Fulli frændinn

Verðbólga er í sögulegum hæðum hér á landi, nokkuð sem allur almenningur finnur á eigin skinni. Þá gildir einu hvort rætt er um búðarferðir fjölskyldunnar eða afborganir af húsnæði. Verð allra hluta er að hækka.

Varnarviðbrögð þeirra sem vilja láta eins og ekkert sé undanfarnar vikur hafa verið lítilfjörleg, en einkum einkennst af greinum heittrúaðs krónufólks um að Evrópusambandið sé ólýðræðisleg samkunda sem hafi það helst að markmiði að ræna íslensku þjóðina sjálfstæði sínu og fiskimiðum. Sú mynd sem dregin er upp er einfaldlega röng. Hagsmunamat talsmanna krónunnar er rammskakkt.

Þá hefur farið nokkuð fyrir ræðum í fundarsal Alþingis þar sem þuldar eru upp efnahagsstærðir og túlkaðar þannig að allt sé fullkomið á Íslandi. Sú er auðvitað ekki raunin. Keisarinn er í raun frekar fáklæddur.

Og ríkisstjórnin fer í vörn. Því það er hún sem ber ábyrgð á því efnahagsástandi sem nú ríkir og teiknast reglulega upp. Mun oftar en hjá Evrópulöndunum sem þó standa frammi fyrir miklum áskorunum um þessar mundir. Verðbólgan þar er víða meiri en núlifandi kynslóðir hafa vanist. Munurinn er sá að hún er þeim framandi og á sér augljósar skýringar – stríð og heimsfaraldur – en er ekki órjúfanlegur hluti af sögu þjóðar þeirra á örfárra ára fresti.

Ískyggileg staða í efnahagslífinu hér er af öðrum toga og skýrist í megindráttum af þeirri örmynt sem við búum við sem stenst ekki andbyr. Það er erfitt viðureignar í veruleika þar sem það
skiptast á skin og skúrir.

Krónan svífst einskis gagnvart venjulegu, harðduglegu fólki en hyglir þeim sem eiga nóg til. Gjaldmiðillinn hækkar reikninga í heimilisbókhaldi fólks og fyrirtækja þegar í harðbakkann slær. Í heimi útvaldra, þeirra sem mest eiga, sér hins vegar ekki högg á vatni – og þá skiptir engu hvernig viðrar.

Staða heimila og venjulegra íslenskra fyrirtækja er tekin að þrengjast verulega. Ástæðan er sú að stjórnvöld neita að horfast í augu við þá staðreynd að löngu ætti að vera búið að reka síðasta naglann í líkkistu krónunnar.

Krónan hegðar sér eins og fulli frændinn í brúðkaupi og fjölskyldan við ríkisstjórnarborðið er ráðalaus. Fulla frændanum halda engin bönd. Seðlabankastjóri situr uppi með sitt eina tæki, stýrivaxtatækið, og reynir sitt besta við vonlausa veislustjórn.

Gjaldmiðillinn er stjórnlaus. Aftur. Af þeim sökum situr almenningur uppi með hærri afborganir af eðlilegum húsnæðislánum og matarkarfan verður sífellt dýrari. Það finnum við þegar við greiðum fyrir nauðsynjar í matvöruversluninni. Það sjáum við á afborgunum af lánunum okkar. Og enn og aftur eru það þeir sem minnst eiga sem verða undir.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. mars 2023