03 maí Íslenskunám á vinnutíma fyrir starfsfólk
Viðreisn í Kópavogi telur að það séu sameiginlegir hagsmunir sveitarfélagsins og starfsmanna sem vinna í leik- og grunnskólum bæjarins að styðja við íslenskunám þeirra með því að bjóða upp á íslenskukennslu á vinnustað á starfstíma fyrir þau sem slíkt vilja þiggja. Stæði starfsfólki þá til boða að sækja sér íslenskukennslu á vinnutíma og fá þar með greitt fyrir námið í stað þess að þurfa að greiða fyrir það.
Þau sem hafa starfað á leik- og grunnskólastiginu, átt þar aðstandendur eða þekkja til, vita að störfunum fylgir talsvert álag. Þá ætti ekki að hafa farið fram hjá neinum að illa hefur gengið að manna stöður í leikskólum landsins. Það er því kappsmál fyrir vinnuveitandann að tryggja gott starfsumhverfi og möguleika starfsfólksins til að þroskast og þróast í starfi.
Í leik- og grunnskólum bæjarins starfar fjöldi fólks af erlendu bergi og færni þeirra í íslensku spannar allt litrófið. Markmið þeirra sem leita hingað eru enn fremur jafn fjölbreytt og einstaklingarnir. Sumir hafa hug á skjóta hér rótum á meðan aðrir stefna ekki að langdvöl. Hvort heldur sem er ættum við að miða að því marki að gera dvöl þeirra hér sem besta.
Þau okkar sem búið hafa á erlendri grund þekkja það að aðlögun að nýjum siðum og menningu gerist ekki að sjálfu sér. Þar er Ísland engin undantekning, og mögulega er þetta jafnvel erfiðara hér. Lykillinn felst oftar en ekki í að ná tökum á tungumálinu. Þótt íslenskan verði seint talin aðgengileg reynist einhverjum það auðvelt á meðan aðrir ströggla aftur á móti við það. Þar teljum við í Viðreisn að tækifæri séu til staðar til að auðvelda það verkefni.
Ávinningur fyrir öll
Ávinningurinn er augljós, fyrir sveitarfélagið, starfsfólkið sjálft og samfélagið í heild. Vald á tungunni auðveldar starfsfólki bæði samskipti við nemendur skólanna, annað starfsfólk vinnustaðarins og fólk sem verður á vegi þess í leik og dagsins amstri. Sveitarfélagið fær starfskraft sem aukið hefur við færni sína í tungunni og ekki þarf að fjölyrða um hagnað samfélagsins af slíku. Sum sé, allir vinna.
Tillaga Viðreisnar í Kópavogi er að starfsmönnum í grunn- og leikskólum bæjarins verði gefinn kostur á íslenskukennslu á vinnutíma. Í grunnskólunum verði nýttir til þess þeir kennarar sem starfa í viðkomandi grunnskóla og eru hæfir til að sinna þeirri kennslu. Hver grunnskóli ætti auðveldlega að geta útfært innanhúss það verkefni að veita íslenskukennslu á vinnutíma. Í hverjum skóla eru menntaðir kennarar sem geta sinnt þessari kennslu. Þeir eru vanir að mæta nemendum á mismunandi getustigi og því ætti útfærslan í senn að vera einföld og ekki til þess fallin að vera kostnaðarsöm.
Útfærslan í leikskólum kann að vera flóknari en að okkar mati vel framkvæmanleg. Við berum fullt traust til stjórnenda leikskólanna og starfsmanna menntasviðs bæjarins til að útfæra þetta verkefni svo það falli sem best að starfsemi viðkomandi leikskóla og mæti þeim þörfum sem þar eru fyrir íslenskunám starfsmanna sem vildu þiggja slíkt. Við teljum að útfærslan eigi ekki að verða kostnaðarsöm enda mögulega hægt að nýta starfsfólk í þetta sem þegar starfar hjá sveitarfélaginu.
Fyrstu misserin væri um tilraunaverkefni að ræða en gefi það góða raun mætti kanna að útvíkka það og útfæra þannig að öllu starfsfólki bæjarins, sem hefur hug á, gefist kostur á að bæta færni sína í íslenskri tungu, á fullum launum í þokkabót.
Með því móti væri verið að fjárfesta til framtíðar í mannauði bæjarins, bænum, starfsfólki og nemendum til heilla. Að koma þessu í gegn á næsta kjörtímabili verður eitt af báráttumálum Viðreisnar í Kópavogi.
Höfundur er grunnskólakennari og skipar 3. sæti á lista Viðreisnar í Kópavogi.