13 maí Breiðholt, besta hverfið
Það er frábært að vera í Breiðholtinu og búa. Þetta vitum við í Viðreisn, enda ekkert hverfi sem á jafn marga fulltrúa á okkar lista og Breiðholtið. Hér höfum við báðar alist upp. Önnur býr hér enn með fjölskyldu sinni á meðan hin fluttist yfir Elliðaár, yfir í Árbæ.
Frábær aðstaða hjá ÍR
Í Breiðholtinu fer fram mjög öflugt íþróttastarf, bæði hjá Leikni og ÍR. Það hefur verið nokkuð löng bið eftir bættri íþróttaaðstöðu fyrir börn og ungmenni hjá ÍR en í upphafi kjörtímabilsins tókst Viðreisn að tryggja fjármögnun til verkefnisins og nú erum við að uppskera. Það er búið að umbylta aðstöðunni með nýju fótboltahúsi við ÍR. Opnunardagurinn, með húsið fullt af börnum í bláhvítum búningum var dásamlegur. Við ÍR er líka komið frjálsíþróttasvæði og von bráðar verður komið nýtt parkethús, þar sem hægt verður að æfa innanhúsboltaíþróttir og dans.
Okkur í Viðreisn er mjög umhugað um börnin. Við viljum forgangsraða í þágu þeirra. Uppbygging íþróttamannvirkja á að vera í þágu barna og ungmenna og við viljum líka bæta starfsdaginn þeirra með því að samræma betur skóla og íþróttastarf, svo úr verði betri samfella.
Fimm ára frítt í leikskóla
Við teljum að öll fimm ára börn eigi að fá frítt í leikskóla. Þetta teljum við vera mikið jafnréttismál. Það eru um 5% fimm ára barna sem ekki eru á leikskóla eða hafa verið tekin út af leikskólum. Þetta eru aðallega börn af tekjuminni heimilum sem hafa þá ekki fengið sama undirbúning fyrir grunnskóla og önnur börn. Við teljum mikilvægt að bæta úr þessu. Með þessu gætum við líka styrkt leikskóla sem fyrsta skólastigið.
Sveigjanleika og fjölbreytni í heimaþjónustu fyrir aldraða
Við í Viðreisn viljum líka tryggja góða þjónustu fyrir aldrað fólk, sem byggir á virkni þeirra og þátttöku. Við viljum tryggja einstaklingum dvöl í öryggi heimilis síns eins lengi og hægt er. En til að það sé raunhæft, þá þarf líka að tryggja góða þjónustu heim. Það þarf að tryggja aðgengi, hjálpartæki, endurhæfingu, hreyfingu, fæði og afbragðs stuðningsþjónustu og heimahjúkrun. Sértaklega þarf að efla kvöld- og helgarþjónustu og sveigjanlega dagvistun. Þarna viljum við styðja við fjölbreytni og sveigjanleika, t.d. í rekstrarformi þjónustunnar sem aldrað fólk fær og í fæði sem aldrað fólk getur keypt heim.
Við vitum að það er mikilvægt að öll hverfi hafi rödd í ráðhúsinu. Atkvæði til Viðreisnar er atkvæði fyrir öll hverfi.