Miðjupólitík

Þorsteinn Pálsson

Sumir segja að það hafi vantað póli­tík í sveitarstjórnarkosningarnar.

Framsókn segir aftur á móti að stórsigur hennar endurómi kröfur um breytingar þar sem miðjan fái aukið vægi á kostnað flokka lengst til vinstri og hægri.

Í landsmálapólitísku samhengi er þetta einkar áhugavert sjónarmið.

Miðjan

En hvað er miðjupólitík? Sumir lýsa henni sem leið sátta og samlyndis þar sem kjósendur eru leystir undan oki pólitískra átaka. Framsókn segist vera þar. Aðrir skilgreina miðjupólitík sem skoðanaleysi.

Veruleikinn er hins vegar sá að á miðjunni þurfa menn að sækja og verjast bæði til hægri og vinstri. Alvöru miðjupólitík getur því ekki eytt því eðli stjórnmálanna að takast á um hugmyndafræði og berjast fyrir völdum.

Miðjupólitík getur líka verið misjafnlega skynsamleg og misjafnlega ábyrg, rétt eins og önnur pólitík. Oft er gott að glöggva sig á hlutunum með raunverulegum dæmum:

Miðjan í samgöngum

Samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins er fínt dæmi um efnislega skynsama og ábyrga miðjupólitík.

Miðjupólitíkin í sáttmálanum felst í því að fjármunum er skipt jafnt á milli framkvæmda til þess að bæta almenningssamgöngur og svo styrkja hraðbrautir, stokka og mislæg gatnamót. Nokkrum fjármunum er svo varið til að bæta aðstöðu þeirra sem ganga og hjóla.

Enginn talaði hins vegar fyrir sáttmálanum með þeim rökum að verið væri að fara bil beggja með tiltölulega hófsömum breytingum.

Fráfarandi meirihluti í borgarstjórn seldi sáttmálann eins og honum væri einvörðungu ætlað að efla almenningssamgöngur. Minnihluti sjálfstæðismanna talaði gegn honum á sömu forsendu. Þvert á efni sáttmálans stýrði hugmyndafræði jaðranna umræðunni.

Þessi ósannsögli gæti með öðru hafa hjálpað Pírötum í Reykjavík. Að sama skapi kann hún að eiga sinn þátt í að helstu flokkar meirihlutans og minnihlutans töpuðu illa, því að fleiri kjósendur þeirra standa nær miðjunni.

Miðjan í alþjóðasamvinnu

Þær leikreglur, sem gilda á innri markaði Evrópusambandsins, eru umgjörð um langsamlega umfangsmestu og áhrifaríkustu miðjupólitík, sem íslensk stjórnvöld eiga aðild að.

Innri markaðurinn byggir á málamiðlun milli markaðsbúskapar og félagslegs öryggisnets, sem meðal annars birtist í öflugri neytendavernd og stuðningi við jaðarbyggðir.

Full aðild að Evrópusambandinu yrði að því leyti engin grundvallarbreyting. Hún myndi aðeins færa miðjupólitíkina lengra út. Hugmyndafræðin er sú sama og lá til grundvallar samvinnufélögunum á sínum tíma.

Þessi miðjupólitík er yfirleitt studd af frjálslyndum flokkum, hófsömum hægri flokkum og sósíal­demókrötum. Á móti eru flokkar lengst til hægri og vinstri.

Eftir stórsigur Framsóknar á höfuð­borgarsvæðinu er nú fjölmargt fólk í kjósendamengi flokksins, sem hefur ekki sömu andúð á þátttöku í fjölþjóðlegri miðjupóli­tík eins og forystan. Þegar fram í sækir gæti þetta hugsanlega leitt til mestu breytinganna, sem hljótast af kosningaúrslitunum.

Miðjan í ríkisfjármálum

Ríkjandi stefna í ríkisfjármálum er miðjupólitík.

Hún birtist í því að flokkurinn lengst til hægri hefur fengið skatta lækkaða og flokkurinn lengst til vinstri hefur áorkað hinu, að auka útgjöldin. Flokkurinn mitt á milli styður hvort tveggja og sleppur fyrir vikið við átök, sem fylgja því að taka afstöðu.

Þessi miðjupólitík tryggir stöðugleika í ríkisstjórninni. Afleiðingin fyrir fólkið og fyrirtækin er hins vegar kerfislægur halli, sem vinnur gegn stöðugleika í þjóðarbúskapnum, eykur þenslu og ýtir undir verðbólgu og hækkun vaxta. Þetta er því dæmi um óábyrga miðjupólitík.

Ábyrg miðjupólitík í ríkisfjármálum felst í því að hafa meira hóf á útgjaldaaukningunni og fjármagna hana án lántöku. Utan við þetta dæmi falla tímabundnar lántökur vegna faraldursins.

Enginn getur þó gert þetta án einhverra átaka.

Miðjan og framtíðin

Við lifum nú mikla óvissutíma. Farsæld Íslands í þeirri framtíð, sem við blasir, mun að miklu leyti ráðast af því hversu áhrifarík og ábyrg miðjupólitíkin verður á næstunni.

Þegar við horfum til möguleika á vexti og framförum er óráð að ýta frekari fjölþjóðlegri miðjupólitík út úr mengi íslenskra hagsmuna.

Til þess að tryggja stöðugleika í þjóðarbúskapnum þarf ábyrg miðjupólitík í ríkisfjármálum að leysa óábyrga miðjupólitík af hólmi.

Svo má alveg tala um breiddina í samgöngusáttmálanum.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 19. maí 2022