Svanborg tekur við sem framkvæmdastjóri Viðreisnar

Stjórn Viðreisnar hefur ráðið Svanborgu Sigmarsdóttur sem framkvæmdastjóra Viðreisnar frá og með 1. ágúst 2022. Svanborg, sem er stjórnmálafræðingur að mennt, hefur frá árinu 2019 starfað sem framkvæmdastjóri borgarstjórnarflokks Viðreisnar og verkefnastjóri sveitarstjórnarmála. Þar áður starfaði hún hjá Ríkisendurskoðun, Umboðsmanni skuldara, Varnarmálastofnun, á Fréttablaðinu, AFP og kenndi stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og Háskólann á Bifröst.

„Undanfarin þrjú ár hef ég fengið að kynnast hversu stórkostlegur kraftur býr í Viðreisn og því magnaða fólki sem er í flokknum. Verkefnið fram undan er að virkja þann kraft enn betur, samfélaginu til heilla,“ segir Svanborg.

Jenný Guðrún Jónsdóttir, fráfarandi framkvæmdastjóri hefur snúið sér að öðrum verkefnum og færir stjórn henni sínar bestu þakkir fyrir samstarfið í gegnum tíðina, um leið og hennar er óskað heilla í öllu því sem hún mun taka sér fyrir hendur.

„Við hlökkum til komandi tíma með Svanborgu sem framkvæmdastjóra en hún hefur svo sannarlega sannað gildi sitt í störfum fyrir flokkinn okkar. Réttsýni, elja og dugnaður hafa einkennt öll hennar störf, líkt og hjá forverum hennar í stöðu framkvæmdastjóra. Fram undan eru mörg mikilvæg og brýn verkefni. Þar er mikilverðast að halda áfram að efla flokkinn okkar til að baráttan fyrir frjálslyndara samfélagi og réttlátum breytingum nái fram að ganga,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.