Að lofa upp í ermarnar á öðrum

Ég þoli ekki hvernig þessi gaur lof­ar alltaf upp í erm­ina á öðrum,“ sagði vinnu­fé­lagi minn eitt sinn um ann­an koll­ega okk­ar. Mér verður oft hugsað til þess­ara orða þegar ég verð vitni að því þegar ein­hver ætl­ar öðrum að bera kostnaðinn af eig­in lof­orðum. Nú sitja orðin pikk­föst í höfðinu á mér þegar við ræðum fjár­lög rík­is­stjórn­ar­inn­ar sem eru kynnt með 46 millj­arða kr. halla á sama tíma og sam­eig­in­leg­ur yf­ir­drátt­ur heim­ila í land­inu slær öll fyrri met, er orðinn yfir 100 millj­arðar kr.

Yf­ir­drátt­ar­lán eru dýr­ustu lán sem heim­il­um standa til boða. Í þessu landi sturlaðra vaxta taka senni­lega fá heim­ili slík lán nema brýna nauðsyn beri til. Umboðsmaður skuld­ara seg­ir þetta skýrt dæmi um að róður­inn hjá heim­il­um sé far­inn að þyngj­ast veru­lega.

Það er sem sagt fátt dýr­ara en að reka sig með halla. Það gild­ir einu hvort um er að ræða heim­ili sem þurfa að taka rán­dýr yf­ir­drátt­ar­lán til að rekst­ur heim­il­is­ins gangi frá mánuði til mánaðar eða rík­is­sjóð sem er stýrt þannig að það þarf rán­dýr lán til að rekst­ur­inn gangi upp.

Á þessu ári nem­ur vaxta­kostnaður rík­is­sjóðs 124 millj­örðum kr. Það eru pen­ing­ar sem eru ekki notaðir í önn­ur og öllu áhuga­verðari verk­efni. Ekki notaðir til að bæta stöðu bág­staddra og ekki notaðir til að styrkja heil­brigðis­kerfi svo dæmi séu tek­in. Í ljósi þeirr­ar staðreynd­ar að ís­lenska krónu­hag­kerfið er há­vaxtaum­hverfi er grát­legt að stjórn­völd skuli hafa gengið jafn­langt í skuld­setn­ingu og raun ber vitni á því stutta tíma­bili Íslands­sög­unn­ar þar sem vext­ir héld­ust nokkuð hóf­leg­ir. Ekki síst þar sem skuld­setn­ing­in fór að mestu í að stjórn­völd eyddu um efni fram frek­ar en þau verðu pen­ing­un­um í fjár­fest­ing­ar sem skila raun­veru­legri ávöxt­un fyr­ir sam­fé­lagið.

Í umræðu um fjár­lög­in kall­ar stjórn­ar­meiri­hlut­inn 46 millj­arða hall­ann aðhalds­semi. Það er rang­nefni. Í besta falli eru fjár­lög­in hlut­laus í bar­átt­unni við verðbólg­una. Finnst ein­hverj­um það nógu gott á sama tíma og heim­ili lands­ins búa við vaxta­of­beldi sem ætlað er að draga úr þenslu og temja verðbólg­una? Á slík­um tím­um á ríkið að forðast að auka skuld­ir með því að draga úr út­gjöld­um sem eru fjár­mögnuð með halla.

Það væri ósk­andi að stjórn­völd beittu rík­is­fjár­mál­un­um af afli í bar­átt­unni við verðbólg­una en létu ekki heim­ili lands­ins að mestu um þann slag. Fyr­ir því hef­ur Viðreisn talað linnu­lítið síðustu ár og mun láta verk­in tala þegar færi gefst. Við vit­um að það kem­ur alltaf að skulda­dög­um. Við vilj­um ekki að heim­ili lands­ins beri þá byrði ein.

 

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. desember 2023