Tillögur og ábendingar Viðreisnar vegna fjárhagsáætlunar 2023

Fyrri umræða um fjárhagsáætlun Hafnarfjarðar fór fram þann 9. nóvember. Það er því við hæfi að upplýsa um þær áherslur sem Viðreisn leggur til að teknar verði til skoðunar áður en endanleg áætlun verður samþykkt í desember. Viðreisn leggur til að:

 • Hlutfall tómstunda og félags­mála­fræðinga verði au­kið í skólum og félags­mið­stöðvum.
 • Hækka frístundastyrkinn í takt við verðlagsþróun
 • Stilla leikskólagjöldum í hóf þar sem launahækkanir, innri húsaleiga og raf­magn og hiti, sem eru stærstu kostnað­ar­­liðir við rekstur leikskóla, hafa ekki hækkað mikið. Viðreisn leggur til 4,5% hækkun um áramót. Endurskoða má þá hækkun þegar áhrif launahækkana koma í ljós.
 • Styðja betur við listsköpun og skap­andi greinar hjá ungmennum Hafnar­fjarð­ar
 • Forgangsraða fé til að styðja betur við skólastarfið með fjölgun fagmennt­aðra iðju- og þroskaþjálfa, talmeina­fræðingum og sálfræðingum.
 • Frístundastyrkurinn nái til barna frá 5 ára aldri.
 • Ungmenni fái niðurgreiðslu á árs­kortum Strætó
 • Opnunartimi sundlauga og bóka­safns verði lengdur
 • Forgangsraða meira fé til göngu- og hjólastíga.
 • Forgangsraða fé til að straum­línulaga og einfalda vinnu hjá skipulagssviði með það að markmiði að stytta afgreiðslutíma erinda sem þangað berast
 • Forgangsraða meira fé til viðhalds á skólahúsnæði

Viðreisn setur einnig spurn­ingamerki við þá aðferðafræði við lækkun fasteignagjalda að hækka fasteignaskattinn en lækka vatns og fráveitugjöld. Eins og allir vita hefur fasteignamat snarhækkað en það er sá stofn sem fasteignaskatturinn tekur mið af. Í stað þess að lækka skattprósentuna er henni haldið óbreyttri en þjónustu­gjöld lækkuð. Skilningur okkar í Við­reisn er sá að gjaldskrá vatns- og fráveitufyrirtækja skuli miða út frá kostnaði við veitta þjónustu. Það að snar­lækka gjaldskrána er annað hvort merki um að gjaldskrá hafi verið of há í langan tíma eða þá kostnaður við veitta þjónustu hafi skyndilega lækkað til muna. Það er því mikilvægt að fram komi lögfræðiálit um lögmæti þessa gjörn­ings. Þessi gjörningur er í besta falli á gráu svæði, hversu dökkgráu skal ósagt látið en lögfræðiálit getur mögulega sagt til um litakóða gráa litsins.

Greinin birtist fyrst í Fjarðarfréttum 16. nóvember 2022