Tími aðhalds og hagræðingar

Það er ljóst þegar ársreikningur Reykjavíkur 2022 er skoðaður að nú er tími aðhalds, hagræðingar og endurskipulagningar.

Rekstrarhallinn var mun meiri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir en í samræmi við hvað við sáum þegar leið á árið þegar verðbólgan rauk
upp og vextir hækkuðu langt umfram spár. Þættir sem hafa mikil áhrif á rekstur borgarinnar. Rekstrarhallinn var 11 ma.kr.
meiri en gert hafði verið ráð fyrir. Þar af voru um 6 ma.kr. áhrif verðbólgu og vaxtastigs sem hækka skuldbindingar borgarinnar til langs tíma.
Verðtrygging bítur borgarsjóð og aðra sveitarsjóði jafn fast og heimilin.

Vörumst dramatík

Ég dreg enga dul á að ársreikningurinn er slæmur og við þurfum að stíga fast á bremsur til að koma rekstri borgarinnar í jafnvægi.

Gagnrýnendur hafa þó farið nokkuð fram úr sér og talað um gjaldþrota rekstur. Það er fjarri lagi, eins og sjá má á því að skuldaviðmið A-hlutans er enn, eftir ársreikninga 2022, lægst í Reykjavík af sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu og skuldir á hvern íbúa lægstar.

Það þýðir ekki að hagræðingar sé ekki þörf. Þegar við ákváðum að gefa í hvað varðar stuðning við fólk og fyrirtæki á tímum Covid, þá sögðum
við í Viðreisn líka skýrt að sá tími kæmi að við yrðum að fara í miklar hagræðingaraðgerðir. Ekki voru margir sem veittu því athygli þá en
sannspá urðum við og heldur fyrr en við áttum von á. Nú er öllum ljóst að sá tími er kominn.

Hagræðing strax sl. haust

Við í Reykjavík erum stundum spurð af hverju við séum ekki að fara í bráðaaðgerðir, líkt og Árborg. Kemur þar tvennt til. Annars vegar
er Reykjavík á mun betri stað en Árborg. Hins vegar sáum við það strax síðasta haust í hvað stefndi og brugðumst við. Í vetur kynntum við 92
hagræðingaraðgerðir. Aðgerðir sem snúa að því að ná tökum á rekstrinum, lækka launakostnað, minnka fjárfestingar og einfalda skipulag með
sameiningu sviða. Öll svið þurftu að hagræða í sínum rekstri.

Hagræðingaraðgerðir kalla á kjark og staðfestu til að standa með verkefninu. Ekki leið á löngu áður en mótmæli bárust, því ekki mátti
hagræða hér og alls ekki þar. Við gerum okkur vel grein fyrir því að hagræðingar hafa áhrif á fólk og þjónustu. En þær eru óumflýjanlegar
og við þurfum að hagræða enn meira.

Verðbólgan lifir enn

Ríkisstjórninni gengur illa að ná tökum á verðbólgunni og gera spár greiningaraðila ekki ráð fyrir að við sjáum fyrir endann á tímabili hárra
vaxta og verðbólgu. Fyrir Reykjavík þýðir það að við verðum að taka stór skref með aðhald og hagræðingu að leiðarljósi.

Fram undan eru erfiðar ákvarðanir sem við í Viðreisn munum ekki veigra okkur við að taka í þágu borgarinnar. Það þarf að sameina fleiri
einingar innan kerfisins og skoða að leggja niður fleiri verkefni sem ekki eru lögbundin. Nú er rétti tíminn til að greina ítarlega alla þjónustu þar sem borgin er í samkeppnisrekstri, líkt og þegar er hafið hvað varðar bílastæðahúsin, með það í huga hvort réttara sé að einhver annar en
Reykjavíkurborg sinni henni. Markmiðið er að sveitarfélagið verði á enn tryggari fótum til að sinna lögbundnum og mikilvægum skyldum sínum við borgarbúa.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. maí 2023