Samkeppni og sanngirni

Í hag­fræðinám­inu mínu forðum daga var lögð mik­il áhersla á sam­keppni og þýðingu henn­ar fyr­ir lífs­kjör fólks. Þetta eru auðvitað eng­in geim­vís­indi og þess vegna hef­ur það vakið nokkra furðu mína hvernig til­tekn­ir stjórn­mála­flokk­ar hafa haldið hinu gagn­stæða á lofti, þ.e. að öfl­ugt eft­ir­lit með sam­keppni og viður­lög við sam­keppn­is­brot­um sé frek­ar eitt­hvað sem beri að forðast.

Staðreynd­in er auðvitað sú að skort­ur á sam­keppni auðveld­ar fyr­ir­tækj­um að velta kostnaðar­hækk­un­um út í verðlagið. Slík­ar markaðsaðstæður hindra líka komu nýrra aðila á markað og vinna þannig gegn ný­sköp­un og auk­inni fram­leiðni. Því liggja auðvitað bullandi al­manna­hags­mun­ir í sterku sam­keppnis­eft­ir­liti.

Sjáv­ar­út­veg­ur er ein mik­il­væg­asta stoð ís­lensks efna­hags­lífs. Eig­in­fjárstaða sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja hef­ur batnað veru­lega frá hruns­ár­un­um og fjár­fest­ing­ar þeirra út fyr­ir grein­ina hafa auk­ist í sam­ræmi við það. Í okk­ar fá­menna sam­fé­lagi get­ur það hæg­lega leitt til veru­legr­ar upp­söfn­un­ar eigna og áhrifa á fárra hend­ur og dregið úr virkri sam­keppni á mörkuðum.

Árið 2021 óskaði ég eft­ir því að þáver­andi sjáv­ar­út­vegs­ráðherra flytti Alþingi skýrslu með sam­an­tekt á raun­veru­legu eign­ar­haldi eig­enda 20 stærstu út­gerðarfé­laga lands­ins í at­vinnu­rekstri sem ekki teng­ist kjarn­a­rekstri þeirra. Til­gang­ur­inn var m.a. að upp­lýsa um raun­veru­leg áhrif út­gerðarfyr­ir­tækja á ís­lenskt at­vinnu­líf og sam­fé­lag í krafti ótíma­bund­ins einka­leyf­is til nýt­ing­ar fisk­veiðiauðlind­ar­inn­ar. Ekki síst að varpa ljósi á áhrif þeirra á sam­keppn­ismarkað.

Eft­ir dúk og disk skilaði ráðherr­ann útþynntri skýrslu sem ekki svaraði mik­il­væg­ustu spurn­ing­un­um. Eft­ir sat þing­heim­ur og al­menn­ing­ur áfram í myrkr­inu varðandi raun­veru­leg völd og áhrif sjáv­ar­út­vegsris­anna í ís­lensku sam­fé­lagi.

Nú­ver­andi mat­vælaráðherra hef­ur tekið málið áfram og gert Sam­keppnis­eft­ir­lit­inu að vinna út­tekt á því hvaða áhrif eigna­tengsl inn­an sjáv­ar­út­vegs og milli óskyldra greina geta haft á sam­keppni og aðra al­manna­hags­muni. Nú er kannski von á því að raun­veru­leg svör ber­ist og það virðist al­deil­is ekki gleðja alla jafn mikið.

Radd­ir inn­an sjáv­ar­út­vegs­ins hafa kallað það at­lögu gegn fyr­ir­tækj­um hvernig Sam­keppnis­eft­ir­litið elti fé­lög í sjáv­ar­út­vegi. Sú túlk­un er áhuga­verð í ljósi þess að um­rætt verk­efni stofn­un­ar­inn­ar er að taka sam­an fyr­ir­liggj­andi gögn til að kort­leggja áhrif eigna­tengsla á sam­keppni og aðra al­manna­hags­muni. Að kort­leggja um­svif til­tek­inna sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja í ís­lensku sam­fé­lagi í krafti þeirra for­rétt­inda að hafa ótíma­bundn­ar heim­ild­ir til að nýta sjáv­ar­auðlind­ina án þess að greiða markaðsvirði fyr­ir.

Get­um við ekki verið sam­mála um að það sé eðli­legt og sann­gjarnt að gegn­sæi ríki um nýt­ingu nátt­úru­auðlind­anna okk­ar?

Greinin birtist fyrst 20. júní í Morgunblaðinu