03 maí Hið risavaxna kolefnisspor íbúa sveitarfélaga
Á hinum ágæta vef Kolefnisreiknir.is má sjá að hið neysludrifna kolefnisspor Íslendings er 12 tonn á mann. Það er áhyggjuefni í ljósi þess að markmið alþjóðasamfélagsins er að reyna að halda hlýnun jarðarinnar innan við 1.5°C. Til að það takist verður heimsbyggðin að draga úr núverandi losun gróðurhúsalofttegunda um helming fyrir árið 2030. Við Íslendingar erum langt yfir meðaltali þegar kemur að losun gróðurhúsalofttegunda en við, eins og aðrir jarðarbúar, þurfum að minnka okkar losun niður í 4 tonn.
Sum sveitarfélög hafa sett sér metnaðarfulla loftslagstefnu og á samstarfsvettvangi sveitarfélaganna er unnið ágætt starf eins og varðandi samgöngumál og skipulag sorpmála.
En betur má ef duga skal ef halda eigi hlýnun jarðarinnar innan við 1,5°. Til að minnka hið neysludrifna kolefnisspor er gagnlegt að einblína á þrjú atriði, sem eru ferðir, matur og neysla.
1. Skipulag samgangna og orkuskipti
Sveitarfélögin geta lagt hvað mest af mörkum til að draga úr kolefnislosun frá samgöngum með því að huga að skipulagi almenningssamgangna, skipulagi hverfa og innviðum sem styðja við aðra ferðamáta eins og að hjóla og ganga. Mikilvægi Borgarlínunnar til að auðvelda greiðar opinberar samgöngur og áhersla á þéttingu byggðar er nokkuð augljóst. Orkuskiptin úr jarðefnaeldsneytinu yfir í rafmagn, metan eða vetni verða einnig að gerast hratt.
2. Velja mat með lítið kolefnisspor og draga úr sóun
Kolefnisporið af matnum sem við innbyrðum er mjög stórt og vegur þar þungt neysla á rauðu kjöti sem ber höfuð og herðar yfir alla aðra matarflokka. Hinn dæmigerði Íslendingur borðar sem nemur 85 kíló af kjöti á ári sem er álíka og í Kanada og Brasilíu en ráðlagður skammtur af rauðu kjöti er 26 kíló á ári. Draga þarf úr neyslu dýraafurða og fylgja má fordæmi yfirvalda margra landa sem bjóða ekki upp á kjötvörur í opinberum veislum.
Matarsóun á Íslandi er einnig gríðarleg en samkvæmt tölum Umhverfisstofnunar hendir hver einstaklingur um 90 kílóum af mat á ári. Ljóst er að við þurfum að gera betur.
Sveitarfélög gætu tekið stór skref í þessa átt, t.d. með því að gera kolefnissporið af matnum sem fólk neytir, t.d. í mötuneytum, sýnilegt.
3. Velja ábyrgar vörur og gæta hófs í neyslu
Neysla Íslendinga er mikil og flest kaupum við meira en við þurfum og hendum meira en þarf. Vandamálið liggur að hluta til í þeim vörum sem við kaupum því sumar vörur hafa gríðarlega hátt kolefnisspor. Sem dæmi um neyslu sem er ekki sjálfbær er að 60% af þeim fatnaði sem við kaupum er hent innan árs. Meðaleinstaklingur kaupir um 60% meira af fatnaði í dag en fyrir 10 árum síðan. Við gætum einnig leigt frekar en keypt ýmis verkfæri og búnað. Af hverju ættu t.d. allir að eiga garðsláttuvél eða háþrýstidælu? Betra væri að leigja slík tæki þá fáu daga á ári sem við notum þau.
Sveitarfélögin gætu tekið að sér leiðandi hlutverk
Það sem sveitarfélögin gætu gert er að fara í átak í anda verkefnis sem ríkið hefur unnið eftir með góðum árangri og heitir Græn skref í ríkisrekstri. Þá er farið kerfisbundið í gegnum atriði eins og innkaup, flokkun, ferðir og orkunotkun og hvernig hægt er að draga úr losun á kerfisbundinn hátt. Með lítilli aðlögun væri hægt að sníða verkefnið að íbúum, fjölskyldum og fyrirtækjum og veita þeim jákvæðan stuðning til að fara í það verkefni. Það væri stórt skref í rétta átt að sveitarfélögin tækju að sér leiðandi hlutverk í að draga úr neyslusporinu, t.d. með því að ráða aðila sem fengi það hlutverk að aðstoða einstaklinga, heimili og fyrirtæki við að draga úr kolefnissporinu og gera lífsstílinn sjálfbærari. Í mínu sveitarfélagi sem er Garðabær er samanlagt kolefnisspor allra íbúa sambærilegt við losun gróðurhúsalofttegunda frá rúmlega 106.000 bifreiðum sem aka á jarðefnaeldsneyti. Það er allt of mikið og á kostnað framtíðarinnar.
Höfundur er í framboði fyrir Viðreisn til sveitarstjórnar í Garðabæ.