Sólarhringur af auðmýkt

Þegar rúmur sólarhringur var liðinn frá því að fjármálaráðherra greindi þjóðinni auðmjúkur frá afsögn sinni vegna afdráttarlausrar niðurstöðu umboðsmanns Alþingis um lögbrot hans við sölu á Íslandsbanka höfðu nánast allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins mótmælt niðurstöðu umboðsmanns. Sólarhrings auðmýktinni var lokið. Helstu tíðindin af blaðamannafundi fjármálaráðherra voru þegar betur var að gáð hvaða ráðherrastóll myndi bíða hans í lok vikunnar. Eftir afsögnina tekur nefnilega ekki annað en við en nýr dagur í stjórnarráðinu. Og nýr ráðherrastóll. Formaður Sjálfstæðisflokksins mun þá hafa afrekað að hafa sagt af sér embætti án þess að missa embætti.

 

Má ekkert?

Nú er lína Sjálfstæðisflokksins sú að niðurstaða umboðsmanns hafi verið óvænt og furðuleg lagaflækja. Það hafi verið stórkostlega óvænt að fjármálaráðherra sé vanhæfur þegar einkahlutafélag í eigu föður hans er meðal kaupenda í lokuðu útboði á hlutabréfum í ríkisbanka sem fjármálaráðherra er að selja. Algjörlega ófyrirséð niðurstaða jafnvel þó að þetta hafi verið kjarni gagnrýninnar allan tímann. En hér eru engar óvæntar lagaflækjur á ferðinni heldur bara klassískar kröfur um að ráðherra gæti að tengslum og hagsmunum við meðferð valds og hafi lágmarkseftirlit með stofnunum sem hann ber ábyrgð á. Þetta eru ekki galnar kröfur þegar verið er að selja tugmilljarða eignir almennings heldur einmitt mjög skynsamlegar. Það speglar áhugaverðan hugarheim ef þessi niðurstaða er Sjálfstæðisflokknum raunverulega framandi.

Allan þann tíma sem vinnubrögð fjármálaráðherra við Íslandsbankasöluna hafa verið gagnrýnd hefur forsætisráðherra staðið vaktina og staðhæft að undirbúningur fjármálaráðherra hafi verið í samræmi við lög en það hafi síðan bara verið „framkvæmdahliðin“ hjá öllum öðrum sem klikkaði. Strákarnir í Bankasýslunni klúðruðu fyrst (sem eru rétt eins og fjármálaráðherra enn starfandi þrátt fyrir fréttatilkynningu ríkisstjórnarinnar um að Bankasýslan yrði lögð niður og þeir líta enn svo á að útboðið á hlutabréfunum í Íslandsbanka hafi verið farsælasta útboð Íslandssögunnar).

Síðan klikkuðu söluaðilarnir í Íslandsbanka. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur samt í gegnum allt þetta ferli sagt að ekkert hafi komið fram sem bendi til að óeðlilega hafi verið staðið að undirbúningi Íslandsbankasölunnar af hálfu fjármálaráðherra. Þetta sagði hún eftir skýrslu Ríkisendurskoðunar. Aftur eftir hæstu sekt Fjármálaeftirlitsins frá upphafi. Meira að segja eftir að Umboðsmaður tilkynnti að hann væri að skoða hæfi fjármálaráðherra hélt Katrín Jakobsdóttir áfram að tala með þessum hætti. Yfirleitt passa ráðherrar sig á því að tjá sig ekki um um mál hjá eftirlitsaðilum á meðan þau eru til meðferðar. Í þessu máli giltu önnur lögmál þrátt fyrir að spurningar umboðsmanns til fjármálaráðherra beri augljóslega með sér alvarleika málsins. Hvað segir þetta okkur um mat forsætisráðherra eða hversu langt hún gengur til að lengja í lífi ríkisstjórnarinnar?

 

„Við verðum að læra af þessu“

Í bréfum umboðsmanns til fjármálaráðherra minnir hann fjármálaráðherra sérstaklega á hæfisreglur stjórnsýslulaga. Segir að reglunum sé ætlað að koma í veg fyrir ómálefnaleg sjónarmið við ákvarðanir og ætlað að stuðla að því að almenningur geti treyst stjórnvöldum. Umboðsmaður talar um að hann hafi í framkvæmd ítrekað bent á mikilvægi þess að traust ríki um það þegar stjórnvöld ráðstafa eignum ríkisins. Hann vísar í sjónarmið um traust og öryggi. Í samskiptum umboðsmanns og fjármálaráðherra er fjallað um þá staðreynd að starfsmenn fjármálaráðuneytisins sátu sem áheyrnarfulltrúar á fundum Bankasýslunnar. Spurningar varða t.d. hvers vegna ekkert var hugað að hæfi. Með öðrum orðum: ekki hugað að hagsmunum og tengslum.

 

Lærum að vera utanríkisráðherra

Það leið sólarhringur frá því að þessi afdráttarlausa niðurstaða birtist þar til þingmenn Sjálfstæðisflokksins höfðu snúið áliti umboðsmanns á haus sem og staðreyndum málsins. Eru hinir ríkisstjórnarflokkarnir samferða Sjálfstæðisflokknum á þessari vegferð?

Ríkisstjórnin hefur enn lítið sagt um næstu skref. Flestum erfiðum málum ríkisstjórnarinnar hefur lokið þannig að forsætisráðherra hefur sagt að það þurfi að læra af málinu. Læra af mistökunum. Lærdómurinn í þessu máli verður sennilega sá að fjármálaráðherra fær að læra að vera utanríkisráðherra.

 

Greinin birtist fyrst á Eyjunni 12. október 2023