Lækkum kostnað!

Mestu kjarabætur sem almenningi á Íslandi standa til boða er uppstokkun á markaði daglegrar neysluvöru. Við borgum meira fyrir mat og aðrar nauðsynjar en þær þjóðir sem við berum okkur saman við. Það kemur harðast niður á þeim sem minnst hafa. Þau tæma veskið til að borga lífsnauðsynjar og kalla eðlilega eftir bættum kjörum með tilheyrandi óróa á vinnumarkaði sem hefur áhrif á allt efnahagskerfið. En við þurfum að horfa á fleira en launin. Við þurfum að lækka kostnað.

Hækkandi verð á mat og víni virkar með sama hætti á fyrirtæki. Verð á aðföngum veitingastaða stendur mörgum þeirra fyrir þrifum. Veitingafólk getur ekki endalaust hækkað verðið á matseðlinum í takt við auknar álögur ríkisins. Verðið er löngu komið yfir þolmörk launafólks. Veitingastaðir þurfa að borga laun sem hækka og hækka.

Sjaldan er feitan gölt að flá i veitingarekstri. Útsjónarsömu fólki tekst, þegar best lætur, að eignast reksturinn með því að borga niður skuldir á löngum tíma og skapa sér þannig lífeyri í fasteign eða rekstri, sem hægt er að setja í hendur erfingja eða bjartsýnna kaupenda við starfslok.

Vaxtasirkus undanfarinna missera hefur gert áform margra sem töldu sig langt komna á slíkri vegferð að engu. Ég frétti nýlega af manni á sextugsaldri, sem seldi rótgróinn vaxandi rekstur, losaði sig við íbúðina og keypti sér nýja ódýrari með þeim orðum að hann hreinlega nennti ekki lengur að slíta sér út fyrir bankana. Vaxtakostnaðurinn sligaði hann – sem var kominn á skrið fyrir hrun, lenti þá aftur á byrjunarreit en tókst að klóra sig áfram. Nú blasti við honum svipuð staða. Hann getur ekki lagt það á sig og sína að endurtaka píslargönguna – og hættir meðan hann enn stendur í fæturna.

Þetta er mikil fórn fyrir samfélagið. Svona dugmikið fólk er gulls ígildi. Þess vegna þarf að grípa i taumana. Viðreisn vill nýta öll tækifæri sem gefast til þess að lækka verð til fólks. Það má lækka álögur á aðföng og afnema tolla. Líka leggja niður hina ríkisreknu Verðlagsnefnd búvara og treysta markaðnum. Við gætum einnig lækkað opinber gjöld á léttu víni svo um munar, þannig að það þoli heilbrigða álagningu veitingafólks. Við getum gert allt þetta strax í dag. Stóra skrefið til langs tíma er svo full þátttaka í innri markaði ESB og upptaka evru.

Ráðstafanir af þessu tagi lækka vísitöluna, draga úr greiðslubyrði lána, auka kaupmátt, draga úr þrýstingi á vinnumarkaði, létta áhyggjum af fólki og auðga mannlíf.

Þetta þarf nefnilega ekki að vera svona. Það er heimskulegt að kyrkja fyrirtæki með álögum, eins og nú er gert með aðgerðum flokksins sem segist vinur einkaframtaksins. Sorglegu dæmin, hliðstæð því sem lýst er hér eru mýmörg. Fækkum þeim.

Greinin birtist fyrst á Vísi 4. maí 2023