Um hvað er varðstaðan

Áfimmta ári stjórnarsamstarfsins er forsvarsfólk ríkisstjórnarflokkanna þriggja hætt að láta eins og markmiðið hafi verið að bjóða þjóðinni upp á hlaðborð af hægri og vinstri pólitík og allt þar á milli, einhvers konar brot af því besta.

Þetta hefur auðvitað legið fyrir lengi. En einhverjir hagsmunir tengja þessa flokka saman. Sennilega er VG ekki eini flokkurinn sem er þarna til að passa að ákveðnir hlutir gerist ekki, svo vitnað sé í orð varaformanns flokksins í opnunarræðu hans á flokksráðsfundi VG í síðustu viku. Það er alla vega ljóst að núverandi ríkisstjórn spilar ekki sókn. Flokkarnir þrír eru í varnarbandalagi þar sem alið er á hræðslu við breytingar, jafnvel þær sem yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar kallar eftir.

Varnarbandalagið stendur til dæmis dyggan vörð um hagsmuni stórútgerðarinnar og vaxandi ítök hennar í samfélaginu. Passar upp á að kröfu þjóðarinnar um breytingar verði ekki svarað. Það má engan mun sjá á því hvort hægrið, miðjan eða vinstrið hafna af meiri ákefð öllum hugmyndum um að lögmál markaðarins, framboð og eftirspurn, ráði verðinu sem útgerðin greiðir þjóðinni fyrir afnot af sjávarauðlindinni. Öllum flokkunum þremur virðist henta frekar nakin ríkisafskipti af heilli atvinnugrein þar sem stjórnmálamenn leika sér að því að breyta veiðigjöldunum eftir hentugheitum.

Í heilbrigðis- og velferðarmálum virðist einkaframtakið öllum flokkunum jafn mikil ógn með þeim afleiðingum að biðlistar eftir nauðsynlegri þjónustu eru lengri en nokkurn tímann hafa sést og staðan á Landspítala versnar næstum dag frá degi.

Kerfið vex og dafnar við þessar aðstæður. Fögur fyrirheit um aukið samstarf hins opinbera og einkafyrirtækja verða eins og hvert annað grín þegar veruleikinn blasir við í formi umfangsmikillar samkeppni ríkisins við fyrirtæki á samkeppnismarkaði án nauðsynlegs aðhalds og gegnsæis.

Dæmin eru mun fleiri.

Við þurfum ríkisstjórn sem breytir því sem þarf að breyta í þágu almannahagsmuna. Ekki ríkisstjórn sem einsetur sér helst að gera ekki neitt.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. september 2022