Ekkert verð fyrir þennan pening

Fjögurra manna fjölskylda á Íslandi greiðir að meðaltali 3 milljónir á ári vegna slælegrar ákvarðana í hagstjórn landsins. Eitt dæmi gallaðrar hagstjórnar er að halda dauðahaldi í íslensku krónuna.

Af hverju? Kostnaður fjölskyldna kemur að miklu leyti til vegna þess að vaxtakostnaður á Íslandi er umtalsvert meiri en í Evrópu. Með varfærnum samanburði má gera ráð fyrir fjögurra prósenta vaxtamun milli krónu og evru. Það þýðir að ríkisstjórn Íslands borgar 4 prósent hærri fjármagnskostnað af skuldum en kollegar þeirra sem sýsla með evrur en ekki krónur.

Árið 2022 voru skuldir A-hluta ríkisins, sem samanstendur af okkar mikilvægustu stofnunum, fyrir utan lífeyrisskuldbindingar um 1600 milljarðar. Á mannamáli þýðir það að skattgreiðendum var sendur 64 milljarða reikningur á árinu í útgjöld sem rekja má beint til krónunnar. Útgjöld sem bæta ekki líf þeirra eða þjónustuna sem fólk sannarlega þarf að sækja.

Við þetta má bæta kostnaði sem ríkissjóður ber við að halda úti gjaldeyrisforða, en hann er um 900 milljarðar á ári. Að sömu forsendum gefnum kostar krónan íslenskar fjölskyldur 36 milljarða á ári í því tilviki.

Kostnaður ríkisins sem rekja má til þessa vaxtamunar er því um 100 milljarðar á hverju ári – bara vegna A hluta ríkisins og Seðlabankans.

Skuldir heimilanna eru svo um 2600 milljarðar og því er viðbótarkostnaður heimilanna og einstaklinganna – um 4 prósent – eða 100 milljarðar á hverju ári. Sama má segja um atvinnulífið sem skuldar um 2800 milljarða og 4 prósent af því eru um 110 milljarðar. Til viðbótar eru svo skuldir sveitarfélaga sem eru að lágmarki um 650 milljarðar og 4 prósent af því er um 26 milljarðar. Svona mætti áfram telja.

300 milljarðar eða 8% af landsframleiðslu

Aukakostnaður lántakenda sem rekja má til krónunnar og hagstjórnar hjá ríki, heimilunum, atvinnulífinu og sveitarfélögum er því samtals tæpir 300 milljarðar króna á ári sem jafngildir um 8 prósent af allri landsframleiðslu.

Þetta eru mikið af tölum og tæknilegu sérmáli. En kostnaðurinn sem af krónunni hlýst samsvarar rúmlega 3 milljónum á hvert fjögurra manna heimili í landinu á hverju ári – því við vitum sem er, að kostnaður ríkisins, atvinnulífsins og sveitarfélaga – lendir hvort sem er beint eða óbeint á heimilunum og almenningi.  Flestar  fjögurra manna fjölskyldur myndu eflaust vilja verja þeim peningum í annað eða gjarnan fá að geyma þá á sparnaðarreikningi.

Við erum eftir allt saman rík þjóð. Ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að við getum haldið grunnkerfum velferðarþjónustu úti af myndarskap. En það er val þeirra stjórnmálamanna sem hingað til hafa ríghaldið í krónuna að verja sameiginlegum sjóðum okkar í að greiða háan fórnarkostnað við örmynt í stað þess að byggja undir velferðarríkið – öllum til hagsbóta.

Greinin birtist fyrst á heimildin.is 9. apríl