Samkeppni, sérhagsmunir og majónes

Ritdeila Ragnars Árnasonar prófessors emeritus og Páls Gunnars Pálssonar forstjóra  samkeppniseftirlitsins er merkileg. Ragnar er augljóslega ekki aðdáandi Samkeppniseftirlitsins. En það er ekki síður merkilegt að sjá hvaða stöðu Morgunblaðið tekur. Í nýlegum leiðara kallar Morgunblaðið eftir liðsinni þingsins til að yfirvöld samkeppnismála séu ekki að vasast of mikið í samrunamálum. Langur málsmeðferðartími er gjarnan nefndur og að fyrirtækin eigi við ofurefli að etja. Helst er á Ragnari og Morgunblaðinu að skilja að það þjóni hagsmunum almennings best að Samkeppniseftirlitið sé veikara, eða að fákeppni sé varin á Íslandi svo einu innlendu valkostirnir verði Kaupfélagsostur og
Kaupfélagsmajónes. En liggja hagsmunir almennings virkilega þar?

Samkeppni þjónar almannahagsmunum
Nýjasta dæmið varðar kaup Kaupfélags Skagfirðinga á samkeppnisaðila sínum Gunnars majónesi sem
hefði gert að verkum að Kaupfélag Skagfirðinga hefði gleypt mikilvægan keppinaut. Slíkur samruni er skaðlegur fyrir hagsmuni neytenda og með því ætti svarið um afstöðu Samkeppniseftirlitsins að blasa
við. Samruni sem leiðir af sér minni samkeppni og fákeppni er ekki vænleg niðurstaða fyrir almenning. En í skrifum gegn vinnubrögðum Samkeppniseftirlitsins hafa jákvæð áhrif samkeppni alveg gleymst. Og þar hefur líka gleymst að Ríkisendurskoðandi hefur nýlokið skoðun á Samkeppniseftirlitinu – og gaf þar út eftirfarandi heilbrigðisvottorð: „Að mati Ríkisendurskoðunar verður ekki séð að á tímabilinu 2018-20
hafi málsmeðferðartími samrunamála verið óeðlilega langur eða að viðvarandi veikleikar í afgreiðslu þeirra hafi grafið undan skilvirkni, árangri og hagkvæmni starfseminnar.“ Svo mörg voru þau orð.

Samkeppni er tæki gegn verðbólgu

Heilbrigð samkeppni er eitt sterkasta vopnið til að tryggja almenningi lægra verð, betra vöruúrval og til að ýta undir nýsköpun. Samkeppniseftirlitið þjónar síðan auðvitað fyrst og fremst því hlutverki að verja markaðinn svo þar ríki heilbrigð samkeppni en ekki skaðleg fákeppni. Öflugt og skilvirkt Samkeppniseftirlit þjónar þannig hagsmunum fólksins í landinu. Án þess værum við Íslendingar mögulega enn að súpa seyðið af samráðsolíu, samráðstryggingum og samráðskjöti.

Sú var tíðin að það var hluti af hægristefnunni að telja virka samkeppni af hinu góða. Þegar samkeppnisreglur komu fyrst fram á sjónarsviðið í Bandaríkjunum árið 1890 var tilgangurinn að vernda neytendur gegn háu verði og takmörkuðu framboði. Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur sagt samkeppnislög vera stjórnarskrá atvinnulífsins.

Majónesan er orðin gul

Í verðbólgu skapast aðstæður til að þrengja enn frekar að neytendum og heimilum. Og í því ástandi er
þess vegna merkilegt að líta á það sem forgangsmál að hjóla í eftirlit samkeppnismála og teikna upp þá
mynd að samkeppniseftirlitið sé af hinu vonda fyrir íslenskar aðstæður og neytendur. Á Norðurlöndunum hafa ríkisstjórnir þvert á móti tekið markviss skref til að verja heimili fyrir áhrifum verðbólgu – og þeim hættum sem í henni felast gagnvart neytendum. Norsk stjórnvöld hafa til
dæmis aukið fjármagn til Samkeppniseftirlitsins til að koma í veg fyrir að fyrirtæki fari fram úr sér í verðhækkunum í því verðbólguástandi sem núna ríkir. Þar hafa stjórnvöld litið á samkeppnisyfirvöld sem bandamann almennings á verðbólgutímum. Þetta gætu íslensk stjórnvöld auðvitað gert og ættu að gera. Og þeir sem hafa áhyggjur af því að málsmeðferðartími Samkeppniseftirlitsins sé of langur ættu frekar að tala fyrir því að styrkja stoðir eftirlitsins svo það geti unnið áfram faglega – en hraðar.
Auðvitað á ekki að koma sérstaklega á óvart að sérhagsmunum finnist fákeppnin betri. En fræðimenn á sviði hagfræði og fjölmiðill sem skilgreinir sig til hægri sem hafa það sem sitt helsta áhugamál að tala gegn eftirliti á sviði samkeppni spila í vitlausu liði.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. mars