Höfuðborgarsvæðið og Suðurnes

Pawel Bartoszek

Höfuðborgarsvæðið og Suðurnes eru tvö stærstu þéttbýlissvæði landsins. Þar búa samalagt um 270 þúsund manns og fjölmargir ferðast á milli á degi hverjum. Langstærsti alþjóðaflugvöllur landsins er á Suðurnesjum en langflest gistirými landsins í Reykjavík. Góðar samgöngur á milli þessara tveggja svæða skipta því miklu máli fyrir landið allt.

Reykjanesbraut er nú orðin tvöföld að stærstum hluta. Til stendur að setja síðasta kaflann, milli Straumsvíkur og Hvassahrauns, í útboð nú á nýju ári. Þar með verður lokið við þessa farsælu umferðaröryggisaðgerð sem hefur verið í vinnslu frá aldamótum.

Tvöföld Reykjanesbraut útilokar ekki aðra kosti í samgöngum milli svæðanna. Þvert á móti er hún forsenda þeirra. Á meðan svona augljós fjárfesting, sem svona mikið ákall er um, liggur er ókláruð er í raun lítið rými til að eiga umræðu um aðrar samgönguúrbætur á svæðinu. En getum við bráðum gert það. Og þurfum að gera.

Hugsum næstu skref

Árið 2019 var árleg dagsumferð (ÁDU) á brautinni um 16 þúsund bílar á sólarhring. Það eru nokkurn veginn mörkin þar sem skynsamlegt er að skipta yfir í 2+2 veg. Tvöföld Reykjanesbraut er því passleg og ætti að duga vel næstu árin. Við vitum þó að líklegt er að umferðin eigi eftir að halda áfram að aukast.

Íbúum á Suðurnesjum mun fjölga. Íbúum á höfuðborgarsvæðinu mun fjölga. Með bættum vegasamgöngum mun þeim fjölga sem vilja búa á öðrum staðnum og vinna á hinum. Flugfarþegum mun halda áfram að fjölga. Vaxi umferðin um 4–5% á ári verður hin tvöfalda Reykjanesbraut líka komin að þolmörkum eftir 15–20 ár. Við þurfum að ræða hvað við viljum gera þá.

Ef við byrjum ekki að spá þessu fyrir en eftir 20 ár þá munum við örugglega gera það sem við kunnum best: Að fjölga akreinum og breyta 2+2 vegi verður í 3+3 veg. En það eru aðrir valkostir. Við gætum til dæmis bætt við sérakreinum fyrir strætó og rútur. Nú, eða við gætum skoðað sporbundnar samgöngur, eins og stundum hefur verið kallað eftir. Sú lausn er án efa dýrust en líka sú sem líklegust er til að hafa mest jákvæð áhrif á ferðavenjur.

Ekki lengur smáflugvöllur

Hugmyndir um lest milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar voru fyrst skoðaðar af einhverri alvöru um seinustu aldamót. Á þeim árum komu um 300 þúsund ferðamenn til Íslands á hverju ári. Seinustu ár hefur talan hæst farið yfir 2 milljónir.

Ferðamannafjöldinn hefur sem sagt sjöfaldast á tveimur áratugum! Segjum nú að hann bara fimmfaldist á næstu tveimur áratugum. Þá þurfum við samt fimmfalt fleiri rútur og fimmfalt fleiri bílaleigubíla sem munu keyra til Reykjavíkur og leggja þar, nema að við hugsum upp einhverjar aðrar lausnir.

Keflavíkurflugvöllur er nefnilega ekki lengur einhver krúttlegur smáflugvöllur. Hann er kominn á lista yfir þá 60–70 flugvelli Evrópu sem taka á móti flestum farþegum. Eftir nokkur ár verður hann álíka stór og Gardemoen-flugvöllur var á fyrstu árum eftir opnun um síðustu aldamót. Sá flugvöllur var tengdur við miðbæinn með lest frá upphafi.

Skoðum alla kosti

Lestum fylgja auðvitað ókostir, þær eru dýrar, taka pláss, fara bara fyrirframákveðna leið og almennt þá skortir okkur sérfræðiþekkingu vegna þeirra hér á landi. En mín skoðun er að við eigum að halda áfram að skoða þetta. Þetta er verkefni sem gæti hentað ágætlega sem einkaframkvæmd (eða blönduð framkvæmd) en fjölmargir aðilar í öðrum löndum hafa reynslu af uppbyggingu lestarkerfa.

Að lokum vil ég nefna eitt. Frá því að Reykjanesbrautin var tvöfölduð hefur verið vont að hjóla milli Reykjavíkur og Keflavíkur. Það er glatað. Það þarf að klára hjólastíg þarna meðfram. Þetta er fullkomin dagsferð sem hraustar fjölskyldur og vinahópar gætu farið á fallegum sumardegi. Og tekið svo lestina heim. Eða alla vega látið sig dreyma um það.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 19. janúar 2023