Fjármögnunin skiptir víst máli

Það er mikið fagnaðarefni að kjara­samn­ing­um hafi verið landað til fjög­urra ára. Samn­ingsaðilar virðast líka hafa verið meðvitaðir um ábyrgð sína gagn­vart verðbólgu og sýnt hana með því að stilla kröf­um sín­um í hóf. Þá er sann­ar­lega ekk­ert við það að at­huga að sam­tök launa­fólks nýti kraft sinn og þunga til að þrýsta á já­kvæðar breyt­ing­ar í stjórn­kerf­inu – sama hvort það varðar lækk­un op­in­berra gjalda, niður­greiðslu skóla­máltíða eða kröfu um nýj­an gjald­miðil.

Það sem aft­ur á móti er at­huga­vert er hversu greiðlega rík­is­stjórn­in steig inn án þess að gera grein fyr­ir því hvernig hún myndi fjár­magna aðkomu sína. Sama rík­is­stjórn og gat ekki reist varn­ar­vegg um Grinda­vík fyr­ir 3 millj­arða króna án þess að leggja á nýj­an skatt ætl­ar núna að setja 80 millj­arða króna næstu fjög­ur árin í aðgerðir til þess að treysta kjara­samn­inga.

Tveir mánuðir eru liðnir síðan rík­is­stjórn­in gaf fyrst út að hún myndi svara kalli verka­lýðsfor­yst­unn­ar og Sam­taka at­vinnu­lífs­ins en á þeim tíma hef­ur þögn­in verið al­gjör um hvaðan pen­ing­arn­ir eigi að koma. Tónn­inn jafn­vel verið að það skipti ekki öllu máli.

Rík­is­stjórn­in hef­ur úr þrem­ur kost­um (eða ókost­um) að velja. Hún get­ur í fyrsta lagi fjár­magnað 80 millj­arðana með hærri skött­um. Það þýðir að kjara­bæt­ur al­menn­ings verða enn rýr­ari en sem nem­ur hinum hófstilltu kröf­um verka­lýðshreyf­ing­ar­inn­ar. Rík­is­stjórn­in get­ur í öðru lagi aukið op­in­bera lán­töku, sem er lík­leg til að kynda und­ir verðbólg­unni og brenna upp bæði kjara­bæt­ur og for­send­ur samn­ing­anna. Í þriðja lagi get­ur rík­is­stjórn­in ráðist í aðhald af stærðargráðu sem þessi rík­is­stjórn hef­ur aldrei sýnt vísi að. Hvaða leið, eða blöndu þess­ara leiða, rík­is­stjórn­in mun fara er stóra spurn­ing­in?

Til að Seðlabank­inn geti hafið langþráð vaxta­lækk­un­ar­ferli af al­vöru skipt­ir öllu máli að stjórn­völd svari þess­ari spurn­ingu og gefi þar með tón­inn með það hvort fjár­mögn­un­in muni vinna með eða gegn mark­miðum um auk­inn stöðug­leika og lægri verðbólgu.

Ég get ekki skilið við skrif um hina ný­gerðu kjara­samn­inga og mark­mið þeirra um lægri verðbólgu og lægri vexti án þess að árétta enn og aft­ur hversu miður það er að ekki hafi verið fall­ist á til­lögu Vil­hjálms Birg­is­son­ar for­manns Starfs­greina­sam­bands­ins um að fá óháða er­lenda aðila til að kanna kosti og galla við upp­töku ann­ars gjald­miðils. Svör for­manns Efl­ing­ar í Silfr­inu síðasta mánu­dag bera með sér að verka­lýðshreyf­ing­in sé ekki sam­stiga í þessu máli, þrátt fyr­ir að það gæti orðið heim­il­un­um meiri kjara­bót en nokk­ur samn­ing­ur milli verka­lýðshreyf­ing­ar og at­vinnu­rek­enda.

 

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. mars 2024