Sjúk samkeppni

Eins og sturlaðir vext­ir, verðbólga og al­menn dýrtíð sé ekki nóg til að valda heim­il­um lands­ins ómæld­um erfiðleik­um og and­vökunótt­um þá ber­ast frétt­ir af ósvíf­inni at­lögu stór­fyr­ir­tækja að hags­mun­um al­menn­ings. Sam­an­tekt Sam­keppnis­eft­ir­lits­ins yfir helstu atriði sam­ráðs Sam­skipa og Eim­skips er sann­ar­lega eng­inn ynd­is­lest­ur en bein­ir at­hygl­inni svo um mun­ar að mik­il­vægi þess fyr­ir lífs­kjör fólks að heil­brigð sam­keppni ríki á mörkuðum.

Því var beint til mín í umræðuþætti um sam­keppn­is­mál að það hljóti að vera erfitt að vera til hægri í póli­tík­inni þegar svona mál koma upp. Svarið er bæði já og nei. Já, því það kem­ur óorði á hægrið þegar brot­in eru ekki tek­in nægi­lega föst­um tök­um. Nei, af því að það er grund­vall­ar­atriði í hægri póli­tík að standa vörð um virka sam­keppni á mörkuðum og gegn fákeppni og ein­ok­un.

Það er fátt sem skap­ar heim­il­um og fyr­ir­tækj­um lands­ins jafn mikla vel­sæld og heil­brigður markaður. Til þess að skapa þær aðstæður þarf að upp­fylla ýmis skil­yrði. Varðstaða stjórn­valda um hags­muni al­menn­ings með öfl­ugri sam­keppn­is­lög­gjöf og sterku og skil­virku sam­keppnis­eft­ir­liti er þar lyk­il­atriði.

Sam­keppn­is­lög­in skapa leik­regl­ur á markaði og koma í veg fyr­ir að fyr­ir­tæki brjóti á rétti annarra fyr­ir­tækja og heim­ila. Eina mark­mið sam­keppnis­eft­ir­lits er að styrkja heil­brigða sam­keppni, sem er þegar upp er staðið öfl­ug­asta neyt­enda­vernd­in. Og ekki veit­ir okk­ur af!

Sam­keppnis­eft­ir­litið okk­ar er ekki yfir gagn­rýni hafið. Það er eðli­legt að skoða t.d. ein­fald­ara og skil­virk­ara reglu­verk til að ýta und­ir sam­keppni og neyt­enda­vernd. Við í Viðreisn höf­um lagt áherslu á að auka leiðsagn­ar­hlut­verk Sam­keppnis­eft­ir­lits­ins af því að það spar­ar bæði tíma og fjár­magn. Eft­ir­litið hef­ur verið gagn­rýnt fyr­ir að hafa ekki sinnt því sem skyldi af því að heim­ild­in er fyr­ir hendi. Og af hverju? Þegar fjár­fram­lög til Sam­keppnis­eft­ir­lits­ins eru skoðuð sést að leynt og ljóst hef­ur verið dregið úr fram­lög­um til eft­ir­lits­ins síðustu ár. Það seg­ir ákveðna sögu.

Hin aðkallandi spurn­ing er: hvað geta stjórn­völd gert bet­ur í því að vernda fyr­ir­tæki og heim­ili lands­ins gegn fákeppni og okri? Sam­keppn­is­lög­gjöf­in okk­ar kem­ur að miklu leyti frá Evr­ópu­sam­band­inu í gegn­um samn­ing­inn um Evr­ópska efna­hags­svæðið, eins og svo margt annað sem lýt­ur að hags­mun­um al­menn­ings. Enn er þó ým­is­legt sem við eig­um eft­ir að inn­leiða í ís­lensk lög og má þar helst nefna evr­ópsku skaðabóta­til­skip­un­ina frá 2014 sem eyk­ur veru­lega mögu­leika tjónþola, neyt­enda og fyr­ir­tækja, til að sækja bæt­ur vegna sam­keppn­is­brota. Biðin eft­ir þess­um rétt­ar­bót­um er of löng.

Bar­átt­an gegn sjúkri sam­keppni er eitt þeirra mörgu brýnu verk­efna sem bíða nýrr­ar rík­is­stjórn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. september