Traust til lýðræðisins

Traust var rætt í borgarstjórnarfundi í vikunni. Traust er mikilvægt en það fer dvínandi í heiminum. Sérstaklega traust til opinberra aðila sem áður var mikið en er nú lítið. Samsæriskenningar lifa góðu lífi og popúlismi og jaðarskoðanir grassera um allan heim. Við lifum sannarlega á sérstökum tímum sem á síðar eftir að vera lýst sem tímabili öfga, þjóðernispop­úlisma og stríða. Og hvers vegna skrifa ég um þetta hér í tengslum við traust til borgarstjórnar? Jú, það er vegna þess að mitt í þessu umróti lifum við og hrærumst. Alla daga fáum við fréttir, fáum ekki fréttir og fáum falsfréttir með gríðarlegum fyrirsögnum.

Á dögunum var kynnt könnun Gallup á trausti til stofnana og embætta. Í þeim gögnum kemur í ljós að traust til borgarstjórnar hefur minnkað á milli ára og er það áhyggjuefni. Borgarbúar eru þó tvöfalt líklegri til að treysta borgarstjórn en íbúar nágrannasveitarfélaganna og þrefalt líklegri en fólk á landsbyggðinni. Auðvelt er að detta í þá gryfju að halda að mælingar á trausti séu beintengdar dægurmálum eins og snjómokstri eða viðhaldsmálum í skólum og leikskólum. En mæling á trausti er flóknari en svo.

Hvað getum við gert?

Ég átta mig vel á að almennt dvínandi traust til opinberra stofnana er mun stærra mál en traust til borgarstjórnar Reykjavíkur, en sem forseti borgarstjórnar vil ég taka til mín hvað getum við gert betur í Reykjavík.

Pólitík er pólitík en ég sé að við getum gert mikið. Í borgarstjórn, fagráðum og nefndum vinnum við saman. Langoftast í sátt og samlyndi en samt virðast landsmenn halda að hér séum við að rífast og þræta alla daga.

Ég vil stuðla að góðum samskiptum sem byggjast á virðingu. Við verðum seint sammála, öll í borgarstjórn. Hér tökum við þúsund og eina ákvörðun alla daga. Um þær eru mismunandi skoðanir, alls ekki alltaf sem allir eru sáttir og þannig verður það alltaf. En við getum hins vegar viðhaft góð samskipti og virðingu fyrir hvert öðru, fyrir þjónustu borgarinnar, fyrir starfsfólki, talað máli borgarinnar, talað vel um þjónustu borgarinnar, vel um starfsfólkið og vel um borgarfulltrúa allra flokka. Við erum öll samábyrg. Við getum öll haft áhrif á það að breyta þessu ef við viljum. Það verður ekki gert með því að benda í allar áttir. Það er í okkar höndum ef við viljum auka traust íbúa borgarinnar.

Tökum höndum saman um að efla traust

Ég mun taka málið inn til forsætisnefndar Reykjavíkur þar sem ég vil gjarnan ræða hvað við getum gert saman til að traust til borgarstjórnar aukist. Þetta verkefni er þverpólitískt og okkur öllum í hag að auka traust Reykvíkinga. Við munum þar taka ríkið okkur til fyrirmyndar en fyrir liggur ítarleg vinna frá 2018 um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu frá forsætisráðuneytinu. Hér er um langtímaverkefni að ræða og ég tek það verkefni að mér heilshugar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 9. mars 2023