Nú er nóg komið

Það var sláandi að heyra af framgöngu fjármálaráðuneytisins í máli sem varðar tollflokkun á jurtapitsuosti. Sérhagsmunagæslan er með ólíkindum. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis tók málið fyrir í síðustu viku þar sem fulltrúar Félags atvinnurekenda röktu söguna og lögðu fram gögn sem sýna brot stjórnvalda gegn fyrirtæki innan raða þess.

Í stuttu máli snýst þetta um að tollflokkun jurtapitsaosts var breytt þar sem Mjólkursamsalan var óhress með að sitja ekki ein að markaði fyrir rifinn ost á pitsur á veitingastöðum og í matvælaframleiðslu. Fjármálaráðuneytið og skattayfirvöld gengu í málið og varan var færð úr tollalausum flokki yfir í flokk sem ber háa tolla. Í þokkabót fékk fyrirtækið sem hafði flutt inn ostinn tollalaust bakreikning upp á nokkur hundruð milljónir króna!

Tollafgreiðsludeild Skattsins vildi ekki taka þátt í þessu leikriti og sagði sig frá málinu. Sannarlega stýra íslensk stjórnvöld því hversu háir tollar eru lagðir á innfluttar vörur. Það er þó ekki þannig að þau geti tollflokkað vörur að eigin geðþótta þegar sérhagsmunirnir kalla. Ísland er meðal um 150 ríkja heims sem hafa tekið upp hina alþjóðlegu tollskrá Alþjóðatollastofnunarinnar og skilvirk alþjóðaviðskipti byggjast á því að sameiginlegur skilningur ríki um tollflokkun vöru. Til dæmis á því að jurtaolía er ekki mjólkurvara.

Málatilbúnaður fjármálaráðuneytisins í þessu dæma lausa máli byggðist á tölvupósti frá starfsmanni
skatta- og tolladeildar framkvæmdastjórnar ESB. Annar tölvupóstur barst svo frá sama starfsmanni 12 dögum síðar þar sem hann dró fyrri póst til baka og sagðist ekki hafa haft rétta innihaldslýsingu vörunnar. Þeim pósti var stungið svo neðarlega í skúffuna að hann var ekki lagður fram sem lykilgagn í málarekstri sem af þessari sérhagsmunagæslu stjórnvalda spratt fyrr en tveimur og hálfu ári síðar.

Þetta var í málarekstri fyrir héraðsdómi. Þegar málinu var áfrýjað til Landsréttar hélt fjármálaráðuneytið leyndum formlegum bréfum sem framkvæmdastjórn ESB og Alþjóðatollastofnunin höfðu sent Skattinum um að hin nýja tollflokkun Íslands væri röng. Þessi bréf fékk fyrirtækið ekki heldur að sjá né voru þau lögð fyrir Landsrétt sem þar með kvað upp dóm sem byggist á ófullnægjandi gögnum. Með þessum vinnubrögðum hafði fjármálaráðuneytið sigur. Málið var þá borið undir Alþjóðatollastofnunina sem nýlega komst að þeirri niðurstöðu að varan ætti heima þar sem hún var tollflokkuð áður.

Við í Viðreisn höfum ítrekað bent á þörf á nýrri nálgun þar sem hagsmunir bænda og neytenda eru í forgrunni frekar en hagmunir milliliða. Er ekki rétt að láta þetta dæmalausa mál verða vendipunktinn? Það er komið nóg af sérhagsmunagæslu og hræðslu við heilbrigða samkeppni.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. apríl