Af strútum í sandi

Með fjárlögum 2023 slær ríkisstjórnin enn eitt Íslandsmetið í eyðslu. Þrátt fyrir batnandi tekjuhorfur ríkissjóðs var lagt af stað inn í 2023 með aukinn halla frá forsendum fjármálaáætlunar og enn hærri vaxtagjöld.

Með öðrum orðum skilaði ríkisstjórn VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar enn og aftur fjárlögum sem auka ríkisútgjöld um tugi milljarða. Skýr merki um aðhald eru hróplega fjarverandi. Eins fær forgangsröðum ríkisútgjaldanna falleinkunn. Það á jafnt við um forgangsröðun þeirra útgjalda sem ríkissjóður á fyrir og þeirra sem ríkisstjórnin tekur lán fyrir hjá skattgreiðendum framtíðarinnar. Íslensk heimili búa nefnilega við þann veruleika að á tímum fordæmalausrar ríkisútgjaldaþenslu lengjast biðlistar eftir heilbrigðis- og öldrunarþjónustu sem aldrei fyrr. Gríðarleg þörf er fyrir uppbyggingu í samgöngum og í menntakerfinu er kallað eftir fjárfestingu í langtímahugsun. Listinn er lengri og öllum er það augljóst að hér þarf að gera betur.

Á sama tíma og spár um stöðu þjóðarbúsins hafa versnað. Á sama tíma og aðgengi atvinnulífsins að erlendu fjármagni hefur þrengst. Á sama tíma og vextir virðast enn á uppleið þrátt fyrir fyrirheit um annað. Á sama tíma og ríkissjóður borgar meira í vexti á ári en fer í að greiða fyrir heilbrigðisþjónustu heimila í gegnum Sjúkratryggingar Íslands. Á sama tíma og blekið er varla þornað á fjárlögum ársins þá stígur ráðherra ríkisstjórnarinnar fram með leikþátt um fráleita sölu eftirlitsflugvélar Landhelgisgæslunnar til að tryggja enn meiri peninga úr galtómum og hriplekum ríkiskassa. Hvaða frekari uppákomum megum við búast við á næstunni?

Það er ekki traustvekjandi að fylgjast með ríkisstjórninni haga sér eins og skelkaðir strútar í stað þess að sýna nauðsynlega fjárhagslega ábyrgð. Einn ráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, virðist hafa kippt höfðinu upp úr sandinum og ætlar að ná fram 650 milljóna hagræðingu á ári með sam­ein­ingu stofnana. Það verður örugglega erfið framkvæmd. Jafnvel sársaukafull. Það er hins vegar ekki endalaust hægt að senda reikning af ósjálfbærum rekstri ríkissjóðs á heimili landsins í nútíð og náinni framtíð af því að stjórnvöld treysta sér ekki í erfiðu verkin.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 8. febrúar.