Drögum úr útgjöldum strax

Skilaboðin úr Seðlabankanum í vikunni kristölluðu þann bráðavanda sem íslenskt hagkerfi stendur andspænis. Ráðast þarf í stefnufastar aðgerðir til þess að koma skikki á bókhald ríkisins þegar í stað. Tómlæti stjórnvalda gagnvart stöðunni er enginn kostur lengur.

Það er fólkið í landinu sem fær verðbólgurukkanirnar inn um lúguna. Hækkandi afborganir af húsnæðislánum og kvittanir úr matvöruversluninni sýna það svart á hvítu. Við því þarf að bregðast og tíminn vinnur ekki með okkur.

Látum vera að við í Viðreisn höfum um árabil bent á að ríkisfjármálin væru í ólestri og að grípa þyrfti til aðgerða til að koma í veg fyrir hallarekstur ríkissjóðs. Við breytum engu um fortíðina. Hitt er verra, að róðurinn í bókhaldi ríkisins þyngist enn og nú er svo komið að ekkert má út af bregða.

Mikilvægasta hagsmunamál íslenskra fjölskyldna um þessar mundir er þannig að komið verði í veg fyrir frekari vaxtahækkanir. Áhrifarík leið til þess, og sú sem seðlabankastjóri og fleiri hafa kallað eftir, er að draga úr ríkisútgjöldum.

Við sem sitjum á þingi þurfum nú að sýna ábyrgð í verki. Það gerum við með því að stíga upp úr dægurþrasinu og vinna sameiginlega að því að koma böndum á hallareksturinn, heimilunum til hagsbóta. Þar mun ekki standa á þingflokki Viðreisnar.

Í næstu viku er fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar væntanleg og til mikils að vinna að þar verði að finna raunhæfar tillögur til að draga úr ríkisútgjöldum strax. Viðreisn hefur þegar viðrað aðgerðir í þá veru og er til viðræðu um allar jarðbundnar hugmyndir í því skyni – hvaðan sem þær kunna að koma. Vonir okkar standa til þess að mótleikarar okkar í ríkisstjórnarflokkunum hafi það líka bak við eyrað í þeirri vinnu að engu máli á að skipta hvaðan gott kemur.

Öllum er svo kunnugt um þá afstöðu Viðreisnar að ríkisstjórnin líti algerlega fram hjá draugnum í herberginu í stóru myndinni. Krónan er auðvitað upphaf og endir þess sveiflukennda hagkerfis sem við Íslendingar búum við. Með þessa örmynt sem sjálfstæðan gjaldmiðil verður agi í ríkisfjármálum frekar val hverrar ríkisstjórnar en nauðsyn. Oftast á engu tekið fyrr en í óefni er komið.

En tökum á bráðavandanum núna og plástrum sárið. Svo er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að farið verði að ræða af fullri alvöru um umgjörð efnahagsmála á Íslandi til langt inn í framtíðina. Því þetta þarf ekki að vera svona.

En þangað til getum við sammælst um að betri er lítill fiskur en tómur diskur.

Greinin birtist fyrst Morgunblaðinu 24. mars 2023