greiða leið að jarð­veg­inum – þá varð fjand­inn laus!

Núver­andi staða er sú að fram­ræsla vot­lendis hefur skert og sundrað búsvæðum dýra og plantna og leitt til stór­felldrar los­unar á gróð­ur­húsa­loft­teg­und­um. Birki­skóg­lendi og víði­kjarri hefur verið eytt með nei­kvæðum afleið­ingum fyrir þær líf­verur sem þar búa og jafn­framt hefur geta vist­kerfa til að stand­ast áföll, eins og ösku­fall og sand­fok, skerst og hætta á eyð­ingu gróð­urs og jarð­vegs auk­ist. Ósjálf­bær land­nýt­ing hefur líka leitt til hnign­unar og eyð­ingar mólendis og dreif­ing fram­andi ágengra líf­vera er sums­staðar ógn við nátt­úru­leg vist­kerfi.

Skóg­rækt er land­bún­að­ur, end­ur­heimt birki­skóga er nátt­úru­vernd

Það er ekki öllum ljóst að vernd og end­ur­heimt vist­kerfa er ein umfangs­mesta nátt­úru­vernd­ar- og lofts­lags­að­gerð sem Ísland getur ráð­ist í. Það kemur samt mjög skýrt fram í 1 gr. laga 60/2013 um nátt­úru­vernd. Þar seg­ir:

Mark­mið laga þess­ara er að vernda til fram­tíðar fjöl­breytni íslenskrar nátt­úru, þar á meðal líf­fræði­lega og jarð­fræði­lega fjöl­breytni og fjöl­breytni lands­lags. Þau eiga að tryggja eftir föngum þróun íslenskrar nátt­úru á eigin for­sendum og verndun þess sem þar er sér­stætt eða sögu­legt og einnig stuðla að end­ur­heimt raskaðra vist­kerfa og auknu þoli íslenskra vist­kerfa gegn nátt­úru­ham­förum og hnatt­rænum umhverf­is­breyt­ing­um.“

Þetta þýðir á manna­máli að skóg­rækt með inn­fluttum teg­und­um, eins og stafa­f­uru, greni, lerki eða ösp, fellur ekki undir þessa skil­grein­ingu og er því ekki nátt­úru­vernd­ar­að­gerð. Enda er skóg­rækt land­bún­að­ur. Atvinnu­grein rétt eins og fisk­eldi og á að vera skipu­lögð og með­höndluð í takt við það. Ekk­ert kjaftæði.

Hvað er end­ur­heimt vist­kerfa?

End­ur­heimt vist­kerfa felur í sér að vinna með nátt­úr­unni og styrkja og efla hennar ferla svo hún geti náð kröftum á ný. Þannig dregur líka úr losun frá landi og kolefn­is­forði í jarð­vegi og gróðri bygg­ist aftur upp. Með end­ur­heimt vist­kerfa eflum við líka getu og við­náms­þrótt nátt­úr­unnar til að stand­ast alls konar álag, svo sem af völdum ösku­falls, flóða og ann­arrar nátt­úru­vár. End­ur­heimt fram­ræsts vot­lendis snýst fyrst og fremst um að hækka vatn­stöðu á ný og end­ur­heimta líf­ríki vot­lend­is­ins (s.s. plöntur og fugla) sam­hliða því að stöðv­a/­draga úr los­un. End­ur­heimt þurr­lendis­vist­kerfa felur í sér að hjálpa nátt­úr­unni að hjálpa sér sjálf með eins litlum inn­gripum og hægt er. Við þurfum að miða öll inn­grip við að þau séu sem væg­ust en skili sem mestum árangri til langs tíma. Reyndar þurfa inn­gripin stundum að vera stór­tæk í byrjun en loka­mark­miðið er alltaf það sama – sjálf­bær, virk og fjöl­breytt vist­kerfi. Dæmi um vernd­ar- og end­ur­heimt­ar­verk­efni eru aukin útbreiðsla birki­skóg­lendis í Þórs­mörk, og víð­ar, verndun birki­torfa, svo sem í Áslákstungum í Þjórs­ár­dal, stöðvun sand­foks inn í Dimmu­borgir í Mývatns­sveit sem og fjöl­mörg önnur verk­efni sem hafa verið unnin af bænd­um, land­not­endum og fleiri aðilum um allt land síð­ustu ára­tug­ina.

Ára­tugur end­ur­heimtar vist­kerfa

Sam­ein­uðu þjóð­irnar hafa lýst ára­tug­inn 2021-2030 ára­tug end­ur­heimtar vist­kerfa. Það er ákall um heims­á­tak í verndun og end­ur­heimt vist­kerfa í þágu fólks og nátt­úru. Ein­hverra hluta vegna virð­umst við Íslend­ingar ekki vera með ástand og mik­il­vægi íslenskra vist­kerfa alveg á hreinu, einkum þegar kemur að lofts­lags- og nátt­úru­vernd. Því þarf að breyta. Íslensk stjórn­völd, fyr­ir­tæki og ein­stak­lingar þurfa að bregð­ast kröft­ugar við ákalli Sam­ein­uðu þjóð­anna og setja stór­aukin þunga í lofts­lags­að­gerðir sem stuðla að nátt­úru­vernd sam­hliða sam­drætti í losun og/eða auk­inni kolefn­is­bind­ingu.

Greinin birtist fyrst á Kjarnanum 14. mars 2022