Meiri læknisfræði, minni kerfisfræði

Skrifræði er að kæfa lækna. Við höfum öll fundið fyrir því hvernig staðan er á heilsugæslum landsins. Við vitum hversu erfitt það er að fá tíma, og að persónulegar tengingar eða hraustlegur skammtur af frekju eru gulls ígildi í þeirri viðleitni. Við vitum líka af óheyrilegu álagi á heimilislækna en könnun frá síðasta ári sýnir að 25% þeirra hafa íhugað mjög alvarlega að fara í veikindaleyfi
vegna kulnunar. Margrét Ólafía Tómasdóttir, formaður félags heimilislækna, segir að þessar sláandi niðurstöður hafi því miður ekki keyrt af stað þær breytingar sem læknar hefðu viljað sjá í kjölfarið. Þetta er í samræmi við orð Steinunnar Þórðardóttur, formanns Læknafélags Íslands, sem segir lækna upplifa í auknum mæli samráðsleysi við mótun heilbrigðiskerfisins.

Það er raunverulega galið að við þessar aðstæður skuli stjórnvöld leggja auknar kröfur á heimilislækna um að þeir eyði tíma sínum í að skrifa út tilvísanir. Nú virðist mælir þeirra loksins fullur eftir áralanga þrautagöngu við að ná eyrum stjórnvalda. Félag heimilislækna hefur sent frá sér áskorun til félagsmanna um að hætta að skrifa út tilvísanir vegna barna þegar þeir hafa enga aðra
beina aðkomu að málinu, enda virðist það augljós leið til að létta álagi á heilbrigðiskerfið að losa lækna undan óþarfa skrifræði. Í áskorun Félags heimilislækna kemur fram að heil þrjú ársverk hafi
farið í slíkar tilvísanir vegna barna á síðasta ári. Og þetta er bara brot af skrifræðinu sem þeim er gert að sinna. Þetta veldur auðvitað ekki bara óþarfa álagi á læknana heldur líka á foreldra sem þurfa að þvælast um í kerfinu til að þóknast kerfinu.

Það er full ástæða til að staldra við hér og horfa gagnrýnum augum á vegferðina undanfarin ár. Þegar stjórnvöld tóku þetta kerfi upp var það yfirlýst markmið að heilsugæslan yrði fyrsti viðkomustaður sjúklinga til að tryggja þjónustuna og nýta mannauð og tíma fólks sem best. Nú er brýnt að skoða hvernig tekist hefur til. Erum við raunverulega að nýta starfskrafta lækna best svona? Er þetta aðlaðandi umhverfi fyrir nýja lækna? Hefur þetta skrifræði leitt til betri þjónustu við notendur heilbrigðiskerfisins? Förum við betur með skattpeninga almennings?

Ef svörin eru neikvæð, þá þurfum við að ganga strax í heildarendurskoðun á framkvæmdinni svo að stjórnvöld eyði ekki frekari tíma og fjármunum í stefnulausa vegferð. Það er orðið nóg af slíku.