Falskir tónar

Nýverið lauk vel heppnaðri jazzhátíð í Garðabæ. Hátíðin var haldin í sextánda skipti og var vel sótt. Það sýndi sveigjanleika og útsjónarsemi þegar hátíðin var færð yfir á netið í heimsfaraldri, en að sama skapi var menningin mun nærandi í hópi fólks og í nálægðinni við tónlistarfólkið sjálft.

Tónlistarfólkið okkar er víða og það leynist meðal annars í börnunum okkar. Það skýtur því óneitanlega skökku við að bera það saman hversu glæsilega við getum byggt undir mikilvæga menningarhátíð á meðan börn bíða í hundruðatali eftir að komast í tónlistarnám í Garðabæ. Hér er bæði hægt að gera betur en á sama tíma stöndum við frammi fyrir einstöku tækifæri til þess að byggja undir raunverulegt val í tónlistarnámi og skapa vettvang fyrir fjölbreytt rekstrarform tónlistarskóla.

Fyrir bæjarstjórn liggur áhugi og beiðni um að Garðabær samþykki stofnun einkarekins tónlistarskóla sem gæti starfað samhliða þeim bæjarrekna. Það væri einstaklega áhugavert að stíga fram til viðræðna um stofnun á nýjum skóla og sjá hvernig einkaframtakið gæti með sínum aðferðum boðið annan valkost og slegið annan tón í tónlistarnám í bænum. Fjölbreytnin sem slík myndi styrkja Garðabæ að nýju til þess að taka forystu í skólamálum á landinu og starf tónlistarskóla fengi tækifæri til þess að þróast með breyttu samfélagi, skólum og nýjum kynslóðum.

Leyfum börnum að kynnast tónlist, leyfum þeim að kynnast þeim aga og þeirri sköpun sem í því felst. Þannig förum við vel með fjármunina okkar og hjálpum næstu kynslóð tónlistarmanna að stíga fram og leika listir sínar á jazzhátíðum Garðabæjar á komandi áratugum.

Viðreisn í Garðabæ vill sjá fjölbreytt rekstrarform og raunverulegt val birtast einnig í tónlistarnámi í bænum. Þannig sköpum við verðmæti og förum vel með það.

Höfundur skipar 2. sæti lista Viðreisnar í Garðabæ.

Greinin birtist fyrst á Vísi 3. maí 2022