Frjálslyndi og framtíðarsýn

Á gamlársdag fyrir ári lagði ég að ríkisstjórninni að freista þess að komast að málamiðlun á tveimur sviðum auðlindanýtingar. Annars vegar um nauðsynlega orkuöflun til orkuskipta og hins vegar um eðlilega gjaldtöku fyrir nýtingu okkar sameiginlegu sjávarauðlindar.

Fyrir ári höfðu þessi stóru viðfangsefni verið föst í pólitísku skrúfstykki jaðarflokkanna í ríkisstjórninni í meira en fjögur ár. Nú er enn eitt árið liðið og skrúfstykkið er áfram fast og íhaldssemin keðjuð sem fyrr við stjórnvölinn.

Frestunarpólítíkin

Málamiðlunarhugmynd mín var einföld. Hún fólst í því að þingflokkur sjálfstæðismanna gæfi eftir varðstöðu um óbreytt ástand veiðigjalda og þingflokkur VG gæfi eftir andstöðu við virkjanir. Svo lengi sem forgangsraðað væri í græna starfsemi og orkuskipti.

Ég átti ekki endilega von á að þingmenn þessara tveggja flokka færu að mínum ráðum. En ég trúði því þó í einlægni að þeir sæju í hendi sér að við svo búið mætti ekki standa vegna augljósra hagsmuna þjóðarinnar. Og þeir hagsmunir eru ekki tengdir íhaldssemi og kyrrstöðu.

Málamiðlanir deyfa eðlilega stefnu einstakra flokka. En samstarf sem byggist á því að ýta flestum stærstu úrlausnarefnunum yfir á næstu ríkisstjórn getur verið skammtímalausn í pólitískri kreppu en er ekki farsælt til lengdar.

Frestunarhugmyndafræðin stendur í vegi fyrir framförum í landinu. Íhaldssemin og óttinn við að rugga bátnum og taka á kerfum er því beinlínis hættulegur hagsmunum fólksins í landinu.

Eldhúspólitíkin og hið daglega brauð

Í greinum mínum síðustu mánuði hefur mér verið tíðrætt um þau viðfangsefni stjórnmálanna sem snerta umræðuefni fólks við eldhúsborðið, aðstæður í daglegu lífi og kjör fólksins í landinu.

Varla verður um það deilt að tvennt stendur þar upp úr. Annars vegar gífurlegur vaxtakostnaður þeirra heimila, sem eru skuldsett vegna íbúðakaupa. Hins vegar kreppan í heilbrigðisþjónustunni.

Þessi viðfangsefni leysast ekki með upphrópunum og það væri ósanngjarnt að halda því fram að ríkisstjórnin gæti með einu pennastriki gert alla ánægða. Málin eru flóknari en svo.

Á hinn bóginn gagnrýni ég ríkisstjórnina fyrir að hafa ekki skýra framtíðarsýn, trúa um of á skammtímalausnir og vilja ekki takast á við mismunun og ranglæti sem felst í kerfinu sjálfu.

Hólfaskipt hagkerfi

Tökum dæmi. Vextirnir sem eru umræðuefni við eldhúsborðið á flestum heimilum eru verkfæri til að verja verðgildi krónanna sem lagðar eru inn á launareikninginn.

Það er að sjálfsögðu ekki rangt að nota þetta verkfæri þegar nauðsyn krefur. Við skerum okkur hins vegar frá öðrum þjóðum vegna þess að ríkisstjórnin skiptir íslenskum þjóðarbúskap í tvo hluta, sem búa við gjörólíkar aðstæður. Annar hlutinn býr við forréttindi, hinn ekki.

Meginþorri fyrirtækja í útflutningsframleiðslu hefur tekjur í erlendum gjaldeyri og tekur erlend lán. Sama er að segja um öflugustu ferðaþjónustufyrirtækin.

Ríkisstjórnin heimilar þannig stærsta hluta atvinnulífsins að standa utan hagkerfis íslensku krónunnar. Í raun lætur hún seðlabönkum Bandaríkjanna og Evrópu eftir að ákveða vexti fyrir þennan hluta þjóðarbúskaparins.

Satt best að segja er þetta ekki bara skynsamlegt heldur algjörlega nauðsynlegt. Ella væri samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja enn verri.

Þau sem borga brúsann

Af þessum sökum ná vaxtaákvarðanir Seðlabankans bara til hluta þjóðarbúskaparins. Í þeim hluta eru heimilin og venjuleg lítil og meðalstór fyrirtæki. Þetta er skýringin þegar forystumenn launþega spyrja hvers vegna vextir hér eru margfalt hærri en í nágrannaríkjum okkar.

Þessi tvískipting er óréttlát. Vandinn er að ríkisstjórninni finnst hún vera réttlát. Jafnvel ljómandi fín.

En ég spyr – hvers vegna eiga félagsmenn í VR eða Eflingu að búa við allt önnur og lakari kjör á lánum til íbúðakaupa en stóru félagsmennirnir í SA þegar þeir fjárfesta í nýjum eignum? Þegar svona er í pottinn búið er augljóst að almannahagsmunir eru ekki látnir ganga framar sérhagsmunum.

Jöfn tækifæri eða mismunun

Því í þjóðfélagi jafnra tækifæra er þetta mismunun, sem viðheldur spennu og ósætti. Óréttlæti af þessu tagi er uppskrift að varanlegum óstöðugleika. Það er afleiðing af þröngsýni ríkisstjórnarinnar.

Það hallar ekki bara á launafólk vegna þessa. Lítil og meðalstór fyrirtæki hafa heldur ekki jöfn tækifæri. Engin önnur þjóð tvískiptir þjóðarbúskapnum með þessum hætti af þeirri einföldu ástæðu að það samrýmist ekki hugmyndafræðinni um jöfn tækifæri.

Við byggjum afstöðu okkar á frjálslyndri hugmyndafræði en ríkisstjórnarflokkarnir verja kerfi, sem byggist á pólitískri mismunun. Það er sú mynd sem blasir við í dag.

Fimm ár án hugmynda

Stjórnarflokkarnir segja að kreppan í heilbrigðiskerfinu stafi af slæmu skipulagi en ekki skorti á fjármunum. Þeir hafa nú haft ríflega fimm ár til að breyta skipulaginu. Samt blasir vandinn við hverju heimili í landinu.

Í heil fimm ár hafa engar hugmyndir komið fram um skipulagsbreytingar, sem leysi vandann. Eftir allan þennan tíma koma stjórnarflokkarnir sér ekki enn saman um hvers kyns leikreglur eigi að gilda um samspil opinberra aðila og einkaaðila. Og í fimm ár hafa stjórnarflokkarnir lokað leiðum innan heilbrigðiskerfisins sem gætu leitt til aukinnar þjónustu og lífsgæða.

Fram hjá hinu verður heldur ekki horft að heilbrigðiskerfið þarf líka meira fjármagn. En það þýðir að skipulag og leikreglur þurfa að vera skýr. Það vantar í dag.

Feitasti gölturinn

Það væri ekki sanngjörn gagnrýni að halda því fram að ríkisstjórninni hefði verið í lófa lagið að leysa það verkefni á einu bretti við afgreiðslu fjárlaga. Það tekur tíma. Gagnrýni mín á ríkisstjórnina er að hún hefur aldrei sett fram áætlun. Til þess hefur hún þó haft meira en fimm ár.

Að mínu mati standa ekki rök til þess að auka hlut ríkisins í þjóðarbúskapnum. Almennar skattahækkanir eru því ekki lausn.

Eina raunhæfa leiðin til að auka svigrúm heilbrigðiskerfisins er því að lækka hlutfall annarra útgjalda ríkisins. Feitasti gölturinn til að flá í þeim tilgangi er vaxtakostnaðurinn.

Þá spyrja menn hvort hann sé ekki óumflýjanlegt náttúrulögmál. Horfum á kaldar staðreyndir.

Val um þrjár leiðir

Ríkissjóður greiðir helmingi hærra hlutfall af þjóðarframleiðslu í vexti en skuldugustu þjóðir Evrópu þó að skuldirnar séu hlutfallslega miklu lægri. Þökk sé litlu hagkerfi og íslensku krónunni. Hlutfall vaxtaútgjalda ríkissjóðs er allt að því tvöfalt hærra en algengt hlutfall útgjalda til varnarmála í Evrópuríkjum.

Það þarf kerfisbreytingu til að leysa þessa skekkju. En meðan við ýtum því stóra verkefni á undan okkur á ríkisstjórnin ekki annan kost en að troða marvaðann með heilbrigðismálin.

Pólitík snýst um að velja leiðir. Að mínu mati er kerfisbreyting í gjaldmiðilsmálum betri en almennar skattahækkanir. Versta leiðin er að hafa enga áætlun. Við erum stödd þar.

Frjálslyndi og framtíðarsýn

Ég hef kosið að draga fram þessi tvö viðfangsefni á síðasta degi ársins. Það geri ég vegna þess að þau brenna á heimilunum í landinu og hluta atvinnulífsins. En ég geri það líka í þeim tilgangi að varpa ljósi á að stór viðfangsefni verða hvorki leyst með skyndilausnum né með því að setja þau í hliðarskúffuna á þeim forsendum að nú sé ekki rétti tíminn. Það er alltaf rétti tíminn til að breyta rétt. Sýna hugrekki og þolinmæði og tala fyrir sanngjarnari skiptingu og framtíðarsýn.

Þess vegna höfum við þörf fyrir frjálslynda pólitík; pólitík sem byggist á réttlæti og pólitík sem tekur á kerfum sem standa í vegi fyrir efnahagslegum, félagslegum og umhverfislegum framförum.

Með þessari hugleiðingu óska ég landsmönnum til sjávar og sveita farsældar og friðar á nýju ári.

 

Greinin britist fyrst í Morgunblaðinu 31. desember 2022