Í hvað eiga skattarnir að fara?

Þau eru mörg og marg­vís­leg mál­in sem brenna á fólki þessa dag­ana en ég ætla að leyfa mér að full­yrða að þar taki tvennt mest rými: fjár­hags­staða heim­il­anna og staða heil­brigðisþjón­ust­unn­ar.

Það þarf ekk­ert að fjöl­yrða um erfiðleika margra fjöl­skyldna við að ná end­um sam­an í því há­vaxtaum­hverfi sem hér hef­ur ríkt síðan stjórn­völd lofuðu lág­vaxtaum­hverfi til fram­búðar – og þökkuðu eig­in snilld – sum­arið 2021. Þetta vit­um við óþægi­lega vel. Það þarf held­ur ekk­ert að hafa mörg orð um erfiða stöðu í heil­brigðis­kerf­inu okk­ar þar sem starfs­fólk býr margt við óá­sætt­an­legt álag á sama tíma og biðlist­um eft­ir ým­iss kon­ar nauðsyn­legri þjón­ustu fjölg­ar og þeir lengj­ast. Þetta þekkja all­ir.

Það er hins veg­ar full ástæða til að ræða for­gangs­röðun, ábyrgð og aðhald í rík­is­rekstri. Væri þessi þrenn­ing í há­veg­um höfð á stjórn­ar­heim­il­inu væri staða bæði heim­ila og heil­brigðis­kerf­is­ins önn­ur og betri. Við nú­ver­andi aðstæður er mik­il­væg­ara en nokkru sinni að sýna ábyrgð og aðhald og leggja áherslu á bætta for­gangs­röðun.

Í sam­fé­lag­inu okk­ar rík­ir sátt um að við leggj­um okk­ar af mörk­um í gegn­um skatt­kerfið til að tryggja mik­il­væga grunnþjón­ustu, ekki síst heil­brigðisþjón­ustu. Þess vegna borg­um við háa skatta. Sú spurn­ing verður hins veg­ar sí­fellt áleitn­ari hvort stjórn­völd geti ekki nýtt skatt­pen­ing­ana frá heim­il­um og fyr­ir­tækj­um lands­ins mun bet­ur. Viðreisn hef­ur lengi kallað eft­ir skýr­ari sýn, meira gegn­sæi og sam­stilltu átaki í því skyni, meðal ann­ars í þágu bættr­ar heil­brigðisþjón­ustu.

Í síðustu viku átti ég sam­tal í þingsal við Will­um Þór Þórs­son heil­brigðisráðherra um slæma stöðu heilsu­gæsl­unn­ar. Eft­ir sex ára ár­ang­urs­laus mót­mæli hef­ur Fé­lag ís­lenskra heim­il­is­lækna nú skorað á lækn­ana að hætta að gefa út til­vís­an­ir vegna barna þegar þeir ættu ekki beina aðkomu að mál­um. Þetta verklag eitt kost­ar þrjú ár­s­verk heim­il­is­lækna sem við sjá­um öll að er sturlað. List­inn um til­vís­un­ar­kröf­ur er svo mun lengri. Ég spurði heil­brigðisráðherra hvort þessi krafa stjórn­valda hefði raun­veru­lega leitt til betri þjón­ustu og betri nýt­ing­ar skatt­pen­inga. Svar ráðherr­ans var að málið hefði verið í skoðun í nokkra mánuði og að málið yrði leyst.

Ég er með hug­mynd. Í stað þess að taka nokkra mánuði í að skoða mál þegar þau eru kom­in í óefni, hvað með að hafa skýra sýn á það hvað á að ávinn­ast með breyttu verklagi og mæla svo reglu­lega hvernig til tekst? Skatt­pen­ing­arn­ir okk­ar eiga nefni­lega ekki að vera enda­laus upp­spretta til­rauna­verk­efna sem engu skila.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. febrúar