Sporin hræða

Hug­ur okk­ar allra er hjá Grind­vík­ing­um. Að fjöl­skyld­ur þurfi að yf­ir­gefa heim­ili sitt og byggðarlag með sára­lítið nema brýn­ustu nauðsynj­ar er auðvitað ótrú­leg og sár lífs­reynsla. Við það bæt­ist óvissa um framtíðina, eig­ur, hús­næði, fjár­mál, at­vinnu og skóla­göngu barn­anna. Fólki í þess­ari stöðu á að hjálpa.

Íslend­ing­ar kunna mjög vel að bregðast skjótt við og koma fólki í skjól und­an ógn, enda eru snjóflóð, jarðskjálft­ar og eld­gos hluti af raun­veru­leik­an­um. Ógnir sem reglu­lega þarf að bregðast við. Eitt af því er að verja mann­virki og mik­il­væga innviði. Það er mjög góð samstaða á Alþingi um að gera það hratt og vel. Fyrr í vik­unni voru af­greidd með hraði lög sem heim­ila gerð varn­argarða vegna yf­ir­vof­andi eld­goss. All­ir þing­menn voru þessu samþykk­ir. Að sjálf­sögðu.

Varn­argarðarn­ir kosta sitt og til að hægt sé að reisa þá hratt þarf að víkja til hliðar öðrum lög­um, til að mynda stjórn­sýslu­lög­um, lög­um um um­hverf­is­mat og lög­um um nátt­úru­vernd. Til að fjár­magna varn­irn­ar var lagður nýr skatt­ur á all­ar fast­eign­ir í land­inu. Þann skatt þurfa ein­stak­ling­ar, fyr­ir­tæki og sveit­ar­fé­lög að greiða. Þótt all­ir séu hlynnt­ir því að varn­irn­ar séu reist­ar verður að gera at­huga­semd við að fyrsta hug­detta sé alltaf að hækka skatta. Sér í lagi í þessu til­viki því það eru til fjár­mun­ir í vara­sjóði rík­is­ins. Þeim sjóði er bein­lín­is markað það hlut­verk meðal ann­ars að mæta „meiri hátt­ar ófyr­ir­séðum og óhjá­kvæmi­leg­um út­gjöld­um, svo sem vegna nátt­úru­ham­fara“. Skatt­greiðend­ur hafa því þegar greitt af sín­um fast­eign­um til að mæta ófyr­ir­séðum út­gjöld­um vegna nátt­úru­ham­fara. Og það eru tug­ir millj­arða í sjóðnum.

Einnig er var­huga­vert að leggja á skatt, sem að öll­um lík­ind­um verður til fram­búðar að sögn for­sæt­is­ráðherra, án þess að rýna það nægj­an­lega vel og fá fram öll sjón­ar­mið í um­sögn­um. Það var ekki gert vegna þess að af­greiða þurfti lög­in með hraði. Þess þá held­ur að nýta vara­sjóðinn og gefa sér tíma til að fara bet­ur yfir fjár­mögn­un­ina. Það hefði ekki tafið gerð varn­argarðanna sem þing­menn voru sam­mála um að reisa.

Því miður er það svo að spor­in hræða. Ríkið inn­heimti af skatt­greiðend­um í fyrra rúma 3,8 millj­arða í of­an­flóðasjóð, sem nýtt­ur er í varn­ir gegn of­an­flóðum. Sjóður­inn fékk hins veg­ar bara 2,7 millj­arða í sinn hlut til að sinna sín­um vörn­um. Ríkið notaði rúm­an millj­arð af gjald­inu í annað. Á síðustu árum hef­ur ríkið tekið 15 millj­arða af þessu gjaldi og sett í önn­ur verk­efni en að verja byggðir fyr­ir snjó og aur­flóðum. Sag­an seg­ir okk­ur því skýrt að ríkið hik­ar ekki við að skatt­leggja fólk og fyr­ir­tæki í því skyni að verja byggðir fyr­ir nátt­úru­ham­förum, en nýt­ir svo stór­an hluta pen­ings­ins í annað. Það er ekki sann­gjarnt gagn­vart fólk­inu sem á að verja.

 

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. nóvember 2023