Mikilvægi Gleðigöngunnar

Hinsegin dagar verða haldnir hátíðlegir í Reykjavík í næstu viku þar sem fjölbreytileika mannlífsins verður fagnað með ýmsum hætti. Hápunkturinn er svo sjálf gleðigangan sem fer fram á laugardaginn eftir viku. Það er ekki bara hinsegin fólk sem fagnar, meginþorri þjóðarinnar tekur undir, enda fátt sem staðfestir betur stöðu okkar sem opið, frjálslynt og vel upplýst samfélag.

Á þeim ríflega 20 árum sem gangan hefur verið haldin á Íslandi hafa orðið miklar framfarir varðandi lagaleg réttindi hinsegin fólks og þar með sýnileika okkar í samfélaginu. Þessar framfarir má rekja til þrotlausrar vinnu fjölda fólks innan og utan hinsegin samfélagsins. Þær hafa verið mörgum dýrkeyptar, kallað á erfiðar persónulegar fórnir fólks sem staðið hefur í forgrunni réttindabaráttunnar. Að sama skapi er ástæða til að gleðjast yfir því að í seinni tíð hafa þessar réttarbætur orðið að veruleika með fullum stuðningi íslensks samfélags og langoftast án áberandi meiðandi orðræðu þeirra sem hafa verið á móti því að hinsegin fólk njóti sömu lagalegu réttinda og aðrir borgarar. Helsta undantekningin til þessa hefur líklega verið baráttan um hjónabandið en þau ljótu orð sem þá voru látin falla skildu eftir sár sem enn er grunnt á. Eins og við vitum öll rættust heimskulegar hamfaraspár ekki, samfélagið er enn fullt af gagnkynhneigðum hjónum. Hinsegin hjón bættust bara við.

Nú eru aftur blikur á lofti í umræðu um tilverurétt hinsegin fólks, að þessu sinni eru það réttindi trans fólks sem eru hinum þröngsýnu þyrnir í auga. Minni spámenn hafa uppgötvað að þar er vís leið til stundarfrægðar að hafa uppi meiðandi umræðu, gjarnan dulbúna sem almennar áhyggjur um velferð samfélagsins. Jafnvel eru stofnuð samtök í tilraun til að gefa fordómunum faglegt yfirbragð.

Það er þarf hins vegar að taka alvarlega hversu baráttan gegn frelsi og réttindum tiltekinna hópa hinsegin fólks er nátengd uppgangi ýmiskonar öfgaafla í heiminum. Því miður eru mörg dæmi um hvernig þau öfl hafa náð eða eru nálægt því að ná fótfestu. Og undir eru ekki bara réttindi hinsegin fólks. Við vitum öll að bakslag varðandi frelsi og velferð kvenna er veruleiki og það sannarlega ekki eingöngu í fjarlægum heimshlutum. Í Bandaríkjunum vilja nú öfgahópar úr stjórnmálunum endurskrifa hina blóðugu sögu þrælahaldsins og koma þeirri útgáfu inn í skólana. Dæmin eru því miður mun fleiri.

Ég trúi því að þau sem berjast fyrir frjálslyndum velferðarsamfélögum beri sigur úr býtum. En það gerist ekki fyrirhafnarlaust. Við þurfum öll að vera á vaktinni og þar er mikilvægi gleðigöngunnar ótvírætt.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu